Tækni

Öfgafyllstu rannsóknarstöðvarnar

Þetta er enginn venjulegur dagur á skrifstofunni. Hvarvetna um heim allan er að finna öfgafullar og sérhæfðar rannsóknarstofur sem vísindamenn keppast um að nýta sér – allt eftir því hvort þeir þurfa á algjöru öryggi að halda, hljóðleysi, mikilli reiknigetu, einangrun eða þyngdarleysi. Komið með í för og heimsækið suma af ótrúlegustu vinnustöðum vísindanna.

BIRT: 04/11/2014

Mesti þrýstingur

Loftslagsbreytingar rannsakaðar á hafsbotni

 

Aquarius Reef Base við Key Largo í Flórída er eina rannsóknarstöðin neðansjávar í heiminum. Hún er á 18 m dýpi sem svarar til 2,5 földum loftþrýstingi. Vísindamenn eru þar 1 – 2 vikur og fara á milli í kafarabúningi. Sjálfur aðgangurinn að rannsóknarstöðinni er í gegnum loftloku. Aquarius stendur nærri kóralrifi sem vísindamenn hafa fylgst með frá árinu 1993. Auk þess er það notað við rannsóknir á áhrifum loftslagsbreytinga á umhverfi sjávar og prófana á neðansjávarbúnaði.

 

Hin öruggasta

 

Banvæn veira könnuð í öruggri rannsóknarstöð

Sóttvarnarstofnunin í Stokkhólmi rekur svonefnda P4-rannsóknarstöð, en fáar slíkar fyrirfinnast í heiminum. Þar vinna vísindamenn með hættulegustu örveirur heims eins og ebóla- og marburgveiruna. Fáeinir vísindamenn hljóta aðgang að rannsóknarstöðinni og hámarksöryggis er gætt. Sérhæfðir einangrunarbúningar með eigin súrefnisbúnaði eru nauðsynlegir. Rannsóknarstöðin er m.a. notuð til að kanna hvort sjúklingar séu smitaðir af banvænni sýkingu.

 

Mesta reiknigeta

 

Jagúarinn býr yfir ótrúlegri reiknigetu.

Það gengur hratt fyrir sig þegar ofurtölvan Cray XT5 er að störfum. Hún getur framkvæmt 2,3 betaflopps – 2,3 þúsund milljarða útreikninga á sekúndu. Öflugustu tölvu heims er að finna í National Center for Computational Scientist í BNA. Mikil ásókn er í jagúarinn eins og hann er nefndur, og fræðimenn standa í biðröð til að nýta krafta hans. Jagúarinn er notaður í hvers konar útreikninga, allt frá loftslagi framtíðar til þess hvernig t.d. úraníumlosunarslys getur dreifst um í stórfljótum.

 

Mesta dýpi

Fræðimenn leita fiseinda í djúpinu.

Tvo km niðri í aflagðri námu í austurhluta Kanada er SNOLAB að finna, sem er dýpsta rannsóknarstöð heims. Vegna staðsetningar sinnar er hún varin gegn bakgrunnsgeislun geimsins. Til að forðast betur staðbundna geislavirkni er þessari 5.000 m2 stóru rannsóknarstöð haldið tandurhreinni. Í henni leita menn eftir hulduefni, leifum sprengjustjarna og öreinda sem eru upprunar frá Miklahvelli. Einnig er leitað eftir fiseindum. Þetta er mikil áskorun þar sem fiseindir eru ekki með neina rafhleðslu og óhemju lítinn massa. Þær koma frá sólu og öðrum stjörnum og geta farið nær hindrunarlaust þvert í gegnum jörðina.

 

Sú kaldasta

Ískaldar tilraunir veita innsýn í atóm

Við alkul eða -273°C eru atómin algjörlega hreyfingarlaus meðan við stofuhita þeytast þau um á sama hraða og þotur. Við MIT-Harvard Center for Ultracold Atoms í Massachusetts, BNA, hefur vísindamönnum tekist að kæla natríumgas niður í hitastig sem er hálfum milljarðshluta úr gráðu yfir alkuli sem er heimsmet í kulda.

 

Við þetta hitastig tekur natríumatómin hálfa mínútu að hreyfast um 1 – 2 sm. Rannsóknir sýna að atóm hegða sér undarlega við slíkan fimbulkulda. Ástæðan er sú að þau fara ekki í fasa sem líkist hinum þremur þekktu: fast, fljótandi eða gas. Í tilrauninni er gasskýi haldið föstu í segulsviði þar sem engin ílát þola svo lágt hitastig. Þetta eru brautryðjandi rannsóknir sem munu veita okkur nýja þekkingu um frumeindirnar.

 

Mest brennda

Húsin skila greiningarniðurstöðu um bruna

Vísindamenn við Building and Fire Research Laboratory í BNA rannsaka hvernig bruni þróast og hvernig má verjast sem best gegn honum. Þetta gera þeir fyrst með því að byggja upp hús sem þeir kveikja síðan í. Meðan húsin brenna er geislunarhiti mældur jafnframt því sem magn kolildis, koltvíoxíðs og önnur kolefni sem bruninn losar er mælt.

