Útöndunarloft bjargar lífum

Árlega deyja margir góðir sundmenn nærri landi. Nú hafa danskir vísindamenn komist að því að oföndun í kjölfar ofkælingar er einatt orsökin. Fræðimennirnir hafa hannað nýtt björgunarvesti sem eykur lífslíkur í sjónum.

BIRT: 04/11/2014

LESTÍMI:

3 mínútur

Þann 18. júlí klukkan 15:47 árið 2005 var ákveðið að lýsa eftir lystisnekkju við strendur Danmerkur. Maður hafði fallið fyrir borð í Vesturhafi tuttugu tímum áður.

 

Sjórinn var 17 stiga heitur og samkvæmt tölfræði um lífslíkur í slíkum sjávarhita var engin ástæða til að leita frekar. Þremur tímum síðar bjargaðist sæfarinn eftir að ferðamenn höfðu séð hann fljótandi í öldurótinu.

 

Eftir tæpan sólarhring í sjónum hafði líkamshiti hans fallið niður í 34,6 °C. En hann var enn með meðvitund og slapp með væga lungnabólgu.

 

Atvik þetta varð til að vekja forvitni lækna við sjúkrahúsið í Bispebjerg um hvað gerist í heilanum þegar menn lenda í köldum sjó.

 

Undir leiðsögn yfirlæknisins Frank Pott voru gerðar margar tilraunir með því að sökkva mönnum í ískalt vatn meðan viðbrögð líkamans voru mæld og skrásett. Árangurinn er ný uppfinning sem gæti bjargað mannslífum.

 

Fyrstu mínúturnar skipta sköpum

 

Við þekkjum þetta öll frá því að fara í ískalda sturtu: þegar vatnið skellur á líkamanum grípum við andann reglubundið á lofti.

 

Viðbragð þetta á sér stað þegar heilinn hefur fengið boð frá kuldanemum í húðinni þegar ofkæling á sér stað. Púlsinn eykst og við tökum að ofanda. Þ.e.a.s. draga andann hraðar og dýpra.

 

Rannsóknirnar á Bispebjerg sjúkrahúsinu hafa sýnt að það er einmitt oföndunin á fyrstu mínútunum sem getur skipt sköpum þegar menn falla ofan í kaldan sjó. Þegar þátttakendur í tilrauninni settust ofan í ískalt vatnið drógu þeir andann fjórum sinnum hraðar en ella.

 

Fáum sekúndum síðar féll blóðstreymið um heilann niður um allt að helming. Við svo takmarkað blóðstreymi skortir heilann súrefni. Þess vegna fer mönnum að sundla og fyllast óðagoti sem eykur enn á oföndunina.

 

Að lokum getur súrefniskorturinn leitt til yfirliðs. Í tvígang þurfti meira að segja að hætta tilraunum á sjúkrahúsinu, þar sem þátttakendur voru við það að missa meðvitund.

 

Súrefnisskortur í heilanum stafar undarlega nokk af því að við drögum andann of hratt. Þegar frumur okkar mynda orku við brennslu á sykrum og súrefni myndast koltvísýringur, og líkaminn notar magn hans sem óbeina vísbendingu um skort á súrefni í ýmsum vefjum líkamans.

 

Við of mikla líkamlega áreynslu safnast koltvísýringur upp í líkamanum. Því meiri sem hann verður, þess súrara verður blóðið – pH-gildið fellur. Það verður til að æðar í heilanum víkka í viðleitni til að fá meira súrefni.

 

Við drukknun er þessu öfugt farið. Þegar líkaminn fellur í kaldan sæinn er fyrsta viðbragðið að anda ótt og títt. Þar sem loftið inniheldur mun minna af koltvísýringi en blóðið, fellur magn koltvísýrings í líkamanum.

 

Það þýðir að minni kolsýra myndast í blóðinu sem verður basískt fyrir vikið – pH-gildið stígur. Æðar heilans bregðast við með því að draga sig saman svo að minna súrefni berist til heilans. Mann sundlar og missir jafnvel meðvitund.

 

Margir drukkna nærri landi

 

Á landi uppi er heppilegt að falla í yfirlið skorti heilan súrefni.

 

Þyngdaraflið hjálpar nefnilega við að auka blóðstreymi til höfuðsins. Í sjónum verður yfirlið hins vegar til þess að flestir drukkna.

 

Jafnvel þótt þeir séu í björgunarvesti því þeir geta fengið sjó í lungun og kafnað í öldunum. Þessar nýju niðurstöður auka skilning okkar á því hve margir drukkna nærri landi. Í Englandi deyja t.d. meira en helmingur þeirra sem drukkna minna en þremur metrum frá ströndinni, þrátt fyrir að vera ágætir sundmenn. Þessar tölur benda til þess að hvorki sé hægt að kenna örmögnun eða ofkælingu líkamans um drukknunina.

 

Fremur er hér á ferðinni viðbragðsferli líkamans í kjölfar oföndunar. Líkurnar á því að lifa af aukast því verulega nái menn að spjara sig fyrstu mínúturnar í sjónum.

 

Það er reyndar mögulegt að forðast þessa hættulegu oföndun með því að stjórna andardrættinum meðvitað.

 

Vísindamennirnir prófuðu því þjálfaða jóga í framangreindri tilraun. Með því að stjórna andardrætti sínum gátu þeir haldið blóðstreymi heilans í jafnvægi.

 

Flestum reynist þó örðugt að halda ró sinni í slíkri lífshættu og því hafa fræðimenn hannað lítið tæki við björgunarvestið til að styðja við eðlilegan andardrátt.

 

Í gegnum munnstykki á þessu tæki andar maður að sér lofti með hækkuðum koltvísýringi til þess að koma í veg fyrir hið hættulega fall í koltvísýringsmagni blóðs.

 

Þessu má líkja við að anda í poka, þar sem maður andar að sér þeim koltvísýringi sem maður er rétt búinn að anda frá sér. Með þessu móti fellur sýrugildi blóðsins og æðarnar í heilanum víkka út til að taka til sín meira súrefni.

 

Þessu fylgir þó sú hættulega aukaverkun að maður fái ekki nægt súrefni en fræðimenn hafa tekið mið af þessu með því að auka súrefnismagn pokans.

 

Tilraunir með frumgerð af uppfinningunni sýna að þrátt fyrir oföndun fellur ekki blóðstreymi í heilanum. Það eykur verulegar líkur á að menn geti lifað af í köldum sjónum.

 
 

BIRT: 04/11/2014

vinsælustu greinarnar

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.