Læknisfræði

Svik leiddu Alzheimer rannsóknir afvega

Falsaðar og villandi rannsóknaniðurstöður hafa seinkað þróun lyfja gegn Alzheimer um 15 ár. Fölsku niðurstöðurnar bentu á eitt stakt prótín sem sökudólginn. Nú kemur í ljós að þetta prótín er miklu frekar til gagns!

BIRT: 26/10/2023

Plottið er vel þekkt úr mörgum glæpamyndum og sögum: Í rannsókninni beinir lögreglan allri athyglinni að einum grunuðum og sést þess vegna yfir fjöldamargar vísbendingar.

 

Í ákafa sínum við að klófesta morðingjann grípa sumir lögreglumenn jafnvel til þess ráðs að koma fyrir sönnunargögnum til að undirbyggja málsókn á hendur hinum grunaða.

 

Afleiðingarnar verða ekki aðeins þær að sakleysingi er dæmdur, heldur gengur hinn raunverulegi morðingi áfram laus og getur haldið illverkum sínum áfram.

 

Margt bendir nú til að eins og hálfs áratugs rannsóknir á heilahrörnunarsjúkdómnum Alzheimer hafi lotið sama lögmáli með ekki síður hörmulegum afleiðingum.

 

Í þessu tilviki er það ekki fjöldamorðingi sem gengur laus og drepur nokkra tugi, heldur hafa milljónir dáið úr Alzheimer meðan vísindamenn fylgdu rangri slóð og raunverulegum árangri seinkaði vegna villandi og falsaðra rannsóknarniðurstaðna.

 

Prótín ákært og dæmt

Allt síðan um miðjan níunda áratuginn hafa vísindamenn talið bein tengsl milli Alzheimer-sjúkdómsins og lítilla kekkja af prótíninu beta-amyloid sem safnast upp í heila sjúklinganna.

 

Þessi svokallaða amyloid-kenning fékk fyrir alvöru vind í seglin 2006 þegar taugasérfræðingurinn Sylvain Lesné sýndi fram á að ungar mýs fengju Alzheimer-sjúkdóminn þegar hann sprautaði beta-amyloid í heila þeirra.

Tilraunir með mýs, sem átt var við, leiddu vísindamenn í blindgötu.

Vísindamaðurinn kynnti myndir sem sýndu hvernig prótínið safnaðist smám saman upp í músarheilanum og dýrin tóku að missa minnið.

 

Þessi uppgötvun leiddi til þess að næstu 15 ár einblíndu vísindamenn um allan heim á beta-amyloid sem orsök Alzheimers.

Rannsóknir lentu í einstefnu

Tengingin milli Alzheimers og prótínsins beta-amyloids er orðin nærri 40 ára gömul. Árið 2006 styrktu nýjar – en falskar – niðurstöður grunsemdirnar enn frekar og eftir það lentu rannsóknir í hreinni einstefnu.

– 1907: Dr. Alzheimer uppgötvar sjúkdóminn

Þýski geðlæknirinn Alois Alzheimer birtir rannsóknir sínar á hinni 51 árs Auguste Deter sem smám saman glatar minni og hæfni til að vinna dagleg heimilisverk. Dr. Alzheimer nefnir sjúkdóminn eftir sjálfum sér.

– 1984: Beta-amyloid tengist Alzheimer

Réttarlæknirinn George Glenner uppgötvar kekki , svonefnda „plakka“, í heila látinna sjúklinga. Plakkarnir eru uppsöfnun beta-amyloids. Þetta markar upphaf amyloid-kenningarinnar um að plakkarnir valdi sjúkdómnum.

– 2006: Falskar niðurstöður styrkja gruninn

Heilasérfræðingurinn Sylvain Lesné sýnir fram á að ungar mýs fái Alzheimer þegar beta-amyloid er sprautað í heilann. Þetta styrkir amyloid-kenninguna en mörgum árum síðar kemur í ljós að myndirnar sem sönnuðu niðurstöðuna voru falsaðar.

– 2019: Lyf sáir efasemdum um amyloid-kenninguna

Heilasérfræðingurinn Delphine Boch þróar lyf sem fjarlægir plakka úr heila Alzheimer-sjúklinga. Sjúklingarnir halda þó áfram að tapa minni og það skapar efasemdir um hlutverk plakkanna í þróun sjúkdómsins.

– 2022: Beta-amyloid reynist misskilin hetja

Taugasérfræðingurinn Andrea Sturchio sýnir fram á að mikið magn af lausu beta-amyloid í heila hindrar minnistap Alzheimer-sjúklinga. Magn plakkanna hefur hins vegar engin áhrif á þróun heilaglapanna.

Og amyloid-kenningin var sú viðtekna allt fram til ársins 2021, þegar taugasérfræðingurinn Matthew Schraq hjá Vanderbildt-háskóla í Bandaríkjunum sá allt í einu að eitthvað var að.

