Bólgan herjar áfram og brjóskið þynnist og þetta veldur kvölum í hnénu þegar sjúklingurinn hreyfir sig. Hundruð milljónir manna þjást af slitgigt um heim allan.
Sjúkdómurinn veldur ógurlegum kvölum og bólgurnar í hnénu gera það að verkum að sjúklingurinn á erfitt með að hreyfa sig.
Til þessa hefur læknum ekki tekist að finna neina lækningu gegn slitgigt. Læknar hafa fyrir vikið einungis getað boðið upp á linun sársaukans með bólgueyðandi eða verkjastillandi lyfjum.
Þegar svo sjúkdómurinn hefur eyðilagt liðinn algerlega er eina lausnin fólgin í því að koma fyrir gervilið úr plasti eða málmi í stað skemmda liðarins.
Lækningin felst í fitunni
Nú hefur teymi vísindamanna við Melbourne stofnfrumumiðstöðina í Ástralíu loks tekist að finna lækningu. Með því að nota stofnfrumur úr fitu sjálfra sjúklinganna hefur ekki einvörðungu tekist að hefta sjúkdóminn, heldur einnig, í sumum tilvikum, að fá brjóskið til að endurnýja sig.

Fyrstu tilraunirnar voru gerðar á 30 sjúklingum sem allir þjáðust af slitgigt í hnjám. Þátttakendum tilraunarinnar var skipt í tvo jafnstóra hópa og var helmingurinn meðhöndlaður með stofnfrumum en hinn fékk lyfleysu.
Tilraunin fólst m.a. í því að taka bandvefsstofnfrumur úr sjálfum sjúklingunum. Mikill ávinningur var fólginn í þessu atriði, því þannig minnkar hættan á að líkaminn hafni stofnfrumunum ellegar að þær orsaki enn verri bólguviðbrögð í líkamanum en þau sem sjúklingurinn þegar er að berjast við af völdum gigtarinnar.
Stofnfrumur úr fituvef
Stofnfrumurnar voru ekki teknar úr beinmergnum, líkt og áður, heldur úr fituvef sjúklingsins. Fituvefurinn felur í sér ógrynni stofnfrumna sem að öllu jöfnu mynda einungis fitufrumur en komist þær inn í lið þróast þær þess í stað sem brjóskfrumur.
Ávinningurinn af því að fá stofnfrumurnar úr fituvef er að sama skapi sá að ferlið er einfaldara.
Vísindamennirnir beittu fitusogi til að taka köggul af fituvef úr öllum þrjátíu þátttakendum. Sýnin fólu ekki einvörðungu í sér stofnfrumur heldur m.a. einnig þónokkuð af fitufrumum.
Vísindamennirnir einangruðu fyrir vikið stofnfrumurnar og fjölguðu þeim síðan. Að því loknu sprautuðu vísindamennirnir einangruðu stofnfrumunum inn í sérlega grind eða form sem frumurnar gátu skipt sér á og sem líkja eins mikið eftir aðstæðum inni í liðnum og frekast er unnt.
Útkoman varð fullt mót af stofnfrumum, sem líktust nákvæmlega brjóskvefnum sem þeim var ætlað að leysa af hólmi.
Vísindamennirnir sprautuðu þvínæst stofnfrumunum inn í veika liðinn. Þar fengu frumurnar skilaboð um að breyta sér í brjóskfrumur og að endurnýja skemmda vefinn.
Stofnfrumurnar höfðu að sama skapi bólgueyðandi áhrif og drógu úr bólguviðbrögðunum sem slitgigtin hafði orsakað í liðnum. Þetta er mikilvægt, en að öðrum kosti hefði bólgan strax valdið skemmdum á nýja brjóskinu.
Skoðað ári seinna
Vísindamennirnir hafa endurtekið tilraunina á 40 gigtarsjúklingum í því skyni að rannsaka langtímaáhrif meðferðarinnar.
Þegar vísindamennirnir tóku segulómmyndir af skemmdum liðum sjúklinganna ári seinna, kom í ljós að skemmdir af völdum sjúkdómsins höfðu ekki tekið sig upp aftur og að brjóskið, sem í erfiðustu tilfellunum var alveg horfið, var tekið að myndast á nýjan leik.
Þrír af hverjum fjórum þátttakendum greindu einnig frá því að þeir ættu betra með að hreyfa sig og væru ekki eins verkjaðir. Tveir þriðju kváðust finna fyrir helmingi minni verkjum en fyrr.