Lifandi Saga

Verkfræðingar nasista vildu gera Egyptaland að stórveldi

Eftir fangabúðavist í Sovétríkjunum, Englandi og Bandaríkjunum sneru hernaðarverkfræðingar nasista heim á árunum eftir 1950. Hið friðsamlega Vestur-Þýskaland var þeim framandlegt en þeir ráku augun í atvinnuauglýsingar frá Egyptalandi.

BIRT: 19/11/2023

Hitamóðan er þegar tekin að bugðast upp af eyðimerkursandinum snemma morguns þegar rútan nemur staðar í Wadl Natrun, uppþornuðum fljótsfarvegi norðaustur af Kaíró.

 

Um 50 farþegar – erlendir blaðamenn í boði egypsku stjórnarinnar – stíga út og ganga til sæta sinna á áhorfendapöllum. Eftir því sem sólin færist ofar á himininn 21. júlí 1962, eykst hitinn og verður illþolandi. En gestirnir eru þess fullvissir að sú sjón sem bíður þeirra verði óþægindanna virði.

 

Blaðamennirnir verða ekki fyrir neinum vonbrigðum. Þegar klukkan verður 9.30 heyrast skruðningar, jörðin titrar og mjóslegin eldflaug rís upp í himinblámann. Hún fylgir fullkominni boglínu og hverfur loks í átt að Miðjarðarhafi.

„Flugverksmiðja í Norður-Afríku leitar sérfræðinga“.
Auglýsing í þýskum og austurrískum blöðum 1958.

Í byrgi í grenndinni fylgist egypski einvaldsforsetinn, Gamal Abdel Nasser, ánægður með himnaferðinni. Þetta eldflaugaskot reynist einmitt sá glæsisigur sem hann hefur beðið eftir síðan hann tók völdin í landinu tíu árum fyrr.

 

Nú er það aðeins spurning um tíma hvenær herafli hans verður máttugri en her erkióvinarins, Ísraelsríkis. Nýju eldflauginni er ætlað að staðfesta sess Egyptalands sem öflugasta herveldis í arabaheiminum. Útlitið sýnir líka að Nasser hefur fengið sanna sérfræðinga til liðs við sig.

 

Eldflaugin er máluð í skákreitamynstri, rétt eins og V2-flaugarnar sem nasistar skutu frá tilraunastöðinni í Peenemünde við Eystrasalt 1942.

 

Stórveldin einráð

Það var ekki auðvelt viðfangsefni fyrir Egypta að smíða nothæfa eldflaug. Eftir að hafa orðið sjálfstætt ríki 1922 skorti allt til alls og Egyptar voru algerlega háðir Bretum, sínum gömlu nýlenduherrum. Það gilti líka um herinn sem Bretar sáu þó lengi fyrir bæði birgðum og ráðgjöf.

 

Árið 1947 kölluðu Bretar heim síðustu hernaðarráðgjafana. Það kom Egyptum afar illa því ári síðar var Ísraelsríki stofnað og nær samstundist braust út stríð milli þessa nýja ríkis og arabískra nágrannaríkja.

 

Stríðið leiddi í ljós, án minnstu miskunnar, að egypski herinn var langt á eftir samtímanum. Í stað þess að afmá Ísrael, biðu arabaríkin ósigur.

 

Auðmýkingin var Egyptum næstum óbærileg og í þeirri bylgju þjóðerniskenndar sem reið yfir notaði Gamal Abdel Nasser tækifærið og steypti Farouk konungi af stóli í friðsamlegri byltingu.

Þótt Eyptaland Nassers biði ósigur í Súezstríðinu náðu Egyptar engu að síður yfirráðum yfir Súezskurðinum.

Bauð Vesturveldunum birginn

Seinni heimsstyrjöldin veikti mjög aðstöðu Breta sem stórveldis og nýlenduveldis. Herforinginn og þjóðernissinninn Gamal Abdel Nasser nýtti tækifærið og tók völdin.

 

– 1947: Bretar draga sig í hlé

Fyrrum nýlenduherrarnir, Bretar, draga heim herlið sitt í Egyptalandi. Þeir skilja þó eftir herlið við hinn mikilvæga Súezskurð.

– 1949: Tap afhjúpar vanmátt

Egyptar líta á stofnun Ísraelsríkis 1948 sem ógn. Ósigurinn í stríðinu árið eftir afhjúpar greinilega vanmátt Egypta í samanburði við þennan nýja nágranna.

 

– 1952: Nasser tekur völdin

Vonbrigðin eftir ósigurinn gegn Ísrael, ásamt áframhaldandi nærveru Breta skapa grundvöll valdaráns. Þjóðernissinninn og yfirlautinantinn Gamal Abdel Nasser tekur völdin 29. júlí án blóðsúthellinga.

 

– 1956: Súezdeilan skiptir sköpum

Nasser þjóðnýtir Súezskurð og Ísraelar, Frakkar og Bretar ráðast á Egyptaland. Þeir fara með sigur af hólmi en Bandaríkjamenn og Sameinuðu þjóðirnar viðurkenna yfirráð Egypta yfir skurðinum. Stríðið sannfærir Nasser um nauðsyn þess að vígbúast.

Landamæralínur kalda stríðsins höfðu enn ekki verið dregnar í Mið-Austurlöndum. Austrið og vestrið kepptust um hylli Egypta og stráðu yfir þá tækjabúnaði, matvörum og ekki síst vopnum.

 

Fyrstu stjórnarár sín hélt Nasser góðum tengslum í báðar áttir en sú aðferð virkaði ekki lengur en stórveldunum þóknaðist að spila með.

