Tækni

Við smitumst af …

Örverur og sníkjudýr hafa á síðustu árum reynst valda fjölmörgum sjúkdómum sem áður voru taldir stafa af óhollum lifnaðarháttum eða erfðagöllum. Þetta þýðir að við þurfum að vera á varðbergi gagnvart smiti, en uppgötvunin veitir jafnframt margvíslega möguleika til mun áhrifaríkari læknismeðferðar.

BIRT: 04/11/2014

Taktu þér langt og gott frí, eða dragðu úr áfengisneyslunni. Þess háttar ráðgjöf fengu magasárssjúklingar hjá læknum sínum fyrir aðeins fáeinum áratugum. Þá var talið að magasár stafaði af aukinni framleiðslu magasýru í tengslum við streitu, eða þá að áfengisneysla og sterkkryddaður matur hefðu tærandi áhrif á magavegginn. Nú er vitað að magasár stafar oftast af bakteríusýkingu.

 

Annar sjúkdómur sem öllum að óvörum hefur reynst vera smitandi, er leghálskrabbi, sem stafar af veirusýkingu. Þessar uppgötvanir hafa opnað augu vísindamanna fyrir því að margir fleiri sjúkdómar kynnu að stafa af sýkingu og fyrir bragið stendur nú yfir umfangsmikil leit að mögulegum sökudólgum meðal örvera og þegar eru fundin dæmi um sjúkdóma sem bakteríur, veirur eða sníkjudýr gætu mögulega valdið a.m.k. að hluta, en hafa fram að þessu verið óútskýrðir.

 

Frá sjónarhóli lækna getur það verið mikill áfangasigur ef í ljós kemur að sýking sé í raun orsakavaldur tiltekins sjúkdóms. Þá hefur nefnilega loksins tekist að benda á ákveðinn sökudólg og um leið er unnt að beina öllum lækningatilraunum að því að ráða niðurlögum hans. Þetta hefur þegar leitt af sér nýjar og áhrifaríkar lækningaaðferðir. Nú er t.d. í flestum tilvikum unnt að lækna magasár að fullu með sýklalyfjum.
Þegar í ljós kemur að sjúkdómur stafar af sýkingu, getur það jafnframt þýtt að hann sé smitandi. Þetta hljómar kannski ekki sérlega vel, en í rauninni veitir þessi þekking okkur þó betri möguleika til að verjast sjúkdómnum. Þá vitum við nefnilega af hverju hættan stafar og með dálítilli umhugsun og kannski breyttum venjum getum við komist hjá smithættu.

 

Magasár [Staðfest]

Læknir sektaður fyrir notkun sýklalyfja

 

Árið 1958 tókst gríska lækninum John Lykoudis að lækna sjálfan sig af magasári með sýklalyfjum. Þótt hann áttaði sig ekki á hvernig meðferðin hefði áhrif fékk hann einkaleyfi á aðferðinni og notaði hana á sjúklinga hundruðum saman. Honum tókst hins vegar aldrei að vekja áhuga annarra lækna á þessari nýju meðferð. Þvert á móti var hann sektaður af grískum yfirvöldum fyrir að beita óviðurkenndum aðferðum. Á þessum tíma var nefnilega almennt álitið að magasár stafaði af aukinni framleiðslu magasýru í tengslum við streitu. Meðferðin fólst í því að skera burtu þann hluta magans þar sem sárið var.

 

Það var ekki fyrr en 1982 sem tveir ástralskir vísindamenn, Robin Warren og Barry Marshall fengu áhuga á tengslum bakteríusýkinga og magasárs. Fáeinum árum síðar var unnt að benda á bakteríuna Heliobacter pylori sem sökudólg. Bakterían er löng og spíralsnúin. Hún hefur 4-7 sveifluþræði sem hún notar til að ná djúpt inn í slímhimnu í maga- eða ristilvegg og hér setjast bakteríurnar að og mynda stóra hópa. Til að lifa af í þessu súra umhverfi gefa bakteríurnar frá sér ensímið urease, sem eftir röð efnaferla leiðir til myndunar bíkarbónats. Bíkarbónat er basískt efni sem vinnur gegn magasýrunni þannig að pH-gildið hækkar og um leið batna lífsskilyrði bakteríunnar. Smám saman brjóta bakteríurnar niður slímið í slímhimnunni og éta það upp, á þeim stað þar sem þær komu sér fyrir í upphafi. Þá flytja þær sig áfram og skilja magavegginn eftir algerlega óvarinn með þeim afleiðingum að magasýrur og meltingarensím brjóta hann niður.

