Næst þegar þú situr á ströndinni og lætur sandinn renna milli fingranna geturðu leitt hugann að því að þú situr með um 500 milljarða af bakteríum í lófanum.
Aðeins eitt einasta sandkorn úr kvartsi rúmar allt að 100 þúsund bakteríur af mismunandi tegundum.
Vísindamenn hjá Max Planck-stofnuninni í Bremen í Þýskalandi athuguðu hversu margar bakteríur væri að finna sandi, sem sóttur var í grennd við litlu eyjuna Helgoland í Norðursjó.
Fjöldi bakteríanna kom vísindamönnunum ekki á óvart en það gerði fjölbreytnin hins vegar. Á einu, stöku sandkorni mátti finna mörg þúsund mismundandi tegundir.
Skiptingin var þó ekki alls staðar eins. Nokkrar tegundir var nánast alls staðar að finna, en aðrar fundust aðeins á tiltölulega fáum sandkornum.
Forystumaður rannsóknarinnar, sjávarlíffræðingurinn David Probandt, telur að þær tegundir sem er að finna á öllum sandkornum, gegni að líkindum saman hlutverki í öllu vistkerfinu á þessum slóðum.
Þrífast vel í sprungum
Úrvinnsla bakteríanna úr kolefni, köfnunarefni og brennisteini er mikilvægur hlekkur í hringrás þessara efna um allan hnöttinn og sú hringrás snertir allar lífverur á jörðinni.
Smásjár vísindamannanna leiddu líka í ljós að bakteríurnar dreifast ójafnt um yfirborð kvartskornanna.
Sléttir fletir á sandkornunum eru að mestu lausir við bakteríur, en þær þrífast vel í smáum sprungum og ójöfnum sem verja þær bæði fyrir núningi og soltnum óvinum.