Jarðfræði
Á Suðurskautslandinu hafa bandarískir vísindamenn nú uppgötvað alveg óþekkta vatnsveröld. Á um kílómetra dýpi undir ís og snjó á svæði sem kallast „Íshillan“ á vesturhluta meginlandsins leynast vatnsmikil fljót og stöðuvötn sem fyllast og tæmast á ótrúlega skömmum tíma.
Og það voru reyndar einmitt þessar hröðu breytingar sem urðu til þess að vísindamennirnir urðu vatnsins varir. Það gerðist með hjálp gervihnattarins ICESat sem sveimar umhverfis jörðina. Á þriggja ára tímabili hefur gervihnötturinn mælt allt að 9 metra hæðarsveiflur á yfirborði íssins. Slíkar breytingar verða aðeins vegna þess að stöðuvötn undir ísnum fyllast og tæmast til skiptis. Frá gervihnettinum hafa menn nú uppgötvað heilt netverk fljóta og stöðuvatna og hið stærsta þeirra er um 500 ferkílómetrar.
Vöktunin hefur að auki sýnt fram á að vatnið er á stöðugri hreyfingu. Það tók t.d. aðeins þrjú ár að tæma tvo rúmkílómetra af vatni úr vatnshólfi sem er um 300 ferkílómetrar að stærð. Allt þetta vatn streymdi út í haf eftir farvegi sem liggur út undir Ross jökulþiljuna. Það kemur vísindamönnunum í opna skjöldu að vatnið skuli berast jafn hratt og raun ber vitni. Uppgötvunin hefur vakið verulega athygli, enda skiptir miklu máli á tímum hnattrænnar hlýnunar að geta gert sér grein fyrir því hve mikið vatn leynist undir íshellunni á Suðurskautslandinu. Þetta vatn ryður líka með sér ís til sjávar þar sem hann bráðnar og getur valdið hækkun á yfirborði heimshafanna.