 

Á Vesturlöndum er nú áætlað að um 20% af tvítugum og 80% af áttræðum séu með Heliobacter pylori, en í þróunarríkjunum er smithlutfallið mun hærra. Til allrar lukku leiðir tilvist bakteríunnar ekki undantekningarlaust af sér magasár, en hún telst þó sökudólgurinn í um 80% allra tilvika. Þessi vitneskja hefur gerbylt meðhöndlun sjúkdómsins og í langflestum tilvikum má nú græða magasár með blöndu sýklalyfja og sýrulækkandi lyfja.

 

Brjóstakrabbi [Hugsanlegt]

Músaveira veldur 40% brjóstakrabbatilvika

 

 

Veira sem veldur krabbameini í mjólkurkirtlum músa, kynni einnig í mörgum tilvikum að eiga sök á brjóstakrabba í konum. Árið 2007 sýndi Brian Salmons, hjá fyrirtækinu Austrianova Biotechnology, fram á að veiran MMTV (mouse mammary tumor-virus eða músamjólkurkirtla-æxlisveira) gæti sýkt frumur úr brjóstakirtlum kvenna við ræktun á rannsóknastofu. Þegar árið 1995 komst Beatriz Pogo, hjá Mount Sinai-læknaskólanum í New York, að því að í 39% æxla í 300 konum með brjóstakrabba, var að finna ákveðið gen úr MMTV-veirunni.

 

Öfugt við mýs, berst MMTV-veiran ekki frá móður til barns með brjóstamjólkinni. Þess í stað telja menn að smitið berist í menn úr sýktum músum. Þessa kenningu styðja niðurstöður sem Thomas Stewart við Ottawaháskóla náði árið 2000 þegar hann bar saman tíðni brjóstakrabba og músa. Rannsóknin sýndi að brjóstakrabbi er mun algengari í löndum þar sem húsamúsin er algengasta músategundin, en það er einmitt húsamúsin sem helst sýkist af MMTV. Nýjar rannsóknir benda til að MMTV-sýking skipti máli í um 40% brjóstakrabbatilvika á Vesturlöndum.

 

Offita [Líklegt]

Veirur og bakteríur fita grannar mýs

 

 

Hvers vegna virðist sumt fólk geta borðað eins mikið og það lystir án þess að fitna, en aðrir þurfa í sífellu að hugsa um vigtina? Indverskfæddi læknirinn Nikhil Dhurandhar kann að hafa afhjúpað hluta svarsins árið 2001 þegar hann birti niðurstöður sem benda til að offita geti stafað af veirusýkingu og þar með hugsanlega verið smitandi sjúkdómur.

 

Í dýratilraunum sýndi Dhurandhar fram á að adenoveira-36 dreifir sér hratt með blóði og hrannast upp í fituvefjum þar sem hún veldur hraðri fjölgun fitufruma. Smitunartilraunir á músum og hænsnum sýndu að veiran getur auðveldlega smitað offitu úr einu dýri í allan hópinn. Rannsóknin sýndi líka að í mannheimum er þriðji hver of feitur einstaklingur smitaður af veirunni.

 

Bakteríur eru líka grunaðar um að valda offitu. Þær gegna mikilvægu hlutverki í meltingarfærunum þar sem þær hjálpa til við að brjóta niður efni í fæðunni, þannig að líkaminn nái að taka hana til sín. Í tveimur rannsóknum árið 2006, sýndi Jeffrey Gordon hjá Washingtonháskóla fram á að bakteríuflóran í þörmum bæði manna og músa er öðruvísi hjá feitum einstaklingum en grönnum. Og sé bakteríuflóran úr feitri mús flutt í grannvaxna mús, verður hún feit. Nytsamlegum bakteríum í þörmum manna má skipta í tvo hópa. Of þungir eru með hlutfallslega mikið af svonefndum Firmicutes-bakteríum, en grannvaxið fólk hefur hlutfallslega meira úr hinum hópnum, Bacteriodetes. Horfurnar eru bjartar, þar eð bóluefni kynni að geta komið í veg fyrir offitu og sýkla- eða veirulyf gætu auðveldað fólki að léttast.

 

Leghálskrabbamein [Staðfest]

Ekklar smituðu nýju konuna

 

 

Strax fyrir 100 árum tóku læknar eftir því að leghálskrabbi var mun algengari hjá vændiskonum en nunnum. Þeir sáu líka að giftar konur voru í meiri hættu ef fyrri kona eiginmannsins hafði dáið úr leghálskrabba. Þetta benti til að hér væri á ferðinni sjúkdómur sem smitaðist við kynmök og á 9. áratugnum tókst að sanna sök á veiruna HPV (human papilloma-virus, eða mennsk papilloma-veira). Þessi veira veldur næstum öllum leghálskrabbameinstilvikum, eða 99%. Veiran er útbreidd og smitast við kynlíf.

