Jörðin er með hjartslátt sem með 15 milljón ára millibili sendir afar öfluga kvikustrauma upp undir háhitasvæði í jarðskorpunni. Þetta sýnir ný umdeild jarðfræðirannsókn frá Noregi.
Rolf Mjelde við háskólann í Björgvin og Jan Inge Faleide við Oslóarháskóla hafa nýtt skjálftamælingar til að meta þykkt hafsbotnsins milli Íslands og Grænlands.
Ísland liggur á Mið-Atlantshafshryggnum, sem er eldvirkt sprungusvæði (Reykjaneshryggurinn).
Þarna vellur kvika upp úr iðrum jarðar og þrýstir hafsbotnsplötunum beggja vegna í sundur í takt við að þær storkna og mynda nýjan hafsbotn. Þvert í gegnum Ísland liggur háhitasvæði þar sem straumur óhemju heitrar kviku þrýstir sér í gegnum umliggjandi kápu.
Rannsóknir Norðmannanna sýna að kvikustreymið undir Íslandi er óvenju öflugt með 14 milljóna ára millibili. Á þeim tímaskeiðum myndast óvenju þykkur nýr hafsbotn og því má greina til skiptist svæði með þykkum og þunnum hafsbotni á vegalengdinni milli Íslands og Grænlands.
Uppgötvunin er einkar áhugaverð því bandarískir jarðfræðingar hafa sýnt fram á samsvarandi fyrirbæri við annað háhitasvæði, Hawaii í Kyrrahafinu, þar sem þykknun hafsbotnsins á sér stað á sama tíma og við Ísland. Þetta bendir til eins konar samhæfðs hjartsláttar sem virkar á gjörvalla jörðina.
Rolf Mjelde telur nefnilega að Ísland og Hawaii liggi of langt í burtu hvort frá öðru til að rekja megi orsakir púlsins í fljótandi kápunni, heldur hljóti hún að myndast inni við kjarna jarðar.
Hafi norskir og bandarískir jarðfræðingar rétt fyrir sér getur uppgötvun þeirra umbylt þekkingu okkar á innviðum jarðar. Engin hefðbundin líkön sem gera grein fyrir eðlisþáttum í iðrum hennar geta útskýrt þennan hæga hjartslátt.