Nú eru stærstu stjörnur alheimsins allt að 100 sinnum stærri en sólin okkar.
En þegar stjörnur tóku að myndast eftir Miklahvell gátu þær orðið allt að 100.000 sinnum stærri.
Þetta sýnir ný, japönsk rannsókn. Ástæðan er sú að í hinum unga alheimi var frumefnasamsetning önnur en nú er.
Svona fæðist stjarna
Stjörnur myndast þannig að stórt gas- og rykský þéttist þar til það fellur saman undan eigin þunga og myndar sólstjörnu.
Öfugt við nútímann, voru frumefnin í upphafi nánast einvörðungu vetni og helíum. Þessi efni eru bæði afar létt en framan af var mjög lítið af þungum frumefnum. Þar sem þung frumefni eru betur fær um að þeyta orku út úr skýinu, fellur það fyrr saman í stjörnu.
Vísindamennirnir að baki þessari nýju rannsókn settu upp tölvulíkan af aðstæðum í ungum alheimi og líkanið sýndi að það tók fyrstu stjörnurnar mun lengri tíma að myndast en á móti kom að þær urðu miklu stærri.
Fyrstu stjörnurnar mynduðust þannig að gasský úr vetni og helíum varð svo heitt að skýið sendi frá sér geislun. Geislunin losaði hluta varmans sem aftur þýddi að skýið hélt áfram að stækka, jafnframt því sem mikið af kældu gasi myndaði kuldaskil sem flökkuðu um geiminn.
Þegar kuldaskilin bárust inn í stórt gasský, féll það saman og myndaði stjörnu. Þar eð gasskýið hafði haft langan tíma til að vaxa, varð sólstjarnan ofboðslega stór.