Kínverjar reisa nú stærsta staka útvarpsbylgjusjónauka heims, FAST, sem verður tvöfalt stærri en sá sem nú er öflugastur.
Með FAST verður unnt að sjá lengra út í geiminn en nokkru sinni fyrr og greina stjörnuþokur sem eru fjarlægari í tíma og rúmi en þær fjarlægustu sem enn eru þekktar. Vísindamennirnir reikna með að hér verði í fyrsta sinn unnt að greina leifar af sprengistjörnum í öðrum stjörnuþokum en Vetrarbrautinni.
Þær útvarpsbylgjur sem falla á sjónaukann speglast af alls 4.600 plötum upp í sérstakt móttökuloftnet uppi yfir diskinum.
Bæði plötunum og loftnetinu má hagræða með vélarafli og þannig má beina sjónaukanum að ákveðnum stöðum á himni í allt að 40° halla.