Hvernig stendur á því að sumt fólk kann því vel að vera á eilífum þeytingi milli staða, sækja fundi og ráðstefnur um allan heim, ásamt því að halda stöðugt sambandi við fjölmarga vini eða viðskiptafélaga og grípur hvert tækifæri sem gefst til nýrra, rómantískra kynna? Og hvers vegna eru svo aðrir sem byggja tilveru sína á föstum liðum, sem gefa góðan tíma til þess að sinna vinnunni vel, vera fjölskyldu og vinum til aðstoðar, sýna maka sínum ávallt næga athygli og umhyggju og skipuleggja barnaafmælin í þaula?
Á sviði persónuleikasálfræðinnar má nú heita orðin samstaða um að lýsa megi persónuleika hvers og eins út frá fimm grundvallarþáttum; eiginleikum sem við búum yfir í misjafnri blöndu. Kenningin um þessa þætti eða „víddir“ á uppruna sinn í sálfræðirannsóknum, en fær nú einnig stuðning í niðurstöðum rannsókna þar sem grunnþættirnir eru tengdir ákveðnum heilastöðvum. Með nútíma skönnunaraðferðum geta vísindamenn auðveldlega séð hvernig ákveðin tauganet í heilanum virkjast fremur í sumu fólki en öðru og tilraunir hafa sýnt að ákveðin tengslanet taugastöðva tengjast ákveðnum grunnþáttum persónuleikans. Þróunarsérfræðingar hafa svo að auki bent á að í þróunarsögunni megi finna fullgildar ástæður þess að mannfólkið hafi þróað mismunandi gerðir persónuleika.
Misjöfn blanda
Fimm-þátta-persónuleikamódelið, eins og þessi kenning er oft nefnd, skilgreinir persónuleika á grundvelli eftirfarandi fimm „eiginleika“: Útsækni, óstöðugleika, nákvæmni, tengslahæfni og meðtökuhæfni. Allt fólk býr yfir öllum þessum eiginleikum, en þeir vega misþungt hjá hverjum og einum og það er þessi mismunandi blanda sem ákvarðar persónuleikann. Fólk sem fer víða til fundahalda og á sér stóran vinahóp er þannig útsæknara en fólk er að meðaltali. Þeir sem vanda til verka og sjá til þess að hafa tíma fyrir sína nánustu mælast hins vegar með hærra skor varðandi nákvæmni og tengslahæfni.
Sú niðurstaða vísindamannanna að einmitt þeir eiginleikar sem móta persónuleikann séu einmitt þessir fimm, er ekki byggð á neinni ágiskun. Kenningin byggist á tölfræðilegri aðferð sem nefnist þáttagreining. Þetta er stærðfræðileg greiningaraðferð sem gerir mögulegt að reikna út tengsl milli ákveðinna atriða. Þannig má t.d. reikna út hversu miklar líkur eru á að B sé til staðar ef A er til staðar. Og á sama hátt má þá reikna líkurnar á að B sé ekki til staðar.
Kynfíknir ná oft frama
Eins og um allar aðferðir tölfræðinnar, gildir hér að niðurstöðurnar verða því traustari sem gagnasafnið er stærra. Og reyndar hefur í áranna rás safnast upp mikið af gögnum varðandi persónuleika fólks. Með talsverðri einföldun má segja að sálfræðingar hafi reiknað út að líkurnar á að ákveðinn einstaklingur eigi sér bæði marga bólfélaga og hafi áhuga á starfsframa séu nokkuð miklar. Það er líka algengt að fólk sem á auðvelt með að setja sig inn í tilfinningar annarra hafi traust tengsl við aðra. Og á sama hátt má nýta þáttagreininguna til að finna út hvaða þætti er sjaldgæft að finna saman.
Fimm-þátta-módelið var nefnt til sögunnar í fyrsta sinn árið 1933 og þá af sálfræðingnum L.L. Thurnstone, sem var frumkvöðull á sviði persónuleikagreiningar. Á þeim rúmu 75 árum sem síðan eru líðin hafa sálfræðingar prófað fólk og beðið það að lýsa bæði sjálfu sér og öðrum og síðan reynt að heimfæra niðurstöðurnar upp á kenninguna. Einkum eiga hér stóran hlut að máli bandarísku sálfræðingarnir Paul Costa og Robert McCrae sem lögðu mikla vinnu í að safna persónuleikaprófum og greina þau allt frá því á 8. áratugnum, en starf þeirra hefur mjög styrkt menn í þeirri trú að grunnvíddirnar séu fimm. Þeir hafa einnig þróað persónuleikaprófið „NEO Personality Inventory“ oftast nefnt NEO PI, sem mælir einmitt hinar 5 víddir fimm-þátta-módelsins og telst nú til áreiðanlegustu persónuleikaprófa.
Costa og McCrae hafa sýnt fram á að grunnvíddirnar fimm halda sér þótt fólk eldist, að þær birtast einnig í öðrum persónuleikamódelum sem byggjast á þáttagreiningu og þær má greina hjá fólki um allan heim óháð aldri kyni eða kynþætti. Einnig tengjast þær erfðum að einhverju leyti. Það er sem sagt að miklu leyti vegna starfa þessara tveggja vísindamanna sem fimm-þátta-módelið er nú almennt talið besta kenningin hingað til varðandi þá grunnþætti sem skapa persónuleika fólks.
Sést í heilanum
Nú eru einnig horfur á að a.m.k. sumar þessara 5 vídda öðlist staðfestingu á grundvelli nýrra, taugafræðilegra rannsókna. Að vísu er talsvert púsl að raða niðurstöðum saman og enn á eftir að líða nokkur tími áður en unnt verður að staðfesta persónuleikaþættina taugafræðilega. Breski persónuleikafræðingurinn Daniel Nettle, sem aðhyllist fimm-þátta-módelið, orðar þetta þannig: „Nýjungin er sú að við getum nú byrjað að tengja saman þá eiginleika persónuleikans sem fólk lýsir sjálft og virkni taugatengsla í heilanum og séð þannig að það sem við segjum um okkur sjálf, sé í rauninni bein líkamleg staðreynd.“
Það er á síðustu 10 árum sem menn hafa getað byrjað að sanna taugafræðileg einkenni persónuleikaþátta. Richard A. Depue hjá Cornell-háskóla og Paul F. Collins hjá Oregon-háskóla lýstu árið 1999 hvernig félagslynt fólk sýnir öflugri viðbrögð í miðheila og tauganeti hans kringum heilastöðina „nucleus accumbens“ sem er umbunar- eða verðlaunakerfi heilans, þegar viðkomandi fékk örvun í formi sykurs, peninga, eiturlyfja eða mynda af hinu kyninu, en samsvarandi viðbrögð í heila einstaklings sem í persónuleikaprófi fær lágt skor á sviði útsækni. Taugafrumur á þessu heilasvæði nota dópamín sem boðefni og það hefur því orðið þekkt sem umbunarefni heilans. Þetta veitir taugafræðilega skýringu á því hvers vegna félagslynt fólk með öll þau einkenni sem því tengjast, sýnir öflugri viðbrögð við jákvæðum tilfinningum.
Fólk sem fékk hátt skor á óstöðugleikakvarðanum reyndist á hinn bóginn með mun meiri virkni í heilastöðinni amygdala, þegar því voru sýndar myndir af stríði, sársauka, ógn og öðru sem vekur neikvæðar tilfinningar. Amygdala er eins konar varðstöð heilans og sér til þess að adrenalíni sé dælt út í líkamann þegar þörf er fyrir aukaorku til að mæta ógnun. Það er ekki síst Joseph LeDoux við New York-háskóla sem sýnt hefur fram á þýðingu viðbragða í þessari heilastöð.
Andstæður rúmast saman
Þar eð víddir persónuleikans eru ekki háðar hver annarri og – eins og heilaskannanir sýna nú – grundvallast á virkni mismunandi heilastöðva, er sem best hægt að fá hátt skor bæði varðandi útsækni og óstöðugleika, þótt þetta tvennt virðist stangast á.
Nákvæmnisvíddin hefur einnig verið rannsökuð frá sjónarhóli taugafræðinnar og margt bendir til að hún tengist góðri sjálfsstjórn. Svo mikið er víst að aukin virkni hefur mælst hægra megin í ennisblaði – einmitt þar sem dómgreind er talið stjórnað – hjá því fólki sem í persónuleikaprófum fékk hátt skor á sviði nákvæmni. Tveir þekktir taugasérfræðingar, Antoine Bechara og Antonio Damsaio, hafa einkum lagt mikið af mörkum á þessu sviði á grundvelli rannsókna sinna á fólki sem orðið hefur fyrir sköddun í ennisblaði.
Sú vídd persónuleikans sem um hefur ríkt mest óvissa er tengslahæfnin, en nú hafa vísindamennirnir einnig komist hér nokkuð áleiðis. Í febrúar 2008 birtu Daniel Nettle og Bethany Liddle grein í „European Journal of Personality“ þar sem þeir styðjast við niðurstöður tveggja vísindarannsókna í rökstuðningi sínum fyrir því að tengslahæfni tengist fyrirbrigði sem innan sálfræðinnar gengur undir heitinu „Theory of mind“ (eiginlega hugarkenningin) eða „samkenndarhæfni“, og lýsir hæfni fólks til að setja sig í spor annarra.
