Meira en 100 tonna þungt neðansjávarrándýr sem synti um dimmustu og dýpstu svæði hafanna fyrir um 205 milljónum ára.
Úr slíkri skepnu gæti hún verið, sú steinrunna tönn úr svissnesku ölpunum sem hópur evrópskra vísindamanna hefur nú grandskoðað.
Meðal steingervinga sem þaðan eru ættaðir skoðuðu vísindamennirnir sérstaklega tönn sem kynni að reynast vera úr stærsta rándýri sem nokkru sinni hefur lifað á jörðinni; mögulega óþekktur meðlimur hvaleðluættbálksins Iktosaurus.
Tvöfalt stærri tönn
Tannrót hinnar brotnu tannar er sex sentímetrar á breidd. Og þar með tvöfalt breiðari en áður var talið.
Tönnin var grafin upp í svissnesku ölpunum 1990 en ekki rannsökuð fyrr en nýlega.
Svæðið þar sem tönnin fannst er nú í um 2.800 metra hæð en var undir sjávarmáli fyrir 200 milljónum ára.
Þótt efri hluta tannarinnar vanti er tannrótin tvöfalt stærri en nokkur tönn sem fundist hefur úr þessum hvaleðlum, segja vísindamennirnir.
Stærsta tönn sem áður hafði fundist var úr Iktosauruseðlu sem vísindamenn töldu þá að hefði getað verið um 15 metrar að lengd. Á þeim grundvelli gæti sú skepna sem átti þessa tönn hafa verið meðal allra stærstu dýra sem nokkru sinni hefur lifað hér í sjó eða á þurrlendi.
Vísindamennirnir leggja þó áherslu á að tannbrotið veki upp margar spurningar og t.d. geti verið erfitt að segja hvort tönnin sé úr Iktosauruseðlu af venjulegri stærð en með óvenjustórar tennur. Eða hvort líkamsstærðin hafi verið í réttu hlutfalli við stærð tannarinnar.
Vísindamenn rannsökuðu meðal annars hvaleðlutönnina ásamt hryggjarlið úr sjávarskriðdýri sem fannst á sama svæði (mynd). Þessir gríðarstóru steingervingar eru þó ekki af sama dýri.
Vatnaskriðdýr þrifust vel eftir fjöldadauða
Hinar risastóru Iktosauruseðlur komu fram á tríastímabilinu fyrir svo sem 250-200 milljónum ára, skömmu eftir fjöldadauða sem útrýmdi um 96% af öllu lífi í höfunum.
Vatnaskriðdýr þrifust að því er virðist afar vel í þessum breytilegu höfum og á fyrstu fimm milljón árunum náðu þau gríðarmikilli stærð sem skilaði þeim langefstum í fæðukeðjunni – og sum þau stærstu voru tannlaus með öllu.
Stærst þeirra hvaleðlna sem fundist hafa kallast Himalayasaurus og fannst í Tíbet. Tönnin sem fannst í ölpunum er nokkur ráðgáta þar eð hún passar ekki við neinar þekktar hvaleðlur.
Til að byrja með hefur tönnin verið flokkuð undir ætt svokallaðra shastasaurus-eðlna. En vísindamennirnir segja að fleiri steingervingar þurfi að finnast til að ákvarða hvort um sé að ræða nýja tegund sem hafi verið stórvaxnari en allar hinar.
„Kannski leynast fleiri leifar risavaxinna sæskrímsla grafin undir jöklunum,“ segir forsvarsmaður hópsins, P. Martin Sander.
Þekkirðu stærstu dýr jarðar?
Hér geturðu lesið hina ótrúlegu frásögn um stærstu dýr veraldar: Risavaxin sjávarskrímsli vakin til lífs slá öll met.