 

Árið 1955 stöðvuðu Bretar afhendingu Vampire-orrustuvéla í mótmælaskyni við að Egyptar skyldu líka þiggja aðstoð frá Sovétríkjunum. Á hinn bóginn áttu Sovétmenn í erfiðleikum með að koma frá sér varahlutum í MIG-15 orrustuvélar Egypta.

 

Nasser mislíkaði að vera algerlega upp á stórveldin kominn og hann tók afdrifaríka ákvörðun. Hann ákvað að egypski herinn skyldi búinn egypskum orrustuvélum og egypskum flaugum.

 

Sjálfir áttu Egyptar enga sérfræðinga á þessu sviði. Nasser þurfti að leita þeirra í útlöndum og hann beindi sjónum að Evrópu.

 

Fangar unnu fyrir óvinina

Tímasetningin hefði ekki getað verið betur valin, því einmitt á þessum tíma voru vísindamenn og verkfræðingar nasista hundruðum saman að leita sér að vinnu.

 

Í lok seinni heimsstyrjaldar höfðu sigurvegararnir tekið hernaðarsérfræðinga nasista til fanga og létu þá taka þátt í þróun nýrrar hernaðartækni í Sovétríkjunum, Bandaríkjunum, Bretlandi og Frakklandi.

 

En eftir 1950 höfðu þýsku sérfræðingarnir lokið afplánun refsidóma sinna og fengu heimfararleyfi. Mörgum gekk hins vegar illa að fóta sig í lýðræðisríkinu Vestur-Þýskalandi.

 

Verkefni í hefðbundnum iðnaði freistuðu þeirra ekki að neinu ráði og auk þess áttu þeir erfitt uppdráttar vegna fortíðar sinnar.

 

Allt til ársins 1945 höfðu sérfræðingar Hitlers staðið að brautryðjendaverkefnum á borð við eldflaugar og þotur og nú langaði þá til að halda áfram svipuðum verkefnum. Hjá Nasser bauðst þeim tækifæri til þess.

 

„Flugverksmiðja í Norður-Afríku leitar sérfræðinga“. Þannig var fyrirsögn atvinnuauglýsingar í þýskum blöðum sumarið 1958. Umsækjendum var bent á að senda umsókn í pósthólf í Zürich í Sviss.

 

Það var Hassan Sayed Kamil sem stóð að auglýsingunum. Hann var forstjóri tveggja fyrirtækja; verslunarfyrirtækisins Meco og MTP-AG sem sagt var framleiða vélar, túrbínur og dælur.

 

Góðborgarinn Kamil forstjóri bjó í Zürich og var eiginmaður Helenu hertogaynju af Mecklenburg. Í rauninni hafði egypska varnarmálaráðuneytið ráðið hann til að útvega tækni og framleiðsluvörur sem alþjóðlegt viðskiptabann meinaði Egyptum að flytja inn.

Á sjötta áratugnum dreymdi leiðtoga Egyptalands, Gamal Nasser, um að styrkja herinn og hópur þýskra og austurrískra vísindamanna var reiðubúinn að taka verkið að sér.

Atvinnuauglýsingarnar skiluðu árangri. Hassan Sayed Kamil þurfti ekki að bíða lengi eftir fyrstu umsóknunum. Meðal fyrstu umsækjendanna var Austurríkismaðurinn Ferdinand Brandner.

 

Í stríðinu hafði hann verið SS-foringi og starfað við þróun flughreyfla hjá Junkers. Vorið 1945 reyndu Brandner og félagar hans að flýja frá verksmiðjunni í Dessau en voru teknir til fanga af Rauða hernum.

 

Sovésku hermennirnir rifu Junkers-verksmiðjuna skipulega niður og endurbyggðu síðan í Kujbysjev á bökkum Volgu. Þar voru Brandner og félagar hans settir í vinnu. Til að fá frelsi áttu þeir að hanna nýjan hreyfil.

 

Undir stjórn Brandners byggðu þýsku verkfræðingarnir túrbóhreyfil fyrir sprengjuvélina Tupolev Tu-95. Sú vél náði 925 km hraða og komst heila 15.000 kílómetra. Það sló út allt sem Vesturlönd gátu boðið.

 

Árið 1953 sneri Brandner heim til Austurríkis og gegndi þar ýmsum stöðum en engin þeirra veitti honum ánægju.

 

Messerschmitt fylgdi Brandner

Brandner skrifaði Kamil sem bauð honum til Kaíró. Þegar Brandner kom til Kaíró í ársbyrjum 1960 til fyrstu viðræðna hreifst hann af hátíðlegum viðtökum á virðulega Shepheards-hótelinu.

 

„Loftkælingin suðaði lágt og skapaði þægilegan stofuhita. Á borðinu voru rauðgular rósir og girnilegir ávextir í skál. Slíkt upphaf hafði áhrif,“ skrifaði Brandner í æviminningum sínum.

 

Austurríkismaðurinn skrifaði undir fimm ára samning sem gerði hann að yfirmanni verkefnis sem átti að endurnýja loftvarnir Egypta.

 

Í Zürich lét Kamil sér ekki nægja að bíða rólegur eftir umsóknum, heldur sóttist markvisst eftir vísindamönnum og verkfræðingum hjá fremstu fyrirtækjum og háskólum í Vestur-Þýskalandi og Austurríki.

„Ég vil að allur heimurinn geri sér ljóst að við munum ekki leyfa að Palestína sé í höndum Ísraelsmanna.“
Nasser í viðtali um nýju eldflaugarnar.

Hann komst líka í samband við Willy Messerschmitt, hinn fræga þýska flughönnuð sem m.a. stóð að smíði þotunnar Me-262.

