Genin bera í sér uppskriftina á öllu lífi og gen sérhverrar lífveru skipta sköpum um tilveru hennar. En genin hafa ekki sjálf neina sérstaka virkni við að viðhalda lífi – fyrst þarf að umbreyta þeim í prótín.
Verði gen fyrir breytingum, t.d. vegna stökkbreytingar, breytist samsvarandi prótín einnig. Kannski er það virkni þess sem breytist eða það framleiðist ekki í sama magni né á sama stað og áður. Þetta getur leitt til veikingar lífverunnar, en einnig að hún fái nýjan og kannski nytsaman eiginleika, eða jafnvel til lengri tíma litið þróist í alveg nýja tegund.
Til þess að öðlast skilning á virkni genanna nýta vísindamenn sér erfðatækni sem verkfæri. Rétt eins og breyta má um mataruppskrift með því að bæta við, útiloka eða aðlaga magn tiltekinna þátta og fá út alveg nýjan rétt, geta fræðimenn breytt lífveru með því að bæta við, útiloka eða aðlaga virkni á tilteknu geni. Þegar þeir síðan rannsaka erfðabreyttu lífveruna og sjá í hverju breytingarnar eru fólgnar, getur það leitt þá á sporið um náttúrulega virkni gensins.
Erfðatæknin veitir vísindamönnum sífellt nýja þekkingu á þúsundum gena og betri innsýn í hvernig líkaminn virkar, hvernig sjúkdómar myndast og hvernig berjast má gegn þeim. Vísindamenn um heim allan beita erfðatækni árlega á ótal tegundir – spendýr, fugla, fiska, skordýr, plöntur, sveppi og bakteríur – en hverfandi lítill hluti þeirra fer út úr rannsóknarstofunni og verður að nýrri tegund plöntu eða dýri í landbúnaði eða iðnaði. Langflest þeirra nýtast einungis við greiningar á rannsóknarstofum og þessar genabreyttu lífverur eiga heiðurinn á drjúgum hluta þekkingar okkar um hvernig genin stýra nánast öllum ferlum lífsins.