Flest þekkjum við trúlega þá óþægindatilfinningu að vera vakin upp úr djúpum svefni af miskunnarlausri vekjaraklukku.
En hvers vegna vöknum við stundum hress og endurnærð en erum aftur á móti stundum svo þreytt að við eigum jafnvel erfitt með að ná til biðtakkans á vekjaranum?
Vísindamenn hjá Kaliforníuháskóla hafa unnið rannsókn á 833 fullorðnum. Niðurstöðurnar sýna að við getum ráðið því sjálf hvernig okkur líður á morgnana með því að fylgja þremur einföldum ráðum – og í samhenginu skipta genin engu máli.
Leyndardómurinn er þríþættur
Í tvær vikur báru þátttakendur sérstök armbandsúr sem skráðu alla líkamsvirkni, svefnlengd og svefngæði. Þátttakendur fengu líka þrenns konar morgunmat sem var skráður í samhengi við ástand þeirra um morguninn og yfir daginn. Glúkósi í blóði var líka mældur.
Stór hluti þátttakenda var tvíburar, enda hjálpaði það vísindamönnunum að einangra mismun með tilliti til erfðaþátta.
Tölurnar sýndu að leyndardómurinn að baki vel heppnuðum morgni byggist á þremur þáttum: nægri hreyfingu daginn áður, nægum svefni og svo réttum morgunmat.
Hver þáttur skiptir máli
Einn vísindamannanna er Raaphael Valla hjá Kaliforníuháskóla í Berkeley. Hann útskýrir að hver þessara þátta sé mikilvægur ef við viljum vakna hress, úthvíld og ekki síst vera í góðu formi allan daginn.
„Ef þú sefur lengur en venjulega vaknarðu hressari. Þú nærð sama árangri með góðri hreyfingu daginn áður. Hver og einn þessara þátta leiðir af sér bætingu,“ útskýrir hann í fréttatilkynningu.
Góður nætursvefn
Versti morgunmaturinn reyndist sá sem innihélt mikið af sykri sem vissulega hafði hressandi áhrif í byrjun en leiddi svo til syfju megnið af deginum.
Bestu áhrifin hafði morgunmatur með miklum heilkornaafurðum og grófu grænmeti – svonefndum flóknari kolvetnum.
Það kom síður á óvart að svefntíminn skyldi reynast hafa afgerandi áhrif en niðurstöðurnar leiddu í ljós að 7-9 tíma svefn er nauðsynlegur til að vera morgunhress.
Sameindir sem svæfa og vekja
Allan sólarhringinn stendur barátta vökusameindanna orexíns og svefnsameindanna adenósíns. Orexín sigrar á morgnana en adenósín á kvöldin.
Á morgnana tekur heilinn að framleiða vökusameindina orexín sem virkjar taugafrumur og vekur þannig heilann.
Yfir daginn safnast upp úrgangsefnið adenósín. Þessar sameindir virka svæfandi og vagga heilanum þannig í svefn.
Síðari hluta dags dregur úr framleiðslu orexíns en orkunotkun heilans veldur uppsöfnun adenósíns. Þreytan vex smám saman.
Yfir nóttina umbreytist adenósín í orkusameindirnar ATP. Þegar líkamsklukkan fer aftur að framleiða orexín, vaknar heilinn.
Hvers vegna hreyfing virðist bæta athyglina og morgunskapið vita vísindamennirnir ekki en þeir vekja athygli á því að líkamshreyfing er almennt nauðsynleg góðu heilbrigði og bætir líka skaplyndi.