 

Eftir stríðið hafði Messerschmitt afplánað tveggja ára fangavist fyrir að hafa notað vinnuþræla í verksmiðjum sínum. Þegar hann losnaði kom vopnleysi Þjóðverja í veg fyrir að hann gæti byggt herflugvélar, þess í stað áttu verksmiðjurnar nú að framleiða saumavélar og smábíla fyrir tvo.

 

Þessar hindranir urðu til þess að Messerschmitt sneri sér til spænska einræðisherrans Francos og bauð honum þjónustu sína. Á Spáni stóð hann að þróun þotunnar HA-200 og þegar tækifærið bauðst gerði hann samning við Nasser. Með sér hafði hann teikningar að lítilli en ofurhraðskreiðri orrustuþotu, HA-300.

 

Starfið hefst

Sumarið 1960 voru um 200 þýskir og austurrískir verkfræðingar að störfum í hergagnaiðnaði Nassers. Brandner og félagar hans í flugverkefninu héldu til í flugverksmiðjum nr. 36 og nr. 135 í Helwan – í um hálftíma ökufjarlægð frá Kaíró.

 

Og nú skorti ekki verkefnin. HA-300 hafði upphaflega verið hugsuð fyrir breskan hreyfil, Bristol Orpheus en Bretar vildu ekki selja Nasser slíka hreyfla. Það kom því í hlut þýskra og austurrískra verkfræðinga undir stjórn Brandners að smíða nýjan hreyfil frá grunni.

 

Samtímis unnu aðrir verkfræðingar að eldflaugasmíði í herverksmiðju nr. 333 í Heliopolis, úthverfi í Kaíró sem var skammt frá aðsetri Nassers.

Nasser langaði í eldflaugar sem gætu grandað erkióvini hans, Ísraelsríki. Markmið hans var að gera Egyptaland að herveldi.

Meðal forystumanna þess verkefnis voru Wolfgang Pilz og Eugen Sänger sem báðir höfðu sannað sig hjá Werner von Braun í Peenemünde.

 

Að stríðinu loknu urðu þeir fangar Frakka og Breta. Pilz varð þá drifkrafturinn í smíði frönsku Véronique-eldflaugarinnar sem var framþróun þýsku V2-eldflaugarinnar.

 

Kamil setti sig í samband við þessa tvo vísindamenn þar sem þeir störfuðu hjá Stuttgart-vísindastofnuninni, leiðandi kennslustofnun í þotuhreyflum og flugtækni. Í Egyptalandi fengu þeir það verkefni að þróa eldflaugar sem gætu hitt í mark af mikilli nákvæmni úr langri fjarlægð.

 

Messerschmitt sérhannaði orrustuflugvélar fyrir Nasser

Messerschmitt-vél til að styrkja loftherinn

Þýski flugverkfræðingurinn Willy Messerschmitt stóð að mörgum þekktustu orrustuvélum Þriðja ríkisins. 1960 reyndi hann að gera Egyptaland að herveldi með þotunni Helwan HA-300.

Straumlögun tryggði hraða

Mjóslegið byggingarlag gerði HA-300 kleift að rjúfa hljóðmúrinn og ná 1.593 km hraða (mach 1,3). Verkfræðingurinn Ferdinand Brandner vann að endurbættri gerð sem átti að ná mach 2,1 og komast jafnhratt og bandaríska samtímaþotan F-104 Starfighter.

Lítil þota með mikið flugþol

Vænghafið var 5,84 m og lengdin 12,4 m. HA-300 var ein smæsta þota allra tíma. Fullhlaðin eldsneyti vó HA-300 alls 6,5 tonn. Þrátt fyrir smæðina var flugþolið heilir 1.400 km.

Nýr hreyfill á teikniborðinu

HA-300 gat borið tvær 30 mm eða fjórar 23 mm vélbyssur. Áætlaða gerðin með þyngri byssunum hefði trúlega verið samkeppnisfær við bestu hljóðfráu þotur samtímans.

Messerschmitt-vél til að styrkja loftherinn

Þýski flugverkfræðingurinn Willy Messerschmitt stóð að mörgum þekktustu orrustuvélum Þriðja ríkisins. 1960 reyndi hann að gera Egyptaland að herveldi með þotunni Helwan HA-300.

Straumlögun tryggði hraða

Mjóslegið byggingarlag gerði HA-300 kleift að rjúfa hljóðmúrinn og ná 1.593 km hraða (mach 1,3). Verkfræðingurinn Ferdinand Brandner vann að endurbættri gerð sem átti að ná mach 2,1 og komast jafnhratt og bandaríska samtímaþotan F-104 Starfighter.

Lítil þota með mikið flugþol

Vænghafið var 5,84 m og lengdin 12,4 m. HA-300 var ein smæsta þota allra tíma. Fullhlaðin eldsneyti vó HA-300 alls 6,5 tonn. Þrátt fyrir smæðina var flugþolið heilir 1.400 km.

Nýr hreyfill á teikniborðinu

HA-300 gat borið tvær 30 mm eða fjórar 23 mm vélbyssur. Áætlaða gerðin með þyngri byssunum hefði trúlega verið samkeppnisfær við bestu hljóðfráu þotur samtímans.

Lúxuslíf hjá Nasser

Í þessu útlagasamfélagi urðu þegar mest var um 500 Þjóðverjar og Austurríkismenn. Margir þeirra tóku fjölskyldurnar með og ljóshærð börn urðu nokkuð algeng sjón á götunum í Kaíró.

 

Þessar fjölskyldur lifðu einkar þægilegu lífi sem fæstir Egyptar hefðu getað gert sér í hugarlund. Laun sérfræðinganna voru á nútímagengi um og yfir tvær milljónir á mánuði og þeir bjuggu ýmist í einbýlishúsum eða lúxusíbúðum.

