Allt að helmingur hvítra karlmanna yfir fimmtugt verða fyrir hármissi.
Hártapið stafar af því að karlhormónið testósterón umbreytist í efnið dihydrotestósterón, sem bindur sig við viðtaka á hárfrumunum og styttir þannig vaxtartíma hársins.
Konur hafa mun minna testósterón en karlar og það er að líkindum ástæða þess að þær tapa hárinu mun sjaldnar. Þegar það gerist, eru einkennin líka öðruvísi. Karlmenn fá gjarnan há kollvik og með tímanum myndast stórir skallablettir á hvirflinum.
Á konum þynnist hárið hins vegar jafnara en þó mest á hvirflinum og þar getur stöku sinnum jafnvel myndast skallablettur. Ekki er á hreinu af hverju þessi mismunur stafar.
Nú eiga allir að fá hár að sínum eigin vilja
Ertu með of lítinn hárvöxt? Eða kannski of mikinn? Þessi fíngerðu strá sem vaxa bæði á höfðinu og annars staðar á líkamanum valda okkur flestum einhverjum vandræðum, hvort heldur þau vaxa eða ekki. En nú eru vísindin reiðubúin til hjálpar með þrívíddarprentun, leysigeislum eða stofnfrumum.