 

Myndirnar sem fylgdu vísindaritgerðinni um beta-amyloid í músaheilunum virtust bera þess merki að eitthvað hefði verið átt við þær og Sylvain Lesné hafði endurnotað þessar sömu myndir sem sannanir í niðurstöðum annarra rannsókna sem allar studdu amyloid-kenninguna.

 

Málið er nú á borði bandarískra heilbrigðisyfirvalda og það er líka til rannsóknar hjá þeim vísindatímaritum sem birt hafa vísindagreinar eftir Lesné. Tímaritið Nature sem birti fyrstu greinina árið 2006, hefur þegar varað vísindamenn við því að styðjast við hana.

 

Þessi afhjúpun hefur sett stórt spurningarmerki við það hvort uppsöfnun beta-amyloids í heila sé í rauninni orsök Alzheimers eða hvort vísindamenn hafi verið á algjörum villigötum í leit sinni að lækningu.

Taugasérfræðingur afhjúpaði fölsun í vísindagreinum

Taugasérfræðingurinn Matthew Schraq sýndi fram á fölsun í vísindagreinum um Alzheimer. Í sumum tilvikum voru myndir bara afritaðar og endurnotaðar.

1.  Myndir sem eiga að sýna mismunandi prótín (A og B) í heilum músa eru grunsamlega líkar.

2. Fölsunin sést greinilega þegar myndirnar eru lagðar hver yfir aðra og líkindin lituð gul (C).

Milljónum saman bíða sjúklingar eftir lækningu á þessum sjúkdómi sem er orsök stórs meirihluta allra heilaglapa hjá eldra fólki. Nú er talið að Alzheimer-sjúklingar séu um 50 milljónir en með hækkandi lífaldri er þess vænst að talan verði komin upp í 150 milljónir árið 2050.

 

Sjúkdómurinn drepur heilafrumur hægt og bítandi og frá því að fyrstu einkennin koma í ljós í formi minnisörðugleika, líða að meðaltali ekki nema um sjö ár þar til eyðilegging heilans er orðin svo mikil að sjúklingurinn deyr.

 

Misvísandi niðurstöður

Í tilraunum sínum til að finna lækningu hafa flestir vísindamenn fylgt sömu línu: Ráðast þarf gegn beta-amyloid og þeim kekkjum, svonefndum plökkum sem prótínið myndar í heilanum.

Gulu svæðin í smásjánni sýna uppsöfnun beta-amyloids – svokallaðra plakka eða kekkja – í heilavef Alzheimerssjúklings.

Eftir áratuga starf hafa þó æ fleiri vísindamenn tekið að efast um gildi amyloid-kenningarinnar vegna þess að niðurstöður rannsókna eru mjög misvísandi og benda í allar áttir.

 

Árið 2019 sýndi taugasérfræðingurinn Delphine Boche, hjá Southamptonháskóla í Englandi, fram á að bóluefni sem kemur ónæmiskerfinu til að mynda mótefni gegn beta-amyloid getur hreinsað plakka úr heilanum en það kemur ekki í veg fyrir áframhaldandi hrörnun hans.

 

Niðurstöðurnar voru alveg jafn slæmar þegar lyfjafyrirtækið Biogen gerði tilraunir með lyfið aducanumab sem byggt er á mótefnum gegn plökkunum.

 

Klínískar rannsóknir sýndu að eins árs lyfjagjöf fjarlægði megnið af þessum kekkjum úr heilanum en engu að síður hrakar sjúklingunun áfram uns þeir deyja að lokum vegna umfangsmikils niðurbrots heilans.

LESTU EINNIG

Það bætti ástandið í rauninni ekkert þegar Biogen opinberaði árið 2022 lofandi niðurstöður tilrauna með annað lyf, lecanemab.

 

Rétt eins og aducanumab, ræðst það gegn beta-amyloid og fjarlægir plakka úr heilanum en þetta lyf reyndist að auki hafa jákvæð áhrif á heilahrörnunarsjúklinga.

 

Sjúklingar með væg Alzheimer-einkenni sýndu 27% minni hrörnun heilagetu á einu og hálfu ári en þeir sjúklingar sem höfðu fengið lyfleysu.

 

Hinn grunaði loks sýknaður

Nú velta vísindamenn fyrir sér hvers vegna lecenemab hægi á heilahrörnun fyrst aducanumab gerir það ekki, þótt bæði lyfin fjarlægi þá prótínplakka sem samkvæmt amyloid-kenningunni eiga að vera orsök sjúkdómsins.

 

Skýringuna gæti mögulega verið að finna í nýlegum rannsóknarniðurstöðum sem voru birtar í október 2022.