 

Ennþá glæsilegri voru húsakynni hinna hæst settu. Brandner fékk til íbúðar heila hæð í nýbyggðu háhýsi í glæsilegu yfirstéttarhverfi á eyju úti í Níl. Núbískir þjónar sáu fyrir öllum þörfum fjölskyldunnar.

Ramsesbíllinn var í raun endurhannaður NSU Prinz – Vestur-þýskur bíll sem fyrst var kynntur á bílasýningu í Frankfurt í september 1957.

Egyptar ætluðu að iðnvæðast

Egyptar höfðu nógu lengi verið háðir innflutningi neysluvara frá Vesturlöndum að áliti nýja leiðtogans, Nassers forseta. Nú skyldu Egyptar framleiða vörur sínar sjálfir.

Þegar Gamal Abdel Nasser tók völdin 1952 var landbúnaður aðalatvinnuvegur Egypta og stórjarðeigendur voru voldugir. Margar vörur þurfti að flytja inn frá Vesturlöndum og nýi leiðtoginn hugðist breyta því. Hann hugðist reisa verksmiðjur og Egyptar áttu að verða sjálfum sér nógir um „allt frá saumnálum til eldflauga“ svo vitnað sé í slagorð hans.

 

Nasser aflaði fjármagns, m.a. með jarðnæðisumbótum sem takmörkuðu landareignir. Stórir jarðeigendur neyddust til að selja og leggja peningana í iðnaðinn.

 

Í nýrri verksmiðju skammt frá pýramídunum í Giza tóku Egyptar að framleiða fólksbíl sem fékk heitið Ramses eftir hinum nafntogaða faraó, Ramsesi 2.

 

 Í rauninni var þetta þýski bíllinn NSU Prinz framleiddur með þýsku leyfi. Af sparnaðarástæðum voru verkamenn látnir handsmíða botngrindina og bílarnir urðu því örlítið mismunandi.

 

Framleiðslunni var hætt þegar Egyptar fengu ítalskt framleiðsluleyfi fyrir Fiat. Iðnvæðingin stöðvaðist svo að mestu leyti eftir ósigurinn í sex daga stríðinu 1967.

Börn vísindamannanna gengu í sérstakan þýsk-evangelískan skóla og foreldrunum var algerlega frjálst að fylgja siðum heimalands síns og gátu t.d. fengið þýskt ljúfmeti sent með flugi. Brandner gat þannig leyft sér að halda mikla hátíð á Hilton hótelinu, þar sem bjórinn flaut í stríðum straumum.

 

Frítímanum gátu Evrópumennirnir varið á börum eða í klúbbum eða farið með fjölskyldur sínar í skoðunarferðir um þetta framandlega land.

 

Nasser réð sérfræðinga Hitlers

Verkfræðingar unnu í leyniverksmiðjum

Þróun hinna nýju og öflugu vopna Egypta fór fram með mikilli leynd í vel vöktuðum verksmiðjum. Að loknum vinnudegi lifðu þýsku og austurrísku verkfræðingarnir lúxuslífi í fínni borgarhverfum Kaíró og í virðulegum klúbbum.

Háþróuð tækni leyndist í verksmiðju

Í verksmiðju nr. 36 í Helwan unnu verkfræðingar að því að smíða skrokk og vængi orrustuþotunnar HA-300. Í þessari stóru verksmiðju voru um 360 iðnaðarvélar samsettar úr íhlutum sem fluttir voru inn frá Vesturlöndum.

Ný flugvél hönnuð frá grunni

Undir forystu Ferdinands Brandner unnu verkfræðingar að gerð nýs hreyfils í verksmiðju nr. 135 í Helwan. Meðal tækja voru sérstakur ofn og 2.000 tonna pressa sem gerði kleift að smíða hreyfilblöð úr stáli.

Eldflaugaverksmiðjan vel varin

Í úthverfinu Heliopolis þróuðu verkfræðingar eldflaugar fyrir egypska herinn í verksmiðju nr. 333. Svæðið var umgirt hárri gaddavírsgirðingu og vopnaðir hermenn þar á verði.

Lúxuslíf yfirmanna

Í glæsihverfinu Zamalek á Nílareyjunni Gezira bjuggu hæst settu þýsku og austurrísku verkfræðingarnir.

Vísindamennirnir nutu lífsins í hástéttarklúbbi

Gezira Sporting Club var vinsæll meðal Evrópubúanna. Upphaflega var þetta klúbbur breskra yfirmanna í hernum en eftir 1950 stundaði egypska yfirstéttin þennan stað. Meðlimir gátu m.a. spilað tennis, golf, skvass og krókett.

Verkfræðingar unnu í leyniverksmiðjum

Þróun hinna nýju og öflugu vopna Egypta fór fram með mikilli leynd í vel vöktuðum verksmiðjum. Að loknum vinnudegi lifðu þýsku og austurrísku verkfræðingarnir lúxuslífi í fínni borgarhverfum Kaíró og í virðulegum klúbbum.

Háþróuð tækni leyndist í verksmiðju

Í verksmiðju nr. 36 í Helwan unnu verkfræðingar að því að smíða skrokk og vængi orrustuþotunnar HA-300. Í þessari stóru verksmiðju voru um 360 iðnaðarvélar samsettar úr íhlutum sem fluttir voru inn frá Vesturlöndum.

Ný flugvél hönnuð frá grunni

Undir forystu Ferdinands Brandner unnu verkfræðingar að gerð nýs hreyfils í verksmiðju nr. 135 í Helwan. Meðal tækja voru sérstakur ofn og 2.000 tonna pressa sem gerði kleift að smíða hreyfilblöð úr stáli.

Eldflaugaverksmiðjan vel varin

Í úthverfinu Heliopolis þróuðu verkfræðingar eldflaugar fyrir egypska herinn í verksmiðju nr. 333. Svæðið var umgirt hárri gaddavírsgirðingu og vopnaðir hermenn þar á verði.

Lúxuslíf yfirmanna

Í glæsihverfinu Zamalek á Nílareyjunni Gezira bjuggu hæst settu þýsku og austurrísku verkfræðingarnir.

Kaíró

Vísindamennirnir nutu lífsins í hástéttarklúbbi

Gezira Sporting Club var vinsæll meðal Evrópubúanna. Upphaflega var þetta klúbbur breskra yfirmanna í hernum en eftir 1950 stundaði egypska yfirstéttin þennan stað. Meðlimir gátu m.a. spilað tennis, golf, skvass og krókett.

Ísraelar urðu á undan

Eftir fyrsta árið fór Nasser að verða óþolinmóður og vildi sjá árangur. Honum varð ekki rórra að morgni 6. júlí 1961 þegar Ísraelar prófuðu eldflaugina „Shavit 2“.

 

Shavit er hebreska orðið yfir halastjörnu en þessi eldflaug var ekki tiltakanlega fullkomin. Þótt heitið benti til annars, var þetta líka fyrsta útgáfa. Talan 2 átti einfaldlega að taka Egypta á taugum og það gekk upp.

 

Nasser mun hafa verið í æstu skapi þegar hann kallaði einn af leiðtogum eldflaugaverkefnisins, Eugen Sänger á sinn fund og þeir horfðu saman á myndirnar af þessari ísraelsku uppfinningu. Sänger sagði Nasser að eftir því sem hann best fengi séð, væri þessi eldflaug ónothæf í hernaði.

 

Áhyggjur Nassers stöfuðu þó ekki aðeins af eldflaugaskotinu. Hann gerði ráð fyrir að hún væri til marks um að ísraelska leyniþjónustan, Mossad, hefði fengið upplýsingar um áform Egypta.

 

Hugboð hans var á rökum reist. Þótt Ísraelsmenn þekktu ekki til flugvéla- og eldflaugasmíði Egypta í smáatriðum, vissi Mossad að eitthvað var í gerjun og að þýskir og austurrískir vísindamenn voru þátttakendur.

 

Ríkisstjórnin í Ísrael tók líka að þrýsta á stjórnvöld í Vestur-Þýskalandi um að kalla Þjóðverjana heim.

 

Munu ekki sitja þegjandi hjá

Enn hafði ekki verið komið á stjórnmálasambandi milli ríkjanna, þannig að tilmæli Ísraelsmanna komu úr ræðustól Knesset, ísraelska þingsins.

 

„Eftirlifendur úr útrýmingarbúðum Þjóðverja munu ekki sitja þegjandi hjá, þegar þýskir nýnasistar í þjónustu egypska einræðisherrans undirbúa eyðileggingu Ísraels,“ sagði atvinnuráðherrann Yigal Allon.

 

Golda Meir utanríkisráðherra hvatti Vestur-Þjóðverja til að setja sérlög til að skipa þýsku sérfræðingunum að snúa heim.

 

Stjórnin í Bonn fór sér hægt til að byrja með en stríðsglæpir Hitlers og nasistanna grúfðu eins og svart þrumuský yfir hinu unga Ísraelsríki. Eftir ráðherrafund 1961 tilkynntu stjórnvöld þeim Þjóðverjum sem tengdust Stuttgart-stofnuninni að þeir væru ekki lengur velkomnir á sinn gamla vinnustað.

 

Stjórnvöldum hafði vissulega verið fullkunnugt um flutninga vísindamannanna til Egyptalands en í yfirlýsingunni sagði engu að síður „… samvinna við Egypta er óráðþæg, pólitískt óskynsamleg og brýtur gegn heilbrigðri skynsemi.“

 

Þessi tilmæli urðu til þess að Eugen Sänden yfirgaf Egyptaland án tafar. Hann lét þó ekki hjá líða að skýra frá ástæðu Egyptalandsdvalar sinnar í viðtali við breska blaðið The Times:

 

„Mér og félögum mínum var algerlega ókleift að stunda nokkrar eldflaugarannsóknir í Vestur-Þýskalandi.“

 

Einmitt af þeirri ástæðu ákváðu margir Þjóðverjanna að kæra sig kollótta og vera áfram í þjónustu Nassers.

 

Vel heppnað eldflaugarskot

Þann 21. júlí 1962 risu fyrstu egypsku eldflaugarnar – fjórar alls – til himins fyrir augum forviða erlendra blaðamanna í uppþornaða farveginum Wadi Natrun.

 

„Egyptaland hefur nú stigið inn í eldflaugaöldina og tekur sér þar með stöðu meðal hinna fremstu á sviði eldflaugatækni,“ tilkynnti þulur egypska ríkisútvarpsins skömmu eftir atburðinn.

 

Tveimur dögum seinna voru eldflaugarnar Al Kahir (Sigurvegarinn) og Al Safir (Sigurherrann) fluttar um Kaíróborg í viðamikilli hersýningu í tilefni af 10 ára valdaafmæli forsetans.

Árið 1962 voru nýbyggðar eldflaugar til sýnis á hersýningu í Kaíró. Sýningin olli Ísraelsmönnum skelfingu.

Þessi eldflaugasýning vakti mikinn ugg í Ísrael. Hjá Mossad vissu menn auðvitað hvað þýsku og austurrísku verkfræðingarnir voru að bauka en það hafði ekki hvarflað að nokkrum manni að eldflaugarnar væru komnar lengra en á teikniborðið.

