Stjörnufræði
Hinir grænu skógar jarðar gætu verið einsdæmi í alheiminum. Þetta sýnir nýtt rannsóknarverkefni á vegum Goddard-geimrannsóknastöðvarinnar sem rekin er af NASA. Á grundvelli rannsókna á plöntum og bakteríum hér á jörð hafa líffræðingar, efnafræðingar og stjörnufræðingar sett saman reiknilíkön til að sýna plöntulíf á framandi reikistjörnum. Það er ljós sólarinnar og samsetning gufuhvolfsins sem ákvarðar “lit lífsins” á jörðinni, þar sem plönturnar nýta sér hina bláu og rauðu hluta sólarljóssins til ljóstillífunar en endurspegla græna litnum frá sér. Á reikistjörnu við annars konar sól og með annars konar gufuhvolf, eru á hinn bóginn miklar líkur til að plöntur líti allt öðruvísi út.
Með þessu reiknilíkani hafa vísindamennirnir hugsað sér að reikna út hvernig plöntur gætu verið á litinn á einhverri tiltekinni reikistjörnu í öðru sólkerfi. Að því loknu mætti stilla sjónaukana sérstaklega til að svipast um eftir þessum litbrigðum og þannig fengjust bestu möguleikar til að greina hvort líf væri að finna á reikistjörnunni eða ekki.