Af hverju létu að minnsta kosti 37 risasjávarskriðdýr lífið á sama stað fyrir 230 milljónum ára, þar sem nú er Nevada í BNA?
Steingervingafræðingar hafa klórað sér í kollinum yfir þessu í áratugi, enda liggja þarna beinaleifar margra tonna þungra Iktosauruseðlna og ýmsar kenningar hafa verið settar fram.
Ein kenningin er sú að þessar risavöxnu hvaleðlur hafi synt á land á flótta undan skæðum þörungablóma.
En nú telja vísindamenn hjá Smithsonian-náttúrusögusafninu sig hafa fundið aðra skýringu. Þeir álíta ástæðuna fólgna í tilteknu atferli sem hvaleðlurnar hafi átt sameiginlegt með sumum sjávarspendýrum nútímans.

Iktosaurus-eðlur voru forneðlur í mörgum stærðarflokkum, allt frá 1 metra að lengd upp í 20. Hér sést kjálki og tönn úr stórri eðlu.
Þrívíddarskannanir voru notaðar til að rannsaka þetta svæði sem kallast „Berliner-Ichtosaur“-þjóðgarðurinn og er í norðvesturhluta Nevada. Jafnframt var efnasamsetning steina hjá steingervingunum rannsökuð nákvæmlega.
Fóstur og nýklaktir ungar
Engin ummerki fundust um skyndilegan þörungablóma. Það vakti líka athygli að beinaleifarnar voru nánast eingöngu úr fullvöxnum dýrum – sem sagt engir ungar.
En röntgenmyndir með svonefndum ör-CT-skanna breyttu öllu. Nú sáust smágerð bein úr fóstrum og nýklöktum ungum.
Langt ferðalag
Vísindamennirnir segja þessa uppgötvun sýna að þessar stóru hvaleðlur hafi að líkindum ferðast um langan veg til að geta fætt unga sína fjarri rándýrum og að þar sem nú er Nevada hafi líklegast verið útungunarstaður eðlnanna kynslóðum saman, trúlega í mörg hundruð þúsund ár.

Lestu einnig:
Þetta atferli minnir mjög á hvali nútímans, svo sem steypireyði og hnúfubak sem ferðast langar leiðir um heimshöfin til að fæða afkvæmin þar sem lítið er um rándýr.
„Nú höfum við sannanir fyrir því að þetta atferli á sér 230 milljón ára sögu,“ segir forstöðumaður rannsóknarinnar, Neil Kelly, m.a. í fréttatilkynningu.