 

HPV ræðst á frumur í slímhúð í leghálsinum og kemur þeim til að fjölga sér hraðar. Þannig myndast óþægilegar en hættulausar vörtur. Og í einstaka tilvikum getur veiran breytt frumunum í krabbafrumur. Lyfjafyrirtækin Merck og GlaxoSmithKline fengu 2006 og 2007 viðurkenningu hvort fyrir sitt bóluefnið og síðan hafa milljónir ungra kvenna verið bólusettar. Tilraunir hafa sýnt að bólusetning dregur úr hættu á leghálskrabba um allt að 90%. Til að ná að hafa fullkomin áhrif þarf þó að bólusetja stúlkur áður en þær byrja að hafa kynmök.

 

Í allmörgum löndum er nú byrjað að bólusetja stúlkur gegn leghálskrabbameini, en hérlendis er slík bólusetning þó ekki hafin.

 

Sykursýki [Líklegt]

Sykursjúkir hafa mótefni gegn veiru

 

 

Sykursýki 1 er ónæmissjúkdómur og veldur því að ónæmiskerfi líkamans lítur á betafrumur briskirtilsins sem aðskotahluti og ræðst gegn þeim. Þessar frumur framleiða insúlín og brisið missir því getu sína til að framleiða þetta nauðsynlega efni. Þar með fer blóðsykurmagnið úr skorðum og sjúklingurinn þarf að fá insúlín utan frá. Árum saman hafa menn reynt að finna orsakir þess að ónæmiskerfið skuli þannig ráðast á eigin frumur líkamans og á síðustu árum hafa vísindamenn tekið að beina grunsemdum að svonefndri Coxsackie B4-veiru. Mótefni gegn þessari veiru er nefnilega að finna í blóði nánast allra sykurssýkisjúklinga og það bendir til að þeir séu, eða hafi verið, sýktir af veirunni.

 

Þegar ónæmiskerfið hefur á annað borð verið „rangt forritað“ er of seint að reyna að berjast gegn veirunni. Meðferð gegn Coxsackie B4-veiru þyrfti að hefjast áður en sjúkdómurinn nær að skjóta rótum. Hjá lyfjafyrirtækinu Novartis rannsaka vísindamenn nú sambandið milli Coxsackie B4-veirunnar og sykursýki 1 og gera sér vonir um að geta þróað bóluefni fyrir börn sem eiga á hættu að fá sykursýki. Þannig kynni í framtíðinni að vera hægt að koma í veg fyrir að sjúkdómurinn skjóti rótum.

 

Skítsófrenía [Hugsanlegt]

Sníkjudýrið treður sér inn í heila fórnarlambsins

 

 

Skítsófrenía er geðsjúkdómur sem leggst á um 1% fólks og veldur ofskynjunum og ranghugmyndum.

 

Sjúkdómurinn er oft nefndur geðklofi á íslensku, en það heiti er villandi. Vísindamenn vita ekki hvað veldur því að einkennin birtast. Erfðir skipta miklu máli að því leyti að fólk er mismunandi móttækilegt fyrir sjúkdómnum, en hann leysist úr læðingi vegna áhrifa frá umhverfinu, t.d. mikils álags eða andlegs áfalls. Á hinn bóginn hafa menn tekið eftir samhengi milli skítsófreníu, fæðingarstaðar og fæðingartíma á árinu og þetta hefur vakið upp spurningar hvort sýking gæti verið orsakavaldur. Einkum liggur sníkjudýrið Toxoplasma gondii undir grun, en þetta sníkjudýr á sér flókna lífshringrás í köttum. Komist menn eða dýr í snertingu við kattasaur leiðir það af sér smithættu og þá mögulega sjúkdóminn toxoplasmosis. Sjúkdómurinn hefur áhrif á heilann og þar með atferlið. Sýktar mýs geta t.d. laðast að kattalykt og eiga þá á hættu að týna lífinu. Um leið finnur sníkjudýrið sér leið til baka í uppáhaldshýsil sinn.

