Lifandi Saga

Yfirlit: Hér eru ástæðurnar fyrir deilunum milli Ísraels og Palestínu

Hvenær og hvers vegna urðu Palestínumenn og Ísraelar jafn svarnir óvinir og raun ber vitni? Hefur þessi fjandskapur staðið yfir frá örófi alda? Fylgist með framgangi mála allt aftur að rótum deilnanna og fram til átakanna í dag.

BIRT: 21/12/2023

Deilurnar milli Ísraels og Palestínu eiga sér djúpar rætur.

 

Allt frá því í fornöld hafa ólík öfl verið við völd á svæðinu: Egyptar, Assýríumenn, Akkadíumenn, Ottómanar. Bretar – og ótalmargir aðrir hafa ákveðið leikreglurnar á svæðinu um tíma.

 

Nýir íbúar hafa sest að, aðrir hafa verið hraktir á flótta og styrjaldir og óeirðir hafa geisað, oft með stuttu millibili.

 

Hér greinum við frá allri þróuninni og helstu tímamótaatburðum í Ísrael og Palestínu undanfarin 4.000 ár.

 

Fyrir þá sem fýsir að mynda sér sína eigin skoðun á deilunum milli Ísraels og Palestínu og kynnast hinu sögulega samhengi út frá upplýsingum, bendum við á tímalínu sögunnar.

Yfirlit
1. Þegar landið hét Kanansland
2. Brottreksturinn til Babýlon
3. Rómarveldi tekur völdin
4. Arabar festa rætur í Palestínu
5. Krossferðirnar
6. Gyðingar snúa aftur
7. Breskt yfirráðasvæði
8. Sex daga stríðið
9. Frá friðarumleitunum til klofnings

Þegar landið hét Kanansland

Egyptar og Mesópótamíumenn þekktu það landsvæði sem nú kallast Ísrael/Palestína sem Kanansland.

 

Frá því um 2500 f.Kr. fer heitið Kanansland að sjást ritað með fleygrúnum á leirtöflur, síðar meir einnig með egypsku myndletri.

 

Kanansland var vestur af ánni Jórdan í átt að Miðjarðarhafi, norður af hinni hrjóstrugu Sinaí-eyðimörk.

 

Kanansland, ásamt Mesópótamíu (það sem heitir í dag Írak) myndaði svæðið sem kallað hefur verið Frjósami hálfmáninn í nýrri tíð. Þar myndaðist fyrsti landbúnaðurinn um 8000 árum f.Kr.

 

Frjósamur jarðvegurinn í Kananslandi laðaði gegnum tíðina að ólíka innflytjendur með mismunandi menningu og drottnara þeirra sem reyndu að ná yfirráðum yfir svæðinu, iðulega frá fjarlægum löndum.

 

Sagnfræðingar nefna íbúana í Kananslandi allt þar til um 1200 f.Kr. Kanverja eða Kananmenn.

Í þekktum bandarískum sálmi er sungið „Joshua Fit the Battle of Jericho“. Jósúa var einn af dyggum ráðgjöfum Móses á flóttanum frá Egyptalandi og var hann gerður að nýjum leiðtoga Ísraelsmanna eftir andlát Móses. Hann umkringdi borg Kanverja, Jeríkó og hernam hana. Ef marka má helgisögur tókst honum þetta með því að láta sjö trompeta glymja með þeim afleiðingum að turnar borgarinnar titruðu og sukku í jörð.

Um það bil 1200 árum f.Kr. leið bronsöldin undir lok í Kananslandi og járnöldin varð allsráðandi og tæknin við að smíða úr járni breiddist út þaðan sem nú heitir Tyrkland.

 

Nýir íbúar streymdu til Kananslands og á áletrun yfir egypska faraónum Merenptah (látinn 1203 f.Kr.) birtist í fyrsta sinn þjóð sem kallast „Ísraelsmenn“.

 

Um þetta sama leyti, u.þ.b. 1276 f.Kr., flutti að þjóð sem kallaðist Filisteiar sem samkvæmt heimildum eiga að hafa komið frá eynni Krít yfir til suðvesturstrandar Kananslands.

 

Þó svo að Filisteiar sem voru þekktir fyrir að vera fjandmenn Ísraela, hafi smám saman lotið í lægra haldi og horfið sem sjálfstæð þjóð, þá lifir heiti þeirra, Filisteiar, enn góðu lífi í merkingunni „ómenntaðir broddborgarar“.

 

Brottreksturinn til Babýlon

Hinir nýju íbúar Palestínu, Ísraelsmenn, lögðu grunninn að konungsríkinu Ísrael um 1080 árum f.Kr. Ísraelar töluðu hebresku og trúðu upprunalega á nokkra guði, síðar meir þó einungis guðinn Jave.

