Um 2,5 % allrar losunar gróðurhúsalofttegunda eiga rætur að rekja til farþegaflugs og hlutfallið eykst stöðugt.
Nú hefur kínverskum vísindamönnum við háskólann í Wuhan tekist að þróa þotuhreyfil sem einvörðungu nýtir loft og rafmagn sem knúningsafl. Kínverjarnir telja meira að segja að hægt verði að stækka hreyfilinn og nýta til að knýja farþegaflugvél.
Loft þjappast saman í röri hreyfilsins, þar sem það jónast með hjálp örbylgna sem eru framleiddar í svonefndum örbylgjuvaka með 1.000 vatta styrk. Jónað loftið breytist í plasma sem virkjar og myndar útblástur sem sér fyrir knúningsafli.
MYNDSKEIÐ: Hér má sjá plasmahreyfil lyfta stálkúlu í rannsóknarstofu.
Frumgerðin er fær um að lyfta upp stálkúlu sem vegur eitt kíló og vísindamenn telja að knúningsafl hennar samsvari knúningsafli þotuhreyfla.
Hægt að nota plasma í flugferðir
Plasma er eitt fjögurra efnisástanda en hin eru fast efni, fljótandi ástand og loftkennt. Plasma myndast í náttúrunni þegar sameindir í lofttegundum jónast við hátt hitastig (t.d. í sólinni) eða þá í öflugu rafsegulsviði (t.d. í eldingum).
Plasma er m.a. notað í neónljós og sjónvarpsskjái og í raun réttri einnig nú þegar í hreyflum.
Svona virkar mótorinn - í stuttu máli: Loftþjöppur í þotuhreyflinum setur upphafsloftflæði af stað, sem er jónað í plasma og hitað upp í háan hita og háan þrýsting með öflugum örbylgjum.
Eldri plasmahreyflar mynduðu mjög takmarkað knúningsafl sem nægir þó algerlega fyrir farartæki á borð við Dawn-háloftakannann hjá NASA sem hreyfist úti í geimnum þar sem engrar loftmótstöðu gætir. Lítið knúningsafl getur með margra mánaða og ára hröðun orðið að miklum hraða. Þetta á hins vegar ekki við í andrúmsloftinu.
Nýi hreyfillinn kann þess vegna að valda straumhvörfum. Vísindamenn eiga þó eftir að yfirstíga mikinn vanda en með því er átt við að prófa þurfi og finna réttu efnin í plasmahreyfilinn. Plasma hitnar nefnilega svo gífurlega að það bræðir flest efni.