45 ára gamall stjörnusjónauki í Arizona í BNA er með það það hlutverk að leysa eina dularfyllstu ráðgátu alheimsins en verkefnið hófst árið 2019. Við sjónaukann bættust 5.000 smátæki, sem hvert um sig er á stærð við blýant.
Tækin eru forrituð til að beina hvert sínum ljósleiðarastreng að jafnmörgum, fjarlægum stjörnuþokum og safna litasýnum frá þeim. Ljósið verður sent áfram í litrófsgreininn DESI, sem ákvarðar bylgjulendir ljóssins.
Breytingar á bylgjulengdum sýna hversu hratt stjörnuþokurnar fjarlægjast okkur og á grundvelli þeirra upplýsinga geta stjörnufræðingarnir reiknað út hversu hratt alheimurinn þenst út.

Það hefur lengi verið ljóst að ekki aðeins þenst alheimurinn út, heldur þenst hann út á vaxandi hraða. Þetta þýðir að til hlýtur að vera óþekkt afl, sem vinnur gegn þyngdaraflinu og hefur betur þegar fjarlægðin er nógu mikil.
Þetta afl hefur verið nefnt myrk orka vegna þess að um hana er í raun ekkert vitað. Útreikningar sýna þó að hún sé allt að 70% af öllu efni og orku alheimsins samanlagt.
Þar eð sjónaukinn er fær um að fylgjast með ljósinu frá 5.000 fjarlægum stjörnuþokum í einu, verður unnt að mæla hraðann á alls um 30 milljón stjörnuþokum á næstu fimm árum.
Sjónaukinn verður fær um að greina ljós frá stjörnuþokum í allt að 11 milljarða ljósára fjarlægð.
DESI-verkefnið hófst vorið 2019 og með því er ætlunin að skapa nákvæmasta kort sem gert hefur verið af alheiminum hingað til.