 

Nærri árinu 930 f.Kr., þegar sagnakonungurinn Salómon er sagður hafa látist, var konungsríkinu skipt í Ísrael í norðri (með höfuðborgina Samaríu) og Júdeu í suðri (með höfuðborgina Jerúsalem). Heitið „júðar“ sem stundum heyrist notað, á einmitt rætur að rekja til örnefnisins Júdeu.

Gyðingarnir voru reknir úr Kananslandi og teknir til fanga í Babýlon. Málverkið frá árinu 1896 er eftir James Tissot.

Konungsríkin tvö voru fyrst tekin herskildi af stórveldinu Assýríu árið 722 f.Kr. og síðan af Babýlon árið 598 f.Kr.

 

Babýlóníumenn rændu og rupluðu Jerúsalem og tóku til fanga þá gyðinga sem í forsvari voru og gerðu þá brottræka til Babýlon, þar sem nú heitir Írak.

 

Hin svonefnda babýlónska fangavist stóð yfir allt til ársins 539 f.Kr. þegar Kýros 2. Persakonungur lagði Babýlon undir sig og leyfði forsvarsmönnum gyðinganna að snúa heim.

 

Eftir að Alexander mikli lagði undir sig Persaveldi árið 325 f.Kr. tók við tímabil undir grískum áhrifum þar sem nú heitir Palestína. Í kringum 168 f.Kr. gerði palestínska prestastéttin, Makkabear, uppreisn gegn eftirmönnum Alexanders sem nefndust Selevkídar.

 

Rómarveldi tekur völdin

Borgin Jerúsalem var eyðilögð undir stjórn rómverska keisarans Tíberíusar í kringum árið 70 e.Kr. Hér gefur að líta steinprent gert af Louis Haghe eftir málverki sem David Roberts málaði árið 1848.

Gyðingar settu á stofn nýtt konungsríki sem var við lýði allt til ársins 63 f.Kr. þegar Palestína var innlimuð í næsta stórveldið, Rómarveldi.

 

Í nýja rómverska héraðinu fæddist nærri árinu 4 f.Kr. drengur af gyðingaættum sem nefndur var Jeshua, á latínu Jesús sem kristnir menn hafa litið á sem son guðs.

 

Gyðingarnir gerðu margar uppreisnir gegn rómverska ofureflinu sem svaraði ávallt fyrir sig af hörku. Um hálf milljón gyðinga voru grimmilega myrtir í Bar Kokhba-uppreisninni á árunum milli 132 til 136 e.Kr.

 

Eftir uppreisnina seldi Hadrían Rómarkeisari alla stríðsfanga af gyðingaættum sem þræla og lagði blátt bann við að íbúar Palestínu legðu stund á gyðingatrú.

 

Þessi harðstjórn Rómverja hratt gyðingunum í útlegð og brátt bjuggu flestallir gyðingar hingað og þangað um Evrópu, í Miðausturlöndum og Norður-Afríku.

 

Arabar festa rætur í Palestínu

Al Aqsa-moskan í Jerúsalem. Moska þessi er einn þriggja helgustu staðanna í íslamstrú. Hún var reist árið 695.

Eins og gefur að skilja var hin rómverska Palestína ekki í eyði. Utan borgarmúranna stunduðu landbúnað bændur af ætt gyðinga, svo og fólk af öðrum kynþáttum, m.a. Samverjar.

 

Á 4. öld voru flestir íbúar Rómarveldis kristnir og margir af íbúum Palestínu snerust til kristinnar trúar.

 

Mörgum rómverskum hofum, svo og gyðingahofum, var breytt í kirkjur.

 

Eftir að Rómarveldi leið undir lok á 5. öld laut Palestína stjórn kristnu borgarinnar Býsan, höfuðborg austurrómverska ríkisins sem nú kallast Istanbúl.

 

Árið 634 lögðu Arabar frá Arabíuskaganum hins vegar undir sig Palestínu sem farið var að kalla „Falastīn“, eins og landið hét á grísku.

 

DNA-rannsóknir: Gyðingar og Palestínumenn eru náskyldir

Arabarnir blönduðust þeim sem fyrir bjuggu í landinu.

 

Þó svo að ísraelskir og palestínskir sagnfræðingar deili enn um það „hvorir hafi komið fyrst“, gefa DNA-rannsóknir til kynna að gyðingar og Palestínumenn séu náskyldir.

 

Arabísku innflytjendurnir báru með sér múhameðstrú, þar sem líkt og í gyðingdómi og kristni var einungis trúað á einn guð (Alla), auk þess sem þeir fluttu með sér semíska tungumálið arabísku sem er náskylt hebresku sem gyðingarnir töluðu. Mörgum kirkjum í Palestínu var nú breytt í moskur.