Niðurstöður beggja þessara rannsókna voru þær að fólk sem náði háu skori í tengslahæfni á persónuleikaprófi, náði í langflestum tilvikum einnig háu skori á samkenndarhæfnisprófi. Slíkt próf mælir hæfni til að setja sig í spor tiltekins einstaklings eftir að hafa heyrt sögu hans um samskipti við aðra. Þetta er áhugavert út frá því sjónarmiði að talsvert hefur verið rannsakað hvernig skilja megi þessa samkenndarhæfni á taugafræðilegum forsendum. Einkum hafa þær rannsóknir sem Mark A. Sabbagh, við Queens-háskóla, lýsti árið 2004 í grein í „Brain and Cognition“ haft mikla þýðingu varðandi skilning manna á samkenndarhæfninni á grundvelli taugafræðinnar. Hann lýsir því hér hvernig hæfnin til samúðar og að lifa sig inn í aðstæður annarra tengist augntóftarblaðinu og miðhlutum gagnaugablaðanna í heilanum. Nú virðist sem sé ástæða til að ætla að þetta tauganetverk hafi hlutverki að gegna varðandi tengslahæfnina.
Óljósust hinna fimm vídda persónuleikans er meðtökuhæfnin og vísindamenn velta enn fyrir sér hvað helst beri að kalla þessa hæfni. Sumir vísindamenn hafa fært rök að því að fimmtu víddina ætti einfaldlega að kalla greind. Ástæða þess að menn halda sig við orðið meðtökuhæfni (e: openness to experience), er sú að þessi vídd persónuleikans einkennist af fegurðarskyni og opnum huga gagnvart hinu óhlutbundna ásamt sveigjanleika í skilningi á því að einhverju gæti verið öðruvísi háttað en virðist við fyrstu sýn. Ýmislegt bendir til að meðtökuhæfnin feli í sér fjölbreytta skilningsgáfu.
Daniel Nettler segir:
„Ég held ekki að unnt sé að tengja meðtökuhæfnina við ákveðinn stað í heilanum, heldur fari hún eftir því hvernig mismunandi heilastöðvar vinna saman. Margt fólk með mikla meðtökuhæfni tengir auðveldlega margar heilastöðvar og það er það sem skapar þessi einkenni.“
Það eru sem sagt að koma fram taugafræðilegar sannanir fyrir því að persónuleiki fólks byggist á því hversu vel ákveðin tauganet í heilanum starfa. Næsta spurning er svo hvers vegna sumt fólk þroskar ákveðnar heilastöðvar umfram aðrar. Það mætti nefnilega ætla að þróunin hefði fyrir mjög löngu náð að skapa nákvæmlega þann eina persónuleika sem hæfði tegundinni Homo sapiens. En að sögn þróunarsérfræðinga er málið reyndar ekki svo einfalt.
Persónuleiki fugla
Ýmislegt bendir til að forstig allra fimm persónuleikavíddanna sé að finna nokkuð víða. Þennan skilning hafa menn öðlast m.a. með dýrarannsóknum. Líffræðingurinn Niels Dingemanse við háskólann í Groningen í Hollandi hefur náð einna lengst á þessu sviði, en á árunum 1999-2001 rannsakaði hann hvernig persónuleikaeinkenni fugla skiptu máli varðandi afkomu þeirra við mismunandi aðstæður. Dingemanse og félagar hans fylgdust með hópi flotmeisa í 3 ár og athuguðu hvernig fuglunum vegnaði á grundvelli atferlis síns. Rannsóknirnar sýndu að forvitnustu og grimmustu kvenfuglunum vegnaði best þegar skortur var á fæðu. Á þeim tímum sem fæðuframboð var nóg lifðu varfærnari fuglar fremur af. Þetta bendir til þess að þegar nógan mat er að fá, sé engin ástæða til að setja sig í þá hættu sem forvitninni getur fylgt, en það borgi sig aftur á móti að taka áhættuna þegar matarskortur ríkir.
Það er því ekki unnt að fullyrða að einn ákveðinn persónuleiki sé heppilegastur. Það getur bæði farið eftir umhverfi og félagsskap, hverjum vegnar best hverju sinni. Það fer eftir aðstæðum hverju sinni hvort heppilegt er að hafa hátt skor á ákveðinni persónuleikavídd fremur en annarri. Þar eð aðstæður manna hafa breyst bæði oft og mikið í þróunarsögunni, hefur einn, ákveðinn og samræmdur persónuleiki aldrei náð að festa sig í sessi.