 

Taugasérfræðingurinn Andrea Sturchio hjá Karólínsku stofnuninni í Stokkhólmi fylgdist með 232 Alzheimer-sjúklingum í þrjú ár til að sjá hvernig heilahrörnun þeirra þróaðist.

50 milljónir þjást nú af Alzheimer. Árið 2050 hefur sá fjöldi trúlega þrefaldast.

Magn beta-amyloids í heila var mælt í öllum sjúklingunum, annars vegar það magn sem hafði kekkjast saman á plakka og hins vegar það magn sem var laust í heilanum.

 

Niðurstöðurnar sýndu að þeir sjúklingar sem höfðu mikið af lausu beta-amyloidi varðveittu hugargetu sína án tillits til þess hvort mikið af plökkum hafði safnast upp eða ekki.

 

Niðurstöðurnar benda sem sagt til þess að beta-amyloid sé ekki sá skúrkur sem talið var, heldur öllu fremur hetjan sem heldur sjúkdómnum í skefjum.

 

Plakkarnir virðast þá aðeins í aukahlutverki og ekki hafa neina þýðingu varðandi heilahrörnunina sjálfa.

 

Þessar óvæntu niðurstöður urðu til þess að vísindamenn tóku að skoða betur hlutverk beta-amyloids í líkamanum.

 

Niðurstöður rannsókna sýna að prótínið hefur margvísleg áhrif, m.a. á stýringu kólesterólmagns í blóði. Áhugaverðast þykir þó að beta-amyloid er líka sýkladrepandi og ræðst sem sagt gegn bakteríum og veirum.

 

Beina sjónum að herpesveirunni

Margir vísindamenn hafa þess vegna tekið að hallast fremur að svonefndri sýklakenningu. Áður hafa vaknað grunsemdir um tannholdsbólgubakteríu en veirur koma líka til greina, ekki síst herpesveiran HSV-1 sem gæti valdið Alzheimer þegar henni tekst að komast í heilann og ráðast þar á heilafrumurnar.

Í leit sinni að orsök Alzheimers beina margir vísindamenn nú sjónum að herpesveirunni HSV-1 sem getur komist í heila og ráðist á taugafrumur.

Sér til verndar framleiða frumurnar beta-amyloid sem kemur í veg fyrir að veirurnar fjölgi sér. Því fleiri veirur sem komast til heilans, því meira losa frumurnar af beta-amyloidi og á endanum verður svo mikið af efninu að það límist saman í kekki og myndar hina svonefndu plakka.

 

Sé svo mikið af veirum að prótínið megni ekki að halda þeim í skefjum, taka heilafrumur að deyja og prótínið sest þá á dauðar frumur og myndar kekki.

 

Samkvæmt veirukenningunni gæti því verið skynsamlegt að þróa lyf sem kemur í veg fyrir að prótínbútarnir lími sig saman, jafnvel þótt frumurnar framleiði mikið af því.

Skúrkurinn verður að hetju

Prótínið beta-amyloid hefur áratugum saman verið talið orsökin fyrir Alzheimer. Nú telja margir vísindamenn að þetta prótín sé þvert á móti að verja heilann fyrir hinum raunverulega skúrki, herpesveiru sem ráðist á heilafrumurnar.

1. Herpesveiran ræðst á heilann

Þótt heilinn sé verndaður innan höfuðkúpunnar geta herpesveirur troðið sér gegnum varnarmúr við æðakerfið og ráðist á taugafrumurnar. Til varnar taka frumurnar að losa prótínið beta-amyloid.

2. Beta-amyloid gerir gagnárás

Beta-amyloid ver taugafrumurnar á tvennan hátt. Prótínið bindur sig við veiruna og gerir hana óskaðlega en leggst líka sem þunn verndarhimna utan á frumuna til að veirur komist ekki inn.

3. Prótínleifar vitni  um tapaða orrustu

Ef heilinn sýkist hvað eftir annað eða sýkingin verður varanleg nær beta-amyloid ekki að halda uppi vörnum. Taugfrumur taka að deyja og eftir verða kekkir úr prótíninu, eins konar minnisvarðar um baráttuna.

Skúrkurinn verður að hetju

Prótínið beta-amyloid hefur áratugum saman verið talið orsökin fyrir Alzheimer. Nú telja margir vísindamenn að þetta prótín sé þvert á móti að verja heilann fyrir hinum raunverulega skúrki, herpesveiru sem ráðist á heilafrumurnar.

1. Herpesveiran ræðst á heilann

Þótt heilinn sé verndaður innan höfuðkúpunnar geta herpesveirur troðið sér gegnum varnarmúr við æðakerfið og ráðist á taugafrumurnar. Til varnar taka frumurnar að losa prótínið beta-amyloid.

2. Beta-amyloid gerir gagnárás

Beta-amyloid ver taugafrumurnar á tvennan hátt. Prótínið bindur sig við veiruna og gerir hana óskaðlega en leggst líka sem þunn verndarhimna utan á frumuna til að veirur komist ekki inn.

