Þótt hjóldýr í flokknum Bdelloidea séu aðeins örfáir millimetrar hafa þau þróað sérstæða hæfni sem hefur dugað þeim til að lifa af í 30 milljón ár. Þegar hjóldýrið verður fyrir árás banvæns svampsníkjudýrs þornar það alveg upp og vindurinn feykir því síðan burt. Þegar hjóldýrið lendir svo einhvern tíma síðar í fersku vatni, vaknar það aftur til lífsins og tekur til þar sem frá var horfið fyrir uppþurrkunina. Og í langflestum tilvikum er sníkjudýrið nú dautt.
Það er líffræðingurinn Paul Sherman hjá Cornellháskóla í Bandaríkjunum sem komist hefur að þessu leyndarmáli hjóldýranna. Hjóldýr fjölga sér ekki með æxlun, heldur skapa klón af sjálfum sér. Í dýraríkinu er þetta yfirleitt upphafið að endalokunum. Skortur á erfðafræðilegri fjölbreytni er veikleiki, vegna þess að dýrin ná ekki að þróast í takt við umhverfið, t.d. nýjar hættur eða óvini. En þetta vandamál hafa hjóldýrin sem sagt leyst með því að þurrka sig upp og láta vindinn flytja sig um set.