 

Vísindamennirnir kveikja einnig smærri elda til að mæla hve mikinn hita tiltekin efni losa. Jólatré eru jafnvel brennd til að finna út hvernig jólatrésbruni þróast.

 

Það innilokaðasta

Hreyfingar íssins rannsakaðar undir jökli

Heillandi og rennblautt. Þannig lýsa vísindamenn heimsókn í innilokuðustu rannsóknarstöð heims sem staðsett er á botni jökuls. Svartisen Subglacial Laboratory liggur undir Engabræen rétt norðan heimskautabaugs í Noregi.

 

Inngangurinn að stöðinni liggur undir 200 metra þykku ísfargi og þegar vísindamenn rannsaka t.d. hvernig jökullinn skríður yfir undirlagið verða þeir fyrst að bræða sér göng til að fara um. Þetta er gert með brunaslöngum og heitu vatni. En ísinn á botni jökla er mjúkur, nánast eins og deig og því þurfa þeir að hafa hraðar hendur þar sem göngin síga jafnan saman um helming á einum sólarhring.

 

Leiðin til stöðvarinnar er einnig torsótt. Því hefur verið komið fyrir litlu hóteli nærri gangamunnanum fyrir 8 fræðimenn í senn, rétt eins og inni í klöppinni eru útbúnar varanlegri rannsóknarstofur.

 

Rannsóknir þar hafa m.a. gefið af sér nýja þekkingu um jökulís, hreyfingar hans og efnasamsetningu rétt eins og margar doktorsritgerðir grundvallast á rannsóknum þar. Að baki rannsóknarstöðinni stendur NVE, Norges Vassdrags- og Energidirektorat og Statkraft.

 

Mest skekjandi

Skekjandi tilraunir sundra byggingu

Það má kalla það skekjandi vinnustað þar sem vísindamenn við European Center for Training and Research in Earthquake Engenering við Pavía á Ítalíu rannsaka hvernig byggingar bregðast við jarðskjálfta.

 

Og þeir láta sér ekki nægja fræðin ein. Á rannsóknarstöðinni byggja þeir líkön af húsum í fullri stærð en síðan líkir risastór hristifleki eftir þeim öflum sem fara á kreik þegar jörð skelfur við jarðskjálfta.

 

Vísindamennirnir geta sannarlega skekið til byggingarnar þar sem þeir geta myndað hröðun allt að 6G eða sexfaldri þyngdarhröðun jarðar. Þeir hafa yfir að ráða einu af stærsta tæki heims við rannsóknir á burðarstyrk. Þannig öðlast þeir m.a. nýja þekkingu um hvernig mismunandi byggingarefni spjara sig í jarðskjálfta.

 

Rannsóknarstöðin er þó ekki sú eina sinnar tegundar – samsvarandi stöðvar er að finna í löndum sem verða oft fyrir jarðskjálftum, t.d. Japan.

 

Það hljóðlausasta

Hljóðlaust rými veitir algjöran vinnufrið

Hljóðeinangrað herbergi sem Orfields Laboratories Inc. hefur útbúið í Minnesota, BNA, er hljóðlausasti staður á jörðu. Rannsóknarstöðin er byggð inn í stærra herbergi með þykkum veggjum. Rýmið hvílir auk þess á fjöðrum svo enginn titringur sleppi inn. Þarna inni eru hundruðir af hljóðeinangrandi plötum sem draga í sig minnsta ískur.

 

Þess vegna er eina hljóðið sem heyra má þegar maður er staddur þarna inni þau sem líkami manns framkallar og t.d. er hjartslátturinn afar greinilegur. Hljóðþrýstingur er lægri en það minnsta sem eyrað fær greint. Það veitir bakgrunnssuðinu negatívt gildi sem nemur -9,4 dBA. Rannsóknarstöðin er notuð til að kanna hljóðfræðilega eiginleika ýmissa efna og búnaðar.

 

Sú óhugnalegasta

Rannsóknarstöðin er sett upp á hamfarasvæði

Þegar t.d. flugvél hrapar niður þurfa réttarmeinafræðingar að bera kennsl á fórnarlömbin. Sama verkefni bíður þeirra þegar fjöldagrafir finnast.

 

Af þessum sökum er komið upp færanlegri rannsóknarstöð nærri gröfinni þar sem líkamsleifar eru rannsakaðar og þær bornar saman við kennimerki frá fólki sem er saknað. Burmouth University í Bretlandi veitir m.a. kennslu í réttarmeinafræðilegum rannsóknum á fjöldagröfum.

 

Sú hægasta

Dropinn féll eftir 8 ár

Árið 1927 ákvað ástralski prófessorinn Thomas Parnell við University of Queensland að komast að því hvort bik sem samanstendur af þungum kolefnis- og vetnissamböndum mætti flokkast sem vökvi.

 

Hann kom klumpi af biki fyrir í trekt til að sjá hvort að dropar kæmu niður úr henni. Sú var raunin en það liðu átta ár áður en fyrsti dropinn féll og í kjölfar hans hafa einungis sjö aðrir dottið niður. Árið 1948 lést Parnell en við tilraun hans tók m.a. John Mainstone prófessor. Þökk sé tilrauninni vita vísindamenn nú að bik er vökvi þó að hann verði að teljast óvenjulega þykkfljótandi.

 

Sú hæstliggjandi

Öndunin er rannsökuð í pýramída í Himalaya

Við rætur heimsins stærsta fjalls, Mount Everest, liggur the Pyramid International Laboratory-Observatory. Staðsetningin mitt í fjallgarði Himalaya í 5.050 m hæð gerir rannsóknarstöðina að þeirri hæstliggjandi í heiminum.

 

Hér er rými fyrir 20 manns og fræðimenn um heim allan standa í biðröð til að framkvæma tilraunir í þunnu loftinu. Stöðin er m.a. nýtt til að rannsaka hvaða áhrif svo mikil hæð hefur á öndun manna en slíkar rannsóknir gætu komið mörgum hjartasjúklingum að góðum notum.

 

Sú suðlægasta

Ísteningar leita eftir leifum sprengistjarna

Splunkunýja bandaríska rannsóknarstöðin IceCube er staðsett á Suðurskautslandinu nærri Amundsen-Scott Southpolar Station.

 

Hér hyggjast vísindamenn skrá hinar ofurorkuríku fiseindir sem þeytast gegnum alheim eftir ógurlegar hamfarir eins og t.d. eftir sprengistjörnur eða gammablik. Fiseindir víxlverka sjaldnast við annað efni en þá sjaldan það gerist er vonast til að uppgötva það. 86 langir kaplar með nemum eru boraðir niður í ísinn. Sá lengsti nær heila 2.450 m niður í ísinn og er þannig varinn gegn truflandi bakgrunnsgeislun geims.

 

Sú mest svífandi

ISS Alþjóða geimstöðin

Frá árinu 1998 þegar ISS, International Space Station, var send á braut um jörðu, hefur þetta verið mest svífandi rannsóknarstöð í heimi. ISS þeytist með 28.000 km/klst. hraða og hringar jörðina á 91 mínútu í hæðum sem sveiflast milli 278 og 460 km.

 

Breytilegar alþjóðlegar áhafnir nýta þyngdarleysið um borð við fjölmargar tilraunir eins og t.d. ýmis konar efnarannsóknir, rannsóknir á áhrifum þyngdarleysis á mannslíkamann eða ræktun grænmetis. Geimfararnir um borð rækta t.d. bæði salat, radísur og baunir. Auk þess er sá búnaður prófaður sem mun síðar verða notaður í leiðangra til Mars eða tunglsins.

 
 

Náttúran

Bakteríur örva ilminn af sumarregni

Lifandi Saga

Hvað átti sér stað við Wounded Knee árið 1973?

Maðurinn

Geta matvörur varið húðina gegn útfjólubláum geislum sólar?

Spurningar og svör

Hvað á eiginlega að gera við kjarnorkuverið í Tjernobyl?

Maðurinn

Myndir af einangruðum ættflokki sýna mannlegan harmleik, samkvæmt verndarsamtökum

Jörðin

Af hverju er ís svona háll?

Náttúran

Krabbar hafa farið sömu ferðina 17 sinnum

Maðurinn

Er veganmatur óhollur börnum?

Náttúran

Risaeðlubeinagrind seld fyrir meira en sex milljarða króna á uppboði.

Alheimurinn

Fullt tungl 2024 – Hvenær er tunglið fullt?

Heilsa

Líkamleg snerting er mikilvæg milli föðurs og ungabarns

Maðurinn

Vísindamenn vara við langvarandi notkun á snuði

ÁSKRIFT AÐ VÍSINDI.IS

Prófaðu í 14 daga ókeypis!

  • Fullur aðgangur að vefnum okkar með rúmlega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Lifandi vísindi/Lifandi saga í rafrænni útgáfu á vefnum,
  • Aðeins 1.790 krónur á mánuði.
  • Engin skuldbinding – Þú getur hætt hvenær sem er.

ÁSKRIFT AÐ TÍMARITINU

Þrjú tölublöð + gjöf: Skemmtilegur sjónauki
  • Þrjú næstu tölublöð Lifandi vísinda/Lifandi sögu – sent heim til þín – eins færðu lítinn og vandaðan sjónauka að gjöf.
  • Fullur aðgangur að vefnum okkar – visindi.is – með tæplega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Spennandi greinar og flottar myndir sem svala forvitni þinni.
  • Þú getur hætt eftir tilboðið en ef þú heldur áfram skuldbindur þú þig aðeins þrjú tölublöð í einu og þú getur sagt upp hvenær sem sem og klárar þá tímabilið sem er hafið.
  • Venjuleg áskrift – þrjú tölublöð – kostar aðeins 7.590 kr

Sjónauki og þriggja blaða áskrift – Alls 3.800 kr.

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Search

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.