Risavaxin eldstöð undir Yellowstone þjóðgarðinum í Bandaríkjunum sækir krafta í aðra atburðarás en menn hafa talið.
Útreikningar í nýju tölvulíkani þykja benda í þá átt.
Fram að þessu hafa menn álitið að hér væri svonefndur „heitur reitur“, kvikurás sem næði allt inn að kjarna jarðar.
Þannig háttar t.d. til á Hawaii, en gos úr heitum reit hafa skapað eyjaklasann. Þar eð Kyrrahafsflekinn færist til austurs, hefur hvert stórgos skapað nýja eyju.
Heiti reiturinn aldrei fundist
Menn hafa talið að heiti reiturinn undir Yellowstone hafi um milljónir ára færst úr stað á svipaðan hátt, en hins vegar aldrei náð að staðsetja heita reitinn nákvæmlega með jarðskjálftamælingum.
Ástæðan skýrist með nýju tölvulíkani jarðfræðinga hjá Illinoisháskóla í BNA: Þarna er enginn heitur reitur. Önnur kenning kemur hins vegar ágætlega heim við niðurstöður jarðskjálftamælinganna.
Nú segja vísindamennirnir orsökina vera gamlan jarðskorpufleka, sem þrýstist undir Norður-Ameríkuflekann fyrir um 200 milljón árum.
Þessi gamli fleki – nefndur Farallonflekinn – dregur annan skorpufleka á eftir sér í djúpið, lítinn fleka sem nefnist Juan de Fuca-flekinn.
Atburðarásin sogar hraunkviku til austurs og það er sú kvika, sem gæti rutt sér braut upp á milli brota úr Juan de Fuca-flekanum og valdið gríðarmiklu eldgosi.
Ofureldstöð er skilgreind þannig að hún geti gosið meira en 1.000 rúmkílómetrum af gjósku í einu gosi.
Síðast sýndi eldstöðin undir Yellowstone tennurnar fyrir 640.000 árum, en þá sprengdi hún af sér toppinn og dreifði 330 rúmkílómetrum af gjósku yfir alla Norður-Ameríku.
Kvika safnast undir ofureldstöð
Lítill jarðskorpufleki, kallaður Juan de Fuca, brotnar þegar gamall skorpufleki dregur hann á eftir sér í djúpið. Hraunkvika stígur upp á milli brotanna.
Ofureldstöðin í Yellowstone er enn virk eins og goshverir á svæðinu bera vitni um.
Gamall fleki sekkur í djúpið
Gamall jarðskorpufleki, Farallonflekinn, tók að sveigjast niður undir Norður-Ameríkuflekann fyrir 200 milljón árum.
Lítill fleki fylgir og brotnar
Litli Juan de Fuca-flekinn sogast niður og brotnar í minni stykki. Um leið sogast heit kvika til austurs.
Bráðin kvika stígur upp
Hraunkvika úr möttlinum kemst á milli brotanna og gæti komst alla leið upp og valdið eldsumbrotum.
Kvikuhólf safna efni í stórgos
Hluti kvikunnar safnast í stór kvikuhólf og getur komist upp og valdið ofurgosi.