Persónuleiki fólks er merkileg blanda ýmissa þátta. Jafnvel allra félagslyndasta og forvitnasta fólk getur líka átt til að bera takmarkað traust til annarra eða hafa stöðugt áhyggjur af framtíðinni.
Sálfræðingar nota oft svonefnt fimm þátta módel til að lýsa margbrotnum persónuleika fólks. Módelið kallast líka stundum „The Big Five“. Það var þróað í samvinnu sálfræðinga á níunda áratug síðustu aldar og byggist á fimm kjarnaþáttum persónuleikans og 30 smærri þáttum að auki.
Hverjum og einum af þessum fimm kjarnaþáttum má lýsa sem línu milli tveggja póla og módelið segir til um hvar á þessari línu persónuleiki einstaklings er staðsettur. Sá þáttur sem nefnist vinsemd liggur t.d. milli póla sem kalla mætti skapstyggð og geðprýði.
Módelið skiptir fólki ekki í fimm flokka, heldur er því ætlað að draga fram þau skapgerðareinkenni sem lýsa fólki best.
Kynntu þér þessi skapgerðareinkenni nánar hér – og taktu svo persónuleikaprófið
Yfirlit
1. Áhyggjuhneigð
2. Mannblendni
3. Hreinskilni
4. Vinsemd
5. Samviskusemi
Áhyggjuhneigð
Þú færð oft neikvæðar tilfinningar
Áhyggjuhneigð speglar tilhneigingu þína til neikvæðra hugsana og tilfinninga.
Fólk sem skorar hátt í áhyggjuhneigð markast auðveldlega af streitu og verður órólegt, niðurdregið eða verður brugðið af litlu tilefni.
Fólk með lágt skor er rólyndara, fyllist ekki örvæntingu þótt eitthvað gangi ekki samkvæmt áætlun, slakar almennt betur á og er ekki stöðugt að velta hlutunum fyrir sér.
Nær yfir hugtökin:
Ótti
Reiði
Þunglyndi
Sjálfsálit
Óhófsemi
Viðkvæmni
Mannblendni
Þú sækir orku til annarra
Mannblendni lýsir því hvernig við lítum á félagstengsl og bregðumst við þeim.
Há einkunn merkir að þér líki vel að umgangast annað fólk og sækir orku í samveruna.
Einrænt fólk er á hinum enda þessa kvarða, þreytist auðveldlega á of miklu samneyti og kýs fremur eigin félagsskap eða mjög þröngan hóp. Mannblendið fólk talar oftast meira en einrænt.
Nær yfir hugtökin:
Lipurð gagnvart öðrum
Félagslyndi
Sjálfhælni
Virkni
Spennusækni
Glaðlyndi
Hreinskilni
Sköpunargleði og áhættusækni
Hreinskilni og einlægni lýsa afstöðu þinni til breytinga, upplifana, lista og nýrra hugmynda.
Lágt skor merkir íhaldssaman og praktískan persónuleika en hátt skor er til marks um sköpunargleði, forvitni, tilfinninganæmi og áhuga á menningu.
Mjög opinskátt fólk er oft til í að taka áhættu og getur virst óútreiknanlegt en lokaðri persónuleiki einbeitir sér að því að ljúka verkefni sínu.
Nær yfir hugtökin:
Ímyndunarafl
Listaáhugi
Tilfinninganæmi
Ævintýraþrá
Vitsmunir
Frjálslyndi
Vinsemd
Þú víkur eigin hugðarefnum til hliðar
Vinsemd felur í sér að vera til í að leggja nokkuð á sig til að skapa eindrægni.
Vinsamlegt fólk er tillitsamt, hjálpsamt, gjafmilt og reiðubúið til málamiðlana til að ná samstöðu.
Fólk sem skorar lágt á þessum kvarða leggur meiri áherslu á framgang eigin hugðarefna og lætur sig afstöðu annarra litlu skipta. Það er oft ekki samstarfsfúst og grunar aðra um græsku.
Nær yfir hugtökin:
Tillitssemi
Siðvendni
Náungakærleikur
Samvinnufýsi
Hófstilling
Samkennd
Samviskusemi
Þú einblínir stöðugt á takmarkið
Samviskusemi snýst um það sem þú leggur á þig til að ná takmarki þínu og uppfylla eigin væntingar og annarra.
Hátt skor merkir hæfni til að hafa stjórn á skyndihugdettum en hafa augun á boltanum og getur stundum skilist sem þrákelkni.
Lágt skor merkir hins vegar sveigjanleika og umhugsunarlitlar ákvarðanir sem getur skilist sem tillitslaus og óábyrg hegðun.
Nær yfir hugtökin:
Sjálfstraust
Reglusemi
Skyldurækni
Metnaðargirni
Sjálfsagi
Varkárni
Svona ferðu að því að taka prófið
Með því að smella á tengilinn neðst í þessari grein getur þú séð hvar þú stendur á mælikvörðum Fimm þátta módelsins og hinna 30 undirliggjandi þátta að auki.
Í prófinu tekurðu afstöðu til 120 mismunandi fullyrðinga – t.d. hve auðvelt þér reynist að eignast vini eða hversu oft þú hefur áhyggjur af einhverju.
Þótt spurningarnar séu margar tekur ekki nema svo sem 10-12 mínútur að svara þeim. Niðurstöður eru sýndar á stöplaritum og þú getur auðveldlega borið þig saman við aðra.