 

Hjá mönnum hefur sjúkdómurinn toxoplasmosis einnig verið settur í samhengi við geðkvilla og sjúkdóma, svo sem þunglyndi, kvíða og skítsófreníu. Allmargar rannsóknir hafa staðfest samband milli þessara sjúkdóma og mótefna gegn Toxoplasma gondii í blóði sjúklingsins. Rannsókn við Kocaeli-háskóla í Tyrklandi 2008 leiddi í ljós að mótefnið var að finna í blóði 40% skítsófreníusjúklinga en aðeins 14% heilbrigðs samanburðarhóps. Annað óbeint samhengi milli sníkjudýrsins og sjúkdómsins er sú staðreynd að geðlyf, t.d. haloperidol, sem eru notuð til að meðhöndla sjúkdóminn, hamla beinlínis gegn viðgangi Toxoplasma gondii.

 

Áhrif sníkjudýrsins á heilastarfsemina í mönnum stafa trúlega af því að það hefur áhrif á lífefnafræðilega hringrás boðefnisins dópamíns í heilanum. Árið 2009 sannaði Glenn A. McConkey hjá Leedsháskóla að í erfðaefni sníkjudýrsins eru tvö gen sem geta örvað dópamínframleiðslu. Taugakerfi sníkjudýrsins virkar ekki á sama hátt og í æðri dýrum og það hefur því að líkindum ekki sjálft þörf fyrir dópamín. Það bendir til að sníkillinn noti dópamín einvörðungu til að hafa áhrif á fórnarlamb sitt.

 
 

Náttúran

Bakteríur örva ilminn af sumarregni

Alheimurinn

NASA uppgötvar dularfullan hlut sem er 27.000 sinnum stærri en jörðin – hreyfist á 1,6 milljón km/klst.

Maðurinn

Lyktin afhjúpar öll þín leyndarmál: Lyktin er hið nýja fingrafar

Tækni

Líkami þinn er orkuver

Jörðin

Myndast skýstrókar í Norður-Evrópu?

Lifandi Saga

Hver var fyrsti þekkti guðinn?

Lifandi Saga

Hvenær fórum við að kyssast?

Maðurinn

Hvers vegna verður maður þreyttur eftir að hafa borðað?

Lifandi Saga

Hvers vegna eru til herra- og kvenreiðhjól?

Maðurinn

Lítið en mikilvægt atriði í uppeldinu getur haft mikil áhrif seinna á lífsleiðinni

Heilsa

Sérfræðingar í sykursýki: Jafnvel lítið magn af þessari tegund matar getur aukið hættuna um 15 prósent.

Maðurinn

Þú ert tveimur sekúndum frá því að springa úr reiði

ÁSKRIFT AÐ VÍSINDI.IS

Prófaðu í 14 daga ókeypis!

  • Fullur aðgangur að vefnum okkar með rúmlega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Lifandi vísindi/Lifandi saga í rafrænni útgáfu á vefnum,
  • Aðeins 1.790 krónur á mánuði.
  • Engin skuldbinding – Þú getur hætt hvenær sem er.

ÁSKRIFT AÐ TÍMARITINU

Þrjú tölublöð + gjöf: Skemmtilegur sjónauki
  • Þrjú næstu tölublöð Lifandi vísinda/Lifandi sögu – sent heim til þín – eins færðu lítinn og vandaðan sjónauka að gjöf.
  • Fullur aðgangur að vefnum okkar – visindi.is – með tæplega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Spennandi greinar og flottar myndir sem svala forvitni þinni.
  • Þú getur hætt eftir tilboðið en ef þú heldur áfram skuldbindur þú þig aðeins þrjú tölublöð í einu og þú getur sagt upp hvenær sem sem og klárar þá tímabilið sem er hafið.
  • Venjuleg áskrift – þrjú tölublöð – kostar aðeins 7.590 kr

Sjónauki og þriggja blaða áskrift – Alls 3.800 kr.

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Search

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Viltu lesa greinina?

Fáðu aðgang að visindi.is

Ókeypis í 2 vikur!

Eftir það kostar eingöngu 1.790 kr. á mánuði og enginn uppsagnarfrestur.

Innifalið er aðgangur að öllum greinum á vefnum ásamt rafræna útgáfu af nýjustu tölublöðunum.

  • Fullur aðgangur að visindi.is
  • Frábærar myndir og myndbönd
  • Aðgengilegt í öllum snjalltækjum
  • Fullur aðgangur að gríðarlegu magni eldri greina
  • Nýjustu tölublöðin í rafrænu formi

Núverandi áskrifendur að tímaritinu fá að sjálfsögðu ókeypis aðgang að vefnum og þurfa bara að virkja aðgang sinn hér.

Ef þú ert þegar áskrifandi að visindi.is