Spendýr eru ekki ein um að hafa tvær nasir, heldur gildir það líka um flest önnur dýr, svo sem fiska, froskdýr, skriðdýr og fugla. Meðal ástæðnanna er sú að lyktarskynið verður betra þegar inngangar fyrir ilmefni eru tveir. Á mörgum dýrum er talsvert bil á milli nasanna og þar með aukast líkur á að greina lykt í nágrenninu og ákvarða úr hvaða átt hún berst. Tvær nasir eru líka betri en ein að því leyti að örðugra verður fyrir aðskotahluti að komast inn. Sömuleiðis geta tvær nasir veitt höfði og trýni aukinn styrk. Brjóskið milli nasanna á mönnum gerir nefið t.d. stífara en ella.
Hjá mörgum spendýrum geta aðskildar nasir skipt máli varðandi hita- og vökvajafnvægi. Tiltölulega stórt yfirborð inni í nefinu eykur hæfni til að halda raka og hita í líkamanum við öndun. Í nösum og nefholi er mikið af fíngerðum æðum sem gera mögulegt að hita innöndunarloft og bæta í það raka áður en því er andað niður í lungun og síðan út aftur. Þetta tryggir bestu loftskipti í lungunum ásamt því að líkamshitinn haldist í 37 gráðum.
Og tvær nasir með stóru yfirborði eru líka kostur fyrir dýr sem þurfa að losa hita en hafa ekki svitakirtla. Þau lækka líkamshitann með því að láta vatn gufa upp af trýninu og úr nösunum.