Skýstrókar geta myndast hvar sem er á hnettinum nema þar sem allra kaldast er. Til allrar hamingju er það þó ekki víða, sem allt sem til þarf er til staðar.
En þannig er ástatt í miðvesturríkjum Bandaríkjanna, Austur-Indíum og í Bangladess, en í þessum heimshlutum koma tímabil þegar aðstæður í gufuhvolfinu bjóða upp á tilurð kröftugra þrumuskýja, en það getur einmitt verið upphafið að myndun skýstróks.
Hvirfilhreyfingar
Skýstrókar flokkast undir hvirfilhreyfingar lofts – þar sem loft af einhverjum ástæðum tekur að hreyfast í hringi.
Slíkar hvirfilhreyfingar geta t.d. verið skaðlausir rykstrókar sem myndast vegna hitauppstreymis frá jörðu og ná í mesta lagi nokkurra metra hæð. En sem hvirfilhreyfingar flokkast líka lægðir og jafnvel stór lægðakerfi.
Skýstrókar á Norðurlöndum
Á Norðurlöndum geta myndast litlir skýstrókar, sem ekki valda skaða. Alvöru skýstrókar eru hins vegar kröftugustu vindfyrirbrigði jarðar.
Tilurð skýstróka fylgir alltaf sama mynstri. Ókyrrð í gufuhvolfinu veldur öflugum þrumuskýjum.
Kringum skýin og inni í þeim skapast þyrilvindar vegna ýmissa samverkandi ástæðna, en vindstefnubreyting með aukinni hæð og uppstreymi lofts eru í aðalhlutverkum og veita skýstrókunum þetta feiknalega afl.

Skýstrókar eiga sér stað aðeins þar sem mikið þrumuveður hefur þegar myndast.
Þar sem skýstrókar eru tíðir, eins og t.d. í Bandaríkjunum, er vandlega fylgst með veðuraðstæðum, sem geta myndað skýstróka og menn reyna eftir bestu getu að spá fyrir um þá til að geta gefið út viðvörun nógu snemma.
Þetta er þó erfitt verk, en að vísu verða stöðugt framfarir með aukinni þekkingu og nýrri tækni.
Hvernig þrumuský þróast og hvenær það myndar skýstrók er ekki unnt að sjá fyrir.
Á svæðum þar sem skýstrókar eru tíðir er þess vegna nauðsynlegt að grípa til varúðarráðstafana og fjöldamargir sem búa á þessum svæðum hafa t.d. komið upp sérstöku neyðarbyrgi fyrir fjölskylduna.
Allra verstu skýstrókarnir
148 skýstrókar á tveimur dögum. Það gerðist í Bandaríkjunum árið 1974
3.-4. apríl 1974 voru skráðir ekki færri en 148 skýstrókar og af þeim voru 30 mjög kröftugir. Að samalögðu skildu þeir eftir sig meira en 4.000 km langa slóð sem náði yfir 13 fylki í Bandaríkjunum.
Mannskæðasti skýstrókurinn var „Daulaptur-Saturia“-fellibylurinn í Bangladess. Þessi ofboðslegi fellibylur myndaðist í Manikganj-héraði í Bangladess 26. apríl 1989. Talið er að 1.300 manns hafi látið lífið, en til viðbótar slösuðust um 12.000 og meira en 80.000 urðu heimilislaus. Um nákvæmni talnanna ríkir að vísu nokkur óvissa.
Mannskæðasti fellibylurinn í Bandaríkjunum „Þriggja fylkja-fellibylurinn“ þann 18. mars 1925. Hann skildi eftir sig 625 látna og 2.027 slasaða á 350 km langri leið sinni um Missouri, Illinois og Indiana.
Þjóðbraut skýstróka í BNA
Gresjan eða „The Great Plains“ eins og Bandaríkjamenn kalla svæðið er sá staður á hnettinum þar sem aðstæður til myndunar skýstróka eru bestar.
Á vormánuðum berst kalt og þurrt heimskautaloft úr norðri en úr suðri kemur rakt og hlýtt hitabeltisloft utan af Mexíkóflóa.
Þegar þessir tveir loftmassar mætast samtímis því sem sólin tekur að hita upp gresjuna myndast kjöraðstæður fyrir tilurð þrumuskýja og svo skýstróka í kjölfarið.
Miðvesturríkin eru það svæði á jörðinni þar sem flestir skýstrókar myndast og svæðið gengur undir nafninu „Tornado Alley“ eða Þjóðbraut skýstrókanna.
Að meðaltali myndast 800 skýstrókar hinu árlega skýstrókatímabili í Bandaríkjunum, frá mars til ágúst. Flestir eru þeir í apríl, maí og júní, þegar um 55% skýstrókanna myndast, en skýstrókur getur þó skotið upp kollinum á hvaða árstíma sem er.
Þróun skýstróka
Skýstrókar myndast alltaf út frá kröftugum þrumuskýjum, sem t.d. á víðlendum sléttum Bandaríkjanna geta þróast upp í óvenjulega magnþrungin óveður með kraft til að viðhalda sjálfum sér.
Slík ofurský geta lifa í marga klukkutíma, vegna þess að uppstreymi lofts stöðvast ekki af völdum regnsins sem yfirleitt steypist niður úr þrumuskýjum.
Slík ský geta vaxið hátt upp í gufuhvolfið og oft náð í 15 km hæða eða meira. Það getur jafnvel komið fyrir að þau nái að teygja sig aðeins upp í sjálft heiðhvolfið, en í slíkum tilvikum getur verið 70 stiga frost efst í skýinu.
Mjög stór og langlíf þrumuský einkennast af uppstreymi lofts á miklum snúningi og þessar einstöku aðstæður geta, þegar svo ber undir, myndað skýstrók og veitt honum afl.
⇑ Skýstrókur myndast
Snúningur og kröftugt uppstreymi í öflugu þrumuskýi gegna lykilhlutverkum við myndun skýstróka.