3. Prótínleifar vitni  um tapaða orrustu

Ef heilinn sýkist hvað eftir annað eða sýkingin verður varanleg nær beta-amyloid ekki að halda uppi vörnum. Taugfrumur taka að deyja og eftir verða kekkir úr prótíninu, eins konar minnisvarðar um baráttuna.

Þessi nýja kenning gæti veitt mögulega skýringu á þeim sérkennilega mun sem reyndist vera á mótefnunum tveimur frá Biogen.

 

Ef lecanemab bindur sig við beta-amyloid-bútana nákvæmlega þar sem þeir líma sig hver við annan, gæti efnið hindrað myndun plakka og þar með viðhaldið miklu magni af lausum prótínbútum.

 

Aducanumab bindur sig trúlega aðeins við það beta-amyloid sem þegar hefur límst saman og þar af leiðandi hefur þetta mótefni engin áhrif á magn beta-amyloids í lausu ástandi.

 

Enn sem komið er, eru þetta þó aðeins getgátur. Biogen hefur ekki enn opinberað nákvæmar upplýsingar um magn óbundins beta-amyloids í heila í þessum tveimur rannsóknarhópum – og kannski hefur fyrirtækið ekki einu sinni gert slíkar mælingar.

 

Það er því enn ekki hægt að slá neinu föstu um gildi veirukenningarinnar og reynslunni ríkari eftir afdrif amyloid-kenningarinnar, munu vísindamenn trúlega vilja halda sem flestum dyrum opnum í leitinni að hinni raunverulegu orsök Alzheimers.

HÖFUNDUR: GORM PALMGREN

© Tek Image/SPL/Shutterstock,© Vanderbilt University,© Thomas Deerinck, NCMIR/SPL,© Shutterstock,

Náttúran

Bakteríur örva ilminn af sumarregni

Maðurinn

Heilinn sér andlit alls staðar og meðhöndlar þau öll eins

Náttúran

90 sekúndur til dómsdags: Viðbúin gegn hamförunum?

Náttúran

Vísindamenn undrandi: Svona myndast stærstu sandöldur heims

Náttúran

Stiklað á stóru um lotukerfið á 10 mínútum

Náttúran

Forneðlur lágu á eggjunum

Náttúran

Hve þungt er ljósið?

Maðurinn

Er til fólk sem skynjar ekki sársauka?

Maðurinn

Eru sjóböð að vetri heilsusamleg?

Maðurinn

Fyllerí: Svona slævir áfengi heilann

Alheimurinn

Hjarta Plútós varð til eftir árekstur

Lifandi Saga

Hvenær var skák fundin upp?

ÁSKRIFT AÐ VÍSINDI.IS

Prófaðu í 14 daga ókeypis!

  • Fullur aðgangur að vefnum okkar með rúmlega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Lifandi vísindi/Lifandi saga í rafrænni útgáfu á vefnum,
  • Aðeins 1.790 krónur á mánuði.
  • Engin skuldbinding – Þú getur hætt hvenær sem er.

ÁSKRIFT AÐ TÍMARITINU

Þrjú tölublöð + gjöf: Skemmtilegur sjónauki
  • Þrjú næstu tölublöð Lifandi vísinda/Lifandi sögu – sent heim til þín – eins færðu lítinn og vandaðan sjónauka að gjöf.
  • Fullur aðgangur að vefnum okkar – visindi.is – með tæplega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Spennandi greinar og flottar myndir sem svala forvitni þinni.
  • Þú getur hætt eftir tilboðið en ef þú heldur áfram skuldbindur þú þig aðeins þrjú tölublöð í einu og þú getur sagt upp hvenær sem sem og klárar þá tímabilið sem er hafið.
  • Venjuleg áskrift – þrjú tölublöð – kostar aðeins 7.590 kr

Sjónauki og þriggja blaða áskrift – Alls 3.800 kr.

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Search

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Viltu lesa greinina?

Fáðu aðgang að visindi.is

Ókeypis í 2 vikur!

Eftir það kostar eingöngu 1.790 kr. á mánuði og enginn uppsagnarfrestur.

Innifalið er aðgangur að öllum greinum á vefnum ásamt rafræna útgáfu af nýjustu tölublöðunum.

  • Fullur aðgangur að visindi.is
  • Frábærar myndir og myndbönd
  • Aðgengilegt í öllum snjalltækjum
  • Fullur aðgangur að gríðarlegu magni eldri greina
  • Nýjustu tölublöðin í rafrænu formi

Núverandi áskrifendur að tímaritinu fá að sjálfsögðu ókeypis aðgang að vefnum og þurfa bara að virkja aðgang sinn hér.

Ef þú ert þegar áskrifandi að visindi.is