Útsæknir vilja tilbreytni
„Ég held að útsækni hafi þróast til að mæta aðstæðum sem taka sífelldum breytingum, enda þarf fólk þá jafnóðum að finna sér nýjar aðferðir,“ segir Daniel Nettle.
Það má þannig ímynda sér að útsækni komi sér vel fyrir fólk sem hyggur á búsetu í nýju landi, eða stendur skyndilega frammi fyrir alveg nýjum aðstæðum af einhverjum sökum. Eins og taugafræðilegar rannsóknir hafa sýnt bregst útsækið fólk mjög sterklega við jákvæðum tilfinningum. Af því leiðir að þetta fólk sækir í að endurtaka það sem vekur jákvæðar tilfinningar. Oft felst þetta í einhvers konar félagslegu atferli, þar sem viðkomandi hefur ekkert á móti því að vera í miðri hringiðu viðburðanna, ná frama og háum launum og síðast en ekki síst, stunda kynlíf. Útsæknin er aftur á móti ekki heppilegur eiginleiki til að byggja upp traust fjölskyldulíf, né heldur til langlífis. Rannsóknir hafa nefnilega sýnt að einkum útsæknir karlmenn eru bæði líklegri til að skilja og lenda í alvarlegum slysum.
Ef hættur leynast af einhverjum ástæðum í umhverfinu, getur óstöðugleikinn komið sér betur. Samkvæmt fimm-þátta-módelinu einkennist óstöðugleikinn af því að fólk er sífellt á varðbergi gagnvart hvers kyns neikvæðum tilfinningum, en af því leiðir að þetta fólk reynir að koma sér hjá öllu því sem vekur slíkar tilfinningar. Þetta getur komið sér vel þegar einhver ógn steðjar raunverulega að. En sé svo ekki getur eiginleikinn valdið talsverðum erfiðleikum. Fólk sem mælist hátt á þessum kvarða á t.d. þunglyndi fremur á hættu en aðrir. Margir spjara sig þó vel í lífinu vegna þess að þeir gera allt sem í þeirra valdi stendur til að koma í veg fyrir að það sem þeir óttast verði að veruleika og eru þar af leiðandi bæði vinnusamir og vandvirkir.
Rannsóknir benda til að félagslegur stuðningur við einstaklinga vaxi í réttu hlutfalli við tengslahæfni þeirra. Félagslegur stuðningur er mikilvægur þegar þörf er á vernd hópsins. Í grein sinni lýsa Nettle og Liddle því hvernig konur mælast yfirleitt hærri á þessum kvarða en karlmenn. Þessa staðreynd tengja þeir því að konur hafi í sögulegu samhengi haft meiri þörf fyrir hópstuðning en karlar, vegna þess að þær þurftu að sjá um börnin. Konur auka þannig lífslíkur tegundarinnar með tengslahæfni sinni, en allt annað gildir um karlana. Margt bendir til að karlar nái fremur árangri með því að öðlast völd og eignir, þar eð slík staða laði að þeim fleiri konur, þótt hún á hinn bóginn sé nánast andstæð tengslahæfninni.
Nákvæmni hæst metin
Þótt fjölmiðlar okkar daga hampi gjarnan hinum nýjungagjörnu og sköpunarglöðu, sem yfirleitt ná háu skori í útsækni, telur Daniel Nettle ekki þar með sagt að þetta sé sá eiginleiki sem fólk meti hæst.
„Ég held vissulega að okkur þyki opið og félagslynt fólk mjög hrífandi. En ef við lítum til þess sem best er verðlaunað í samfélaginu – einkum í Englandi – þá er það að hafa lokið góðu skólanámi, hafa stundað námið vel, starfa hjá stórum vinnuveitanda og að fara eftir reglunum. Það er einungis lítill hópur fólks sem hefur náð langt vegna útsækni sinnar eða meðtökuhæfni, en miklu fleiri sem ná velgengni með því að ávinna sér traust og fylgja settum reglum.“
Nettle telur sem sagt að nákvæmnin sé sá persónuleikaþáttur sem mest sé í hávegum hafður á okkar tímum. Fólk sem einkennist umfram annað af nákvæmni, gætir þess að standa alltaf við sitt og þetta er einmitt það atriði sem helst er unnt að byggja spár á um frama í starfi.
Þótt persónuleikinn eigi sem sagt rætur sínar í heilanum, eins og taugafræðilega hefur nú verið sýnt fram á, þýðir lítið að ætla sér að breyta honum, t.d. ef nákvæmnin er ekki áberandi þáttur. Hitt er mun raunhæfara að skipta um umhverfi. Til allrar lukku hafa rannsóknirnar nefnilega einnig sýnt fram á að til eru nánast hinar fullkomnu aðstæður fyrir allar megingerðir persónuleikans.