Menning og saga

Sögu Mayanna þarf nú að endurskrifa

Margar og merkilegar uppgötvanir á síðustu árum leiða nú til þess að fornleifafræðingarnir þurfa að skrifa sögu Mayaríkisins alveg upp á nýtt. Meira en 2.000 ára gömul veggmálverk sýna að gullöld Maya hófst mörgum öldum fyrr en talið hefur verið. Jafnframt hafa vísindamennirnir fundið skýringuna á því hvers vegna þetta goðsagnakennda indíánaveldi leystist upp.

BIRT: 04/11/2014

William Saturno var bæði orðinn örþreyttur og aðframkominn af þorsta þar sem hann hjó sér leið gegnum þéttan skógargróðurinn með sveðju vorið 2001. Þessi bandaríski fornleifafræðingur bar alls 20 kg af myndavélabúnaði á bakinu og í fylgd með honum voru 5 leiðsögumenn, sem ætluðu að fylgja honum til San Bartolo – staðar langt inni í frumskóginum í Petén-héraði í Gvatemala, þar sem grafarræningjar voru sagðir hafa séð steina með innristum híróglýfum.

 

Eftir margra klukkustunda göngu náði leiðangurinn loks á áfangastað, en þá voru vel að merkja bæði vatn og vistir á þrotum. Leiðsögumennirnir hófu strax leit að regnvatni, en William Saturno tók hins vegar að skoða ævafornar rústir á staðnum. Hann uppgötvaði fljótlega 25 metra háan pýramída sem var alþakinn gróðri. Grafarræningjarnir höfðu greinilega verið hér á ferð fyrir ekki löngu. Þeir höfðu grafið göng inn í miðjar undirstöður pýramídans – að öllum líkindum í von um að finna verðmæta leirmuni sem þeir gætu selt á svörtum markaði. En á hinn bóginn sá fornleifafræðingurinn hvergi þær áletruðu steinhellur sem hann hafði komið til að skoða.

 

Málverk finnast af tilviljun

 

Vonsvikinn skreið William Saturno inn í göngin til að svala sér aðeins í skugganum. Við enda ganganna kom hann inn í dálítið herbergi þar sem hann settist niður og lýsti svo í kringum sig með vasaljósinu. Á veggjunum sá hann nú skyndilega elstu og best varðveittu veggjamyndir sem fundist hafa frá menningarskeiði Mayanna.

 

 

Síðast hafði stór veggmynd frá dögum Mayanna fundist á láglendi, í rústaborginni Bonampak árið 1946. Síðar átti eftir að koma í ljós að þessar veggmyndir voru heilum 900 árum eldri. Sú uppgötvun þýddi ein og sér að menn þurftu að endurskrifa sögu Maya-indíánanna.

 


Menning Maya var ríkjandi í Mið-Ameríku allt þar til Spánverjar komu til sögunnar upp úr 1530. Fram að þessu hafa vísindamenn verið sammála um að gullöld þessa menningarskeiðs hafi verið á 7. öld, enda hafa fornleifafundir bent til þess að listir, musterisbyggingar og ritmál hafi ekki þróast fyrr en um það leyti. En uppgötvanir Williams Saturnos hafa nú breytt þeirri ímynd.

 

Fornfræðileg stórfrétt

 

Við kolefnisgreiningar á viði sem notaður hefur verið við bygginguna, hefur nefnilega komið í ljós að veggmyndirnar eru frá því um 100 f.Kr. Þær eru sem sé frá forklassíska tímabilinu, sem vísindamenn hafa kallað svo og skilgreint frá 800 f.Kr. til 250 e.Kr. Fram að þessu hafa aðeins fundist leirmunir, minnismerki úr steini og skúlptúrar frá þessu tímabili og uppgötvun veggmyndanna er því fornfræðileg stórfrétt.

 

Vandað handbragð á teikningum og rittáknum á veggmyndunum sýnir að Mayar höfðu háþróaða listahefð, stjórnskipulag og áttu sér ritmál mörgum öldum áður en fornleifafræðingar hafa álitið fram að þessu. Veggmyndirnar bera því líka vitni að guðir og goðsagnaverur hafa verið þróað og lifandi myndefni á þessum tíma. List Mayanna hefur sem sé verið komin á miklu hærra stig en vísindamenn hafa gert ráð fyrir. Gullöld ríkisins hefur þá væntanlega á sama hátt hafist mun fyrr en talið hefur verið.

 

Veggmyndirnar eru að samanlögðu mikið verk og vel varðveitt. Þessar myndir leyndust á veggjum herbergis sem er 4 x 9 metrar að stærð. Ástæða þess hversu vel þetta verk hefur varðveist, er sú að menn höfðu á sínum tíma smurt leðju á veggina til að varðveita myndirnar, fyllt herbergið með múrbrotum og að síðustu lokað því vandlega, áður en hafist var handa við að byggja nýtt lag utan á pýramídann. Mayar byggðu pýramída sína í lögum. Þegar nýr höfðingi ákvað að reisa stærri pýramída var það einfaldlega gert þannig að nýtt lag var byggt utan um þann pýramída sem fyrir var.

 

Pýramídinn Las Pinturas, þar sem veggmyndirnar eru, er alls gerður úr sex lögum, sem byggð hafa verið á árunum 600-60 f.Kr. Um leið og Saturno sá myndirnar gerði hann sér ljóst að hann hafði uppgötvað stórmerkilegar fornleifar. Á grundvelli handbragðs og stíls þóttist hann strax sjá að myndirnar væru um 2.000 ára gamlar. M.a. sá hann þarna maísguð Maya sem horfði yfir öxl sér á tvær fagrar stúlkur. Hann tók ljósmyndir, en þegar leiðsögumennirnir komu aftur, án þess að hafa fundið nokkuð vatn, hélt hann þessari uppgötvun fyrir sjálfan sig. Hann þorði ekki að treysta mönnunum.

Ég þekkti aðeins einn af leiðsögumönnunum. Um þrjá vissi ég ekki neitt, en sá fjórði hafði ég heyrt að gæti verið hættulegur,“ segir William Saturno.

 

Til baka við illan leik

 

Mennirnir eyddu nóttinni í San Bartolo og um morguninn fór einn leiðsögumannanna inn í göngin og sá myndirnar. Hann sýndi hinum, en Saturno þóttist láta sér fátt um finnast og sagði myndirnar ekki sérlega merkilegar. Mennirnir sex lögðu nú af stað til baka og eftir að hafa gengið allan daginn náðu þeir loks til bíla sinna. Þá hafði Saturno misst meðvitund hvað eftir annað af völdum vökvaskorts.

 


„Grunsemdir mínar gagnvart leiðsögumönnunum voru byggðar á sögusögnum sem ekki áttu við nein rök að styðjast. Það var þeim að þakka að við skyldum allir komast lifandi til baka“, bætir Saturno við frásögn sína. Til allrar lukku komust sem sé allir lifandi til byggða og Saturno gat nú hafið þá rannsóknarvinnu sem átti fyrir höndum að breyta sýn manna á sögu Mayamenningarinnar.

 

Mánuði síðar sneri hann aftur til Gvatemala til að skrásetja uppgötvun sína og að þessu sinni slóst menningarráðherra Gvatemala í förina með honum. Fjórir menn voru nú ráðnir til að gæta veggmyndanna og rústanna í kring allan sólarhringinn. Undirbúningur og skráning tók þó tvö ár áður en Saturno og félagar hans gátu lokst hafist handa við sjálfan uppgröftinn í mars 2003.

 

Nú er ljóst að veggmyndirnar gegndu tvíþættu hlutverki: að heiðra guðina og sýna guðdómlega stöðu konungsins. Saturno hefur nú lokið við að afhjúpa myndir á tveimur veggjum. Hinir tveir veggirnir hafa verið brotnir niður á sínum tíma og múrbrotin notuð til að fylla rýmið áður en því var endanlega lokað. Vísindateymi Saturnos vinnur nú að því á vinnustofu sinni að raða þessum brotum saman.

 

Óþekkt konungsgröf

 

Trúarbrögð Mayanna skipa veglegan sess í veggmyndunum. Hér má t.d. sjá ferð maísguðsins gegnum undirheima og endurupprisu hans eru líka gerð vegleg skil. Þessi goðsögn var mikilvægur þáttur í sköpunarsögu Maya.

 

Þessi sögn var útbreidd á menningarsvæði Maya mörgum öldum síðar og myndir úr henni má sjá á mörgum leirkerum frá tímabilinu 600-800 e.Kr. Veggmyndirnar í San Bartolo eru hins vegar elsta þekkta framsetning sögunnar í samhengi og það ber þess vitni að strax á þessum tíma áttu Mayar sér frásagnarhefð. Og veggmyndirnar komu einnig á óvart að öðru leyti. Hingað til hafa flestir fornleifafræðingar verið þeirrar skoðunar að borgríki Maya hafi enn ekki verið orðin að konungdæmum á þessum tíma. Á veggmyndunum má hins vegar sjá konung krýndan. Og hann hefur bæði nafn og titil.

 

Þegar fornleifafræðingar fóru að grafa í fleiri rústir í San Bartolo, fann gvatemalski fornleifafræðingurinn Mónica Pellecer Alecio konungsgröf um hálfan annan kílómetra vestur af pýramídanum með veggmyndunum. Gröfin fannst árið 2005 og er elsta þekkta konungsgröf frá menningarskeiði Maya.

 

Síðast en ekki síst er svo á veggmyndunum að finna brot af rittáknum, nánar tiltekið híróglýfum. Sérfræðingar telja að táknin hafi verið eins konar myndatextar, en þeim hefur þó reynst örðugt að ráða í letrið. Þessi rittákn eru nefnilega mörg hundruð árum eldri en elsta mayaletur sem vísindamenn hafa getað lesið, en sú skrift er frá um 250-300 e.Kr. William Saturno telur rittáknin í San Bartolo meðal þeirra elstu sem nokkru sinni hafa fundist á láglendissvæðum Mayaríkisins og bera þess vott að Mayar hafi átt sér þróað ritmál löngu fyrr en álitið hefur verið.

 

Þessi nýja uppgötvun færir meistaraverk Maya svo langt aftur í tímann að því mætti jafna við að nútíma listfræðingar þekktu aðeins nútímalist, en fengju svo skyndilega að sjá mynd eftir endurreisnarmálarann Michelangelo.

 

                                                                                                                William Saturno

Rústir sjást utan úr geimnum

 

Eftir að hafa fundið hina duldu borg San Bartolo, tók William Saturno upp samvinnu við Tom Sever, fornleifafræðing sem starfar hjá NASA og er sérfræðingur í meðferð gervitunglamynda.

 

Í upphafi hugsaði Saturno sér að nýta gervihnattamyndir til að finna vatnsuppsprettur á svæðinu til undirbúnings uppgreftrinum. En á myndunum uppgötvaði Saturno reyndar allt annað. Trén við þessa fornu Mayaborg voru með örlítið öðrum lit en annars staðar í skóginum. Þetta reyndist síðan unnt að nota til að finna fleiri rústir í frumskóginum og leit með þessari aðferð hefur þegar borið árangur.

 

„Með því að greina innrauðar gervihnattamyndir hefur okkur tekist að staðsetja hundruð gamalla og yfirgefinna þorpa, sem áður voru alveg óþekkt,“ útskýrir Tom Sever.

 

Byggingar Maya leiddu ekki aðeins til litabreytinga á trjám, heldur fylgdi þeim einnig mikil nýting náttúruauðlinda.

 

„Mayar notuðu kalkpússningu þegar þeir byggðu risavaxin musteri sín og minnismerki. Til framleiðslunnar hituðu þeir kalkstein og til að framleiða það magn sem fór í aðeins einn rúmmetra þurftu þeir að brenna 20 trjám,“ segir Tom Sever.

 

Önnur ástæða þess hve Mayar ruddu stór skógsvæði var maísræktun þeirra og þörfin fyrir maís fór vaxandi með örri fólksfjölgun. Á grundvelli frjókorna sem fundist hafa í gömlum setlögum á botni stöðuvatna hafa vísindamenn dregið þá ályktun að frjókorn frá trjám hafi nánast verið horfin í Mayaríkinu á 9. öld en í þeirra stað komin frjókorn frá illgresi. Þetta merkir sem sagt að svæðið hafi verið orðið því nær skóglaust skömmu fyrir hrun Mayaríkisins.

 

Mayar breyttu loftslagi

 

Hvaða afleiðingar hafði þessi gríðarlega nýting náttúruauðlinda? Má hugsa sér að þetta hafi verið orsök þess að Mayamenningin hrundi? Tom Sever nýtti sér nútímatækni til að fá svör við þessum spurningum. Hann notaði tvö loftslíkön, tölvuforrit nefnd MMS og CCSM til að rannsaka hvaða áhrif skógarhöggið hefði haft á loftslag á svæðinu.

 

Líkönin nýta stærðfræðiformúlur til að reikna efna- og eðlisfræðilega ferla sem stýra loftslagi og taka jafnframt tillit til ýmissa annarra þátta, svo sem eldgosa. Á grundvelli milljarða reikniaðgerða verður á endanum til ákveðin mynd af loftslaginu á gefnum tímapunkti.

 

 

Vísindamennirnir gerðu ráð fyrir bæði bestu og verstu aðstæðum: engu skógarhöggi og algerri eyðingu skóga á svæðinu. Niðurstöðurnar voru afgerandi. Af algerri eyðingu skóga leiddi hækkun lofthita um 3-5 gráður og að auki 20-30% minna regn.

 

Auk þess sem jarðvegurinn þornaði leiddi eyðing skóganna af sér uppblástur. Efsta og frjósamasta jarðlagið, sjálf moldin, fauk á brott og þar með varð matjurtarækt ekki lengur möguleg. Hungursneyð var þar með óumflýjanleg. Önnur afleiðing skógarhöggsins varð sú að vatn varð af mjög skornum skammti á þurrkatímum í Petén-héraði og grunnvatn lág of djúpt til að unnt væri að ná til þess með því að grafa brunna. Mayar hafa því orðið að safna rigningarvatni í stórar safnþrær til að lifa af og þegar stórlega dró úr regni hefur það haft geigvænlegar afleiðingar.

 

Á endanum var æ fleira fólk um stöðugt minnkandi fæðu og sífellt minna vatn. Borgríki fóru í stríð innbyrðis og örvæntingarfullir íbúar drápu höfðingja sína. Enn er þó ekki allt upp talið því mikil þurrkatímabil komu nálægt árunum 810, 860 og 910, sem hvert um sig stóð allt að því áratug. Þetta má lesa úr borkjörnum af hafsbotni. Þurrkarnir voru verri plága en Mayaríkið stóðst. Um miðja 9. öld yfirgáfu milljónir manna hinar stóru valdamiðstöðvar á regnskógasvæðinu og ríkið hrundi.

 

„Fornleifafræðingar hafa deilt um hvort fall Mayaríkisins hafi stafað af þurrkum, sjúkdómum eða pólitískum óstöðugleika. Nú teljum við að allt þetta hafi komið við sögu, en aðeins sem einkenni. Hin raunverulega orsök var viðvarandi skortur á mat og vatni vegna þurrka sem bæði stöfuðu af náttúrulegum ástæðum og mikilli skógareyðingu manna,“ segir Tom Sever. Niðurstaða hans um Mayana er einföld: „Þeir áttu sjálfir sök á hruninu.“

 

Náttúran

Bakteríur örva ilminn af sumarregni

Heilsa

Fjöldi daglegra salernisheimsókna getur haft afleiðingar fyrir heilsuna

Maðurinn

Genagalli gerir albínóa hvíta

Maðurinn

Hið fullkomna morð er dautt

Lifandi Saga

Teþorstinn knésetti stórveldi

Náttúran

Fræðimenn rýna í innsta eðli risaeðlanna 

Menning

Saga kaffisins: Hinir syfjuðu loksins bænheyrðir

Lifandi Saga

Hervegir tengdu keisaradæmið saman 

Lifandi Saga

Barsmíðar og sektir Rómverja sköpuðu ósigrandi hersveitir

Lifandi Saga

Leynivopn Rómverja: Virkið var flutt meðferðis

Alheimurinn

Hvað verður um gaspláneturnar?

Læknisfræði

Hver var fyrsti kvensjúkdómalæknirinn?

ÁSKRIFT AÐ VÍSINDI.IS

Prófaðu í 14 daga ókeypis!

  • Fullur aðgangur að vefnum okkar með rúmlega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Lifandi vísindi/Lifandi saga í rafrænni útgáfu á vefnum,
  • Aðeins 1.790 krónur á mánuði.
  • Engin skuldbinding – Þú getur hætt hvenær sem er.

ÁSKRIFT AÐ TÍMARITINU

Þrjú tölublöð + gjöf: Skemmtilegur sjónauki
  • Þrjú næstu tölublöð Lifandi vísinda/Lifandi sögu – sent heim til þín – eins færðu lítinn og vandaðan sjónauka að gjöf.
  • Fullur aðgangur að vefnum okkar – visindi.is – með tæplega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Spennandi greinar og flottar myndir sem svala forvitni þinni.
  • Þú getur hætt eftir tilboðið en ef þú heldur áfram skuldbindur þú þig aðeins þrjú tölublöð í einu og þú getur sagt upp hvenær sem sem og klárar þá tímabilið sem er hafið.
  • Venjuleg áskrift – þrjú tölublöð – kostar aðeins 7.590 kr

Sjónauki og þriggja blaða áskrift – Alls 3.800 kr.

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Search

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Viltu lesa greinina?

Fáðu aðgang að visindi.is

Ókeypis í 2 vikur!

Eftir það kostar eingöngu 1.790 kr. á mánuði og enginn uppsagnarfrestur.

Innifalið er aðgangur að öllum greinum á vefnum ásamt rafræna útgáfu af nýjustu tölublöðunum.

  • Fullur aðgangur að visindi.is
  • Frábærar myndir og myndbönd
  • Aðgengilegt í öllum snjalltækjum
  • Fullur aðgangur að gríðarlegu magni eldri greina
  • Nýjustu tölublöðin í rafrænu formi

Núverandi áskrifendur að tímaritinu fá að sjálfsögðu ókeypis aðgang að vefnum og þurfa bara að virkja aðgang sinn hér.

Ef þú ert þegar áskrifandi að visindi.is