Risastór loftsteinn, um 2 km í þvermál gæti hafa skollið til jarðar fyrir um 146 milljón árum, þar sem nú er Lýðveldið Kongó. Þetta segja vísindamenn við Padovaháskóla á Ítalíu eftir athuganir á nákvæmum gervihnattamyndum frá bandaríska fyrirtækinu TerraMetrics Inc.
Á myndunum má grein hring, sem er 46 km í þvermál þar sem hann er breiðastur. Svæðið kallast Wembo-Nyama og í hringnum rís yfirborðið 50-60 metrum hærra en í kring. Þetta virðist nokkuð merkilegt við fyrstu sýn, en ítölsku vísindamennirnir skýra það þannig að höggið frá slíkum loftsteini geti komið klöpp í neðri jarðlögum til að lyftast upp í eins konar kúpul. Síðan hefur tímans tönn veðrað svæðið í kring þannig að kúpullögunin sést enn greinilegar. Nú er fyrirhugaður leiðangur á svæðið og ætlunin er að sanna eða afsanna þessa tilgátu ásamt því að vinna nákvæmari tímasetningu.