 

Nasser gerði ekki neitt til að róa Ísraelsmenn.

Eldflaugasýningin árið 1962 var bein ógn við tilveru landsins að mati Ísraelsmanna.

Þegar blaðamaður spurði hann hve langt eldflaugarnar næðu, svaraði hann hiklaust að drægnin væri 400 km og eldflaugarnar kæmust þannig að öllu „fyrir sunnan Beirút.“ Með öðrum orðum: Að öllu Ísraelsríki.

 

Í öðru viðtali var Nasser jafnvel enn beinskeyttari:

 

„Ég vil að allur heimurinn geri sér ljóst að við munum ekki leyfa að Palestína sé í höndum Ísraelsmanna.“

 

Aðgerðir Mossad

Innan við mánuði síðar gekk yfirmaður Mossad, Isser Harel, á fund forsætisráðherrans og sýndi honum skjal, ættað frá egypskum stjórnvöldum. Mossad fékk það í hendur frá samstarfsmönnum Kamils í Sviss og á skjalinu var listi yfir birgðir sem Kamil átti að skaffa og áttu að duga í 900 eldflaugar.

 

Hjá Mossad töldu menn aðeins eina leið færa. Það þurfti að stöðva Nasser. „Aðgerð Damokles“ var hrundið af stað.

 

Meðal skaðminnstu úrræða leyniþjónustunnar var að senda nafnlaus hótunarbréf til fjölskyldna sérfræðinganna. Eiginkonur voru hvattar til að sannfæra eiginmenn sína um að snúa heim, annars …

 

Aðrir sluppu ekki með bréf.

„Verkefnið var einstætt og verður það um alla framtíð. Annað slíkt er ekki til.“
Ferdinand Brandner um starf sitt fyrir Nasser.

Þann 7. júlí 1962 hafði Kamil forstjóri tekið á leigu einkaflugvél til að flytja sjálfan sig og konu sína, Helenu hertogaynju, heim úr sumarfríi á þýsku eyjunni Sild í Norðursjó. Á síðustu stundu þurfti hann sjálfur að fresta heimförinni og hertogaynjan fór ein. Flugvélin hrapaði og hertogaynjan fórst. Aldrei hefur verið upplýst hvort þetta var slys eða kannski skipulagt af Mossad.

 

Hvarf Heinz Krugs er líka afar dularfullt. Verkefni hans var að útvega þau hráefni sem þurfti til eldflaugaframleiðslunnar. Þann 11. september 1962 var hann kallaður á fund í München og hefur síðan ekki sést.

 

Í lok nóvember 1962 barst verksmiðjunum í Helwan pakki sem sendur var frá Þýskalandi. Þegar pakkinn var opnaður sprakk hann og fimm egypskir verkamenn létu lífið.

 

Þann 20. febrúar 1963 var skotið á eldflaugaverkfræðinginn Hans Kleinwächter þar sem hann sat í bíl sínum í Lörach í Vestur-Þýskalandi. Miðið var nákvæmt og fór í gegnum framrúðuna og í háls Kleinwächers. Hann slapp þó óskaddaður því rúðan hægði mjög á kúlunni og hún stöðvaðist í þykkum ullartrefli sem hann hafði um hálsinn.

 

Ásakanir um gyðingahatur

Skömmu síðar gerði Mossad mistök. Þann 2. mars 1963 mæltu tveir Mossad-liðar sér mót við Heidi Goercke, 25 ára og 21 árs bróður hennar á hóteli í Basel. Þeir útskýrðu fyrir systkinunum að ekki einungis faðir þeirra, eldflaugasérfræðingurinn Paul Goercke, væri í lífshættu, heldur gilti það um alla fjölskylduna ef hann yfirgæfi ekki Egyptaland án tafar.

 

Ísraelsmennirnir vissu ekki að svissneska lögreglan hafði í langan tíma rannsakað tilræði Mossad. Lögreglan fylgdist með samtalinu á hótelinu og Mossad-fulltrúarnir voru handteknir og ákærðir fyrir hótanirnar. Málið kom fyrir rétt í Sviss þremur mánuðum síðar og afhjúpun starfsaðferða Mossad vakti óhug á Vesturlöndum.

 

Sú andúð náði þó aldrei að rísa hátt. Kalda stríðið gerði það nú að verkum að Bandaríkjamenn litu á Ísrael sem helstu bandalagsþjóð sína í Mið-Austurlöndum og þegar Ísrael lét jafnframt í það skína að sérfræðingar Nassers hefðu ekki einungis ánægju af störfum sínum, heldur sæju jafnframt sérstakan tilgang í því að þróa vopn til að útrýma ríki gyðinga, tók samúðin á Vesturlöndum að snúast þeim í hag.

 

Og þegar reiði alþjóðasamfélagsins beindist nú að þýsku og austurrísku vísindamönnunum, tóku þeir – ekki síst vegna ótta um líf sitt – að tínast burt frá Egyptalandi. Í árslok 1963 voru þeir flestir farnir.

Í sex daga stríðinu – þegar Ísraelar lögðu undir sig Sínaískaga – voru flestar orrustuvélar Egypta eyðilagðar áður en þær komust á loft.

Egyptar keyptu mikið af Sovétmönnum

Þegar þýsku og austurrísku verkfræðingarnir fóru heim var fótunum kippt undan egypska flughernum. Lausnin fólst að lokum í stórinnkaupum frá Sovétríkjunum, keppinauti Vesturlanda.

 

Egypska orrustuþotan HA-300 var enn á tilraunastigi þegar þýsku verkfræðingarnir yfirgáfu Egyptaland 1963. Áframhaldandi þróun hefði verið bæði erfið og dýr og þrautalendingin varð sú að hefja stórinnkaup frá Sovétríkjunum.

 

Keyptar voru m.a. fjölmargar hljóðfráar orrustuþotur af gerðinni MiG-21 og sprengjuvélar sem gátu borið eldflaugar til að skjóta á skotmörk á jörðu niðri.

 

Þessar nýju flugvélar juku hernaðarmátt Egypta verulega en komu ekki að haldi, því Ísrael hóf fyrirvaralausar árásir að morgni 5. júní 1967.

 

Með loftárásum tókst Ísraelsmönnum að eyðileggja nær allar þessar vélar áður en þær komust á loft. Stríðið stóð í sex daga og lauk með miklum ósigri Egypta.

 

Þróun HA-300 þotunnar var þó ekki formlega hætt fyrr en 1969 og 10 árum síðar sömdu Egyptar frið við Ísraelsmenn. Eftir það gátu þeir keypt bandarískar flugvélar og voru ekki lengur háðir Sovétmönnum.

Þetta voru endalokin á eldflaugaáætlun Nassers. Smíði orrustuþotunnar neyddust Egyptar líka til að gefa upp á bátinn. Einungis þrjú eintök af HA-300 vél Messerschmitts og Brandners voru fullgerð, þegar verkefninu var endanlega hætt 1969.

 

Nasser átti nú ekki annarra kosta völ en að kaupa vopn af Sovétmönnum og draumur hans um að verða óháður stórveldunum rættist því aldrei.

 

Brandner hélt út allt til enda. Það var ekki fyrr en í ágúst 1969 sem hann kvaddi núbísku þjónana og steig um borð í skipið Syria sem flutti hann til Evrópu.

 

Brandner gaf út æviminningar sínar 1973 og dró ekki dul á biturð sína yfir að hafa þurft að gefa upp á bátinn „verkefni sem við höfðum byggt upp af öllum kröftum. Verkefnið var einstætt og verður það um alla framtíð. Annað slíkt er ekki til.“

 

Eftirmáli: 2018 stigu fram tveir Mossad-liðar á eftirlaunum og lýstu því í þýsku sjónvarpi að þeir hefðu átt þátt í því að ræna innkaupastjóra eldflaugaverkefnisins, Heinz Krug, í München og flytja hann til Marseilles. Hann var deyfður og fluttur um borð í skip sem flutti hann til Ísraels. Þar var hann yfirheyrður og pyntaður mánuðum saman, áður en hann var tekinn af lífi og líkinu sökkt í Miðjarðarhaf, sögðu Mossad-liðarnir.

 

Börn Krugs hafa krafið Ísraelsríki um skýringar. Mossad-liðarnir kölluðu aftökuna „smánarlega“.

Ítarefni fyrir áhugasama

Roger Howard: Operation Damocles: Israel’s Secret War Against Hitler’s Scientists 1951-1967, Lume Books, 2021.

 

Ferdinand Brandner: Ein Leben Zwischen Fronten, Verlag Welsermühl, 1973

HÖFUNDUR: ELSE CHRISTENSEN , ANDREAS ABILDGAARD

Lifandi Saga

Dans indíána orsakaði blóðbaðið við Wounded Knee

Heilsa

Rannsókn: Tæp skeiðfylli af þessari fitutegund daglega dregur úr hættu á heilabilun

Heilsa

Rannsókn: Tæp skeiðfylli af þessari fitutegund daglega dregur úr hættu á heilabilun

Maðurinn

Er hollt að gefa blóð?

Maðurinn

Er hollt að gefa blóð?

Maðurinn

Úmamí – fimmta frumbragðtegundin

Maðurinn

Eru fingraför óhjákvæmilega ólík?

Maðurinn

Frestar þú leiðinlegum verkefnum? Samkvæmt vísindamönnum er það slæm hugmynd

NÝJASTA NÝTT

Tækni

Bílar svífa á methraða eftir nýrri grænni hraðbraut

Lifandi Saga

10 slæmar hugmyndir: Enginn þorði að mæla gegn einræðisherrunum

Heilsa

Vísindamenn hafa svarið: Hvers vegna eiga sumir auðvelt með að þyngjast?

Lifandi Saga

Nasismi skýtur rótum í BNA: Flughrap afhjúpar spilltan þingmann

Lifandi Saga

Hvers vegna var kókaín í Coke?

Náttúran

Vísindamenn leiða í ljós: Hundar geta orðið afbrýðisamir

Heilsa

Þessi tegund þjálfunar getur dregið úr hættu á snemmbúnum dauðdaga um allt að 20%

Tækni

Ferðin að botni hafsins

Lifandi Saga

Hvernig urðu Hamas samtökin til?

Læknisfræði

Hvers vegna fáum við ofnæmi?

Tækni

Bílar svífa á methraða eftir nýrri grænni hraðbraut

Lifandi Saga

10 slæmar hugmyndir: Enginn þorði að mæla gegn einræðisherrunum

Heilsa

Vísindamenn hafa svarið: Hvers vegna eiga sumir auðvelt með að þyngjast?

Lifandi Saga

Nasismi skýtur rótum í BNA: Flughrap afhjúpar spilltan þingmann

Lifandi Saga

Hvers vegna var kókaín í Coke?

Náttúran

Vísindamenn leiða í ljós: Hundar geta orðið afbrýðisamir

Heilsa

Þessi tegund þjálfunar getur dregið úr hættu á snemmbúnum dauðdaga um allt að 20%

Tækni

Ferðin að botni hafsins

Lifandi Saga

Hvernig urðu Hamas samtökin til?

Læknisfræði

Hvers vegna fáum við ofnæmi?

Fáðu aðgang að vÍSINDI.IS

Ókeypis í 2 vikur!

 

Eftir það kostar eingöngu 1.390 kr. á mánuði og enginn uppsagnarfrestur.

 

Innifalið er aðgangur að öllum greinum á vefnum ásamt rafræna útgáfu af nýjustu tölublöðunum.

 • Fullur aðgangur að visindi.is
 • Frábærar myndir og myndbönd
 • Aðgengilegt í öllum snjalltækjum
 • Fullur aðgangur að gríðarlegu magni eldri greina
 • Nýjustu tölublöðin í rafrænu formi

Maðurinn

Ný rannsókn: Áhrif framhjálds á konur koma á óvart

Maðurinn

Ný rannsókn: Áhrif framhjálds á konur koma á óvart

Maðurinn

Hve lengi hefur krabbamein hrjáð mannkynið?

Maðurinn

Hve lengi hefur krabbamein hrjáð mannkynið?

Maðurinn

Við getum lifað án heilastofns

Náttúran

Vísindamenn kortleggja nú heimshöfin

Heilsa

41 næringarríkustu fæðutegundir jarðar

Menning og saga

Leynirými í 4.400 ára gömlum egypskum pýramída

Vinsælast

1

Náttúran

Vísindamenn leiða í ljós: Hundar geta orðið afbrýðisamir

2

Heilsa

Þessi tegund þjálfunar getur dregið úr hættu á snemmbúnum dauðdaga um allt að 20%

3

Læknisfræði

Hvers vegna fáum við ofnæmi?

4

Tækni

Ferðin að botni hafsins

5

Maðurinn

Lamaður maður gengur fyrir eigin hugarafli

6

Lifandi Saga

Hvers vegna var kókaín í Coke?

1

Náttúran

Vísindamenn leiða í ljós: Hundar geta orðið afbrýðisamir

2

Heilsa

Þessi tegund þjálfunar getur dregið úr hættu á snemmbúnum dauðdaga um allt að 20%

3

Tækni

Ferðin að botni hafsins

4

Lifandi Saga

Hvers vegna var kókaín í Coke?

5

Heilsa

Vísindamenn hafa svarið: Hvers vegna eiga sumir auðvelt með að þyngjast?

6

Lifandi Saga

Hvernig urðu Hamas samtökin til?

Lifandi Saga

Belgía biður Kongó afsökunar – með tönn

Lifandi Saga

Af hvaða kynstofni var Kleópatra?

Lifandi Saga

Kitty var Kim Kardashian 18. aldar

Heilsa

Bakteríurnar þrífast vel í handklæðinu þínu

Alheimurinn

Hvað er andefni?

Maðurinn

Þess vegna tekur ástarsorg svona mikið á okkur

Maðurinn

Heilann þyrstir í fitu

Maðurinn

Er það skaðlegt að plokka nefhárin?

Lifandi Saga

Hve lengi höfum við fengið sumarfrí?

Jörðin

Vísindamenn greina vaxtarverki: Fæðuhringur eldfjallsins

Maðurinn

Ást er eintóm efnafræði

Náttúran

Hjarta steypireyðar slær bara tvisvar á mínútu

Bílar svífa á methraða eftir nýrri grænni hraðbraut

Vísindamenn hyggjast byggja nýja hraðbraut sem getur fengið bíla til að svífa af stað á allt að 1.000 km/klst. – og á sama tíma flytja loftslagsvænt vetni og rafmagn fyrir grænt orkunet framtíðar. Tæknin er þegar til staðar.

Tækni

ÁSKRIFT AÐ VÍSINDI.IS

Prófaðu í 14 daga ókeypis!

 • Fullur aðgangur að vefnum okkar með tæplega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
 • Lifandi vísindi/Lifandi saga í rafrænni útgáfu á vefnum,
 • Aðeins 1.690 krónur á mánuði.
 • Engin skuldbinding – Þú getur hætt hvenær sem er.

ÁSKRIFT AÐ TÍMARITINU

Þrjú tölublöð + gjöf: Skemmtilegur sjónauki
 • Þrjú næstu tölublöð Lifandi vísinda/Lifandi sögu – sent heim til þín – eins færðu lítinn og vandaðan sjónauka að gjöf.
 • Fullur aðgangur að vefnum okkar – visindi.is – með tæplega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
 • Spennandi greinar og flottar myndir sem svala forvitni þinni.
 • Þú getur hætt eftir tilboðið en ef þú heldur áfram skuldbindur þú þig aðeins þrjú tölublöð í einu og þú getur sagt upp hvenær sem sem og klárar þá tímabilið sem er hafið.
 • Venjuleg áskrift – þrjú tölublöð – kostar aðeins 7.590 kr

Sjónauki og þriggja blaða áskrift – Alls 3.800 kr.

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Search

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Viltu lesa greinina?

Fáðu aðgang að visindi.is

Ókeypis í 2 vikur!

Eftir það kostar eingöngu 1.390 kr. á mánuði og enginn uppsagnarfrestur.

Innifalið er aðgangur að öllum greinum á vefnum ásamt rafræna útgáfu af nýjustu tölublöðunum.

 • Fullur aðgangur að visindi.is
 • Frábærar myndir og myndbönd
 • Aðgengilegt í öllum snjalltækjum
 • Fullur aðgangur að gríðarlegu magni eldri greina
 • Nýjustu tölublöðin í rafrænu formi

Núverandi áskrifendur að tímaritinu fá að sjálfsögðu ókeypis aðgang að vefnum og þurfa bara að virkja aðgang sinn hér.

Ef þú ert þegar áskrifandi að visindi.is