Stjörnufræði
Í 400 ár hafa sjónaukar með linsum og speglum verið mikilvægustu áhöld stjörnufræðinga.
Nú lítur út fyrir að í framtíðinni verði unnt að smíða miklu léttari sjónauka með annarri tækni. Þessir nýju sjónaukar byggjast á þunnri, gataðri málmskífu, sem nýtir það sérstaka bylgjueðli ljóssins að taka sveigju þegar það fer hjá kanti efnis.
Með því að dreifa götunum í málmskífunni rétt má tryggja að allir hlutar ljósgeisla safnist í sama punkti eftir að hafa farið hver í gegnum sitt gat. Þar með hefur tekist að fókusera ljósið án þess að nota linsu eða spegil.
Þessi svonefndi Fresnel-sjónauki kemur til með að henta afar vel í geimnum, þar eð þunn málmhimna í ramma er miklu léttari en hefðbundinn geimsjónauki og því ódýrara að koma henni út í geiminn.
Nýi sjónaukinn á að gefa jafngóða upplausn og hinir hefðbundnu, þótt hann greini reyndar ekki nema um 10% af ljósmagninu. Hópur franskra vísindamanna undir forystu Laurents Koechlin hefur þegar fært sönnur á möguleikann í rannsóknastofu og ætlunin er að byggja lítinn Fresnel-sjónauka sem settur verði upp á jörðu niðri á næsta ári.