Háskerpumyndir frá öflugasta geimsjónaukanum, James Webb, hafa gert mögulegt að skoða heitt ryk kringum stjörnuna Formalhaut sem er í aðeins 25 ljósára fjarlægð.
Þessi unga stjarna lýsir 15 sinnum skærar en sólin og er ein af þeim skærustu á næturhimni. Nú hafa innrauðar myndavélar sjónaukans leitt í ljós að kringum hana er bæði loftsteinabelti og tveir gríðarmiklir rykhringar.

Innrauða myndin frá James Webb-sjónaukanum afhjúpaði þrjú rykbelti kringum stjörnuna Formalhaut og innri beltin tvö voru áður óþekkt. Ysta beltið nær allt að 23 milljarða km út frá stjörnunni.
Eldri myndir frá Hubble-sjónaukanum sýndu að þessi 440 milljón ára gamla stjarna virtist umlukin steinum og ryki.
Nýjar myndir frá James Webb-sjónaukanum sýna hins vegar að byggingarlag rykskýjanna er mun flóknara en t.d. loftsteinabeltið eða Kúíperbeltið í okkar sólkerfi.
Alls eru þrjú belti kringum stjörnuna Formalhaut og ná heila 23 milljarða kílómetra út frá stjörnunni.
Tvö innri beltin voru stjörnufræðingum áður ókunn og bilin milli beltanna gætu gefið til kynna að um stjörnuna snúist tvær óþekktar plánetur.