 

Múslímsku drottnararnir bönnuðu hins vegar ekki aðra eingyðistrú og hluti Palestínumanna hélt kristinni trú sinni.

 

Krossferðirnar

Á miðöldum hinnar kristnu Evrópu kom upp sú hugmynd að Palestína sem heimaland Jesú, væri heilagt land.

 

Á árunum milli 1096 og 1276 héldu evrópskir riddarar í ofbeldisfullar krossferðir til svæðisins. Í ákefð eftir að komast aftur til valda í „heilaga landinu“ réðust Evrópubúarnir á arabískumælandi íbúana á svæðinu, hvort heldur þeir voru múslímar eða kristnir.

 

Árið 1517 var Palestína þó endanlega innlimuð í hinn múslímska heim þegar Tyrkir lögðu svæðið undir sig.

 

Næstu fjórar aldirnar var Palestína hluti af hinu múslímska Tyrkjaveldi.

 

Gyðingar snúa aftur

Árið 1909 var lagður grunnur að borginni Tel Aviv, þar sem nú er Ísrael, á landi sem hrifsað var úr eigu hirðingja. Myndin hér sýnir uppboð á fyrstu landskikunum árið 1909.

Á 19. öld fluttu þúsundir gyðinga búferlum til Palestínu sem laut yfirráðum Tyrkja. Landflutningarnir tengdust sívaxandi þjóðernishyggju sem geisaði í Evrópu, þar sem kristnir Evrópubúar voru í auknum mæli farnir að líta á gyðingaminnihlutann sem óæskilega útlendinga.

 

Sennilega hefur gyðingahreyfingin síonismi (nefnd eftir hæðinni Síon í Jerúsalem) orðið til sem andsvar við gyðingahatrinu eða gyðingaandúðinni, eins og það einnig kallaðist.

 

Síonistar ólu þá ósk í brjósti að snúa aftur til Palestínu og setja á stofn ríki gyðinga. Gamla tungumálið hebreska var vakið upp af dvala og farið að nota það sem talmál.

 

Breskt yfirráðasvæði

Margir arkitektar sem stundað höfðu nám við Bauhaus-skólann í Þýskalandi sem kenndur er við nýtistefnu, fluttust búferlum til breska yfirráðasvæðisins í Miðausturlöndum á millistríðsárunum. Þetta skýrir hvers vegna hluti af miðborginni í Tel Aviv lítur út fyrir að hafa verið byggður eftir fyrirmynd nýtistefnunnar.

Upp úr 1905 jukust mannflutningar austurevrópskra gyðinga til Palestínu, þar sem gyðingar settu á stofn borgina Tel Aviv árið 1909.

 

Á meðan fyrri heimsstyrjöld geisaði notfærði Bretland sér uppþot Araba gegn Tyrkjaveldi til að leggja undir sig Palestínu sem gerð var að bresku yfirráðasvæði árið 1917.

 

Bretar lýstu því upphaflega yfir að þeir hygðust setja á stofn „þjóðarheimili fyrir gyðinga“ í Palestínu en reyndu síðan að takmarka fólksflóttann frá Evrópu, nokkuð sem fór verulega fyrir brjóstið á arabískumælandi heimamönnum.

 

Eftir að gyðingahatarinn Adolf Hitler komst til valda í Þýskalandi árið 1933 reyndu sífellt fleiri gyðingar að leita athvarfs á yfirráðasvæðinu Palestínu.

 

Á árunum milli 1882 og 1939 settust um 400.000 gyðingar að á svæðinu sem á dögum gömlu valdhafanna, Tyrkja, hafði rúmað um fjórðung úr milljón íbúa.

 

Helförin skyggði á tveggja ríkja lausnina

Á meðan síðari heimsstyrjöld geisaði myrti nasistastjórn Adolfs Hitlers á árunum 1941-1945 rúmar sex milljónir gyðinga í útrýmingarbúðum í Evrópu. Fórnarlömbin voru m.a. tekin af lífi með gasi í þar til gerðum gasofnum.

 

Helförin telst enn vera mesta ofbeldi gegn mönnum sem þekkt er. Á árunum eftir þennan óskiljanlega harmleik sýndu stórveldin fyrir vikið síonistum mjög mikinn skilning á því að setja á stofn ríki þar sem íbúarnir gætu lifað saman í sátt og samlyndi.

 

Nýlenduveldið Bretland hafði ekki löngun til að ýfa tengslin við Arabaheiminn og þá Palestínumenn sem álitu Palestínu aðallega vera arabíska.

 

Bretar voru undir þrýstingi Bandaríkjamanna þegar þeir ákváðu að láta Sameