Líffræði
Náttúrfræðingar á vegum samtakanna „Conservation International“ hafa uppgötvað fjölda dýrategunda í fjöllum á Daríen-svæðinu á landamærum Kólumbíu og Panama.
Meðal áður óþekktra tegunda má nefna þrjá eiturfroska, þrjá glerfroska, einn trúðfrosk, eina salamöndru og tvær froskategundir af Pristimantis-ætt.
Glerfroskarnir þrír eru af ættunum Nymphargus, Cochranelia og Centrolene, en eiturfroskarnir tilheyra ættunum Colosthetus, Ranitomeya og Anomaloglossus. Eins og nafnið bendir til eru síðasttöldu froskarnir mjög eitraðir.
Til viðbótar fundust tvær nýjar tegundir af Pristimantis-ætt, en slíkir froskar hafa verið nefndir regnfroskar. Húð annars frosksins er þyrnótt, en fæturnir æpandi appelsínugulir að lit. Hin tegundin er grænleit með gula bletti á innanverðum lærum.
Í Kólumbíu ríkir mikil fjölbreytni meðal froskdýra. Nú hafa verið skráðar 754 tegundir og er ekki öllu fleiri froskdýrategundir að finna á nokkru öðru svæði í heiminum.
Froskdýr eru mikilvæg uppspretta þekkingar á náttúrunni.
Þessi litlu dýr hafa þunna og viðkvæma húð sem auðveldlega drekkur í sig ýmis efni og dýrin sýna því fljótt viðbrögð við mengun, svo sem súru regni, eiturefnum og þungmálmum. Froskdýrin eru líka hjálpleg mönnum því þau éta mikið af þeim skordýrum sem bera með sér sjúkdóma, t.d. malaríu.