Loftslag
Ljós ský á himni gera loftslaginu gott.
Þau endurvarpa nefnilega sólargeislunum í stað þess að drekka þá í sig og þannig dregur úr gróðurhúsaáhrifum á jörðinni. Það er sem sagt skynsamlegt að hafa sem allra flest ský svo ljóslit sem mögulegt er.
Stephen Salter, prófessor í verkfræði við Edinborgarháskóla í Skotlandi, er meðal talsmanna þessarar skoðunar. Ásamt breskum og bandarískum verkfræðingum hefur hann teiknað frumgerð að fjarstýrðum skipum sem þúsundum saman gætu lýst upp skýin frá heimshöfunum.
Hugmyndin er sú að þessi skip sprauti fíngerðum úða úr hafinu og upp í skýjahæð.
Ekki er ætlunin að þessir dropar myndi ný ský, heldur gefa þeim skýjum sem fyrir eru ljósari áferð. Því fleiri sem droparnir eru í skýi, því stærra verður yfirborðið og um leið endurkastar það meira ljósi. Þessi verkun, sem einmitt er sjálfur kjarni hugmyndafræðinnar, kallast Twomey-áhrif.
Ætlunin er að skipin verði búin 20 metra háum snúningsstrokkum sem eiga að knýja skipið áfram og um leið stór skrúfublöð undir skrokknum sem dæla vatni úr sjónum og sprauta upp í loftið.
Vísindamennirnir telja þörf fyrir 1.200 – 1.500 slík ómönnuð skip til að vega á móti þeirri hlýnun sem losun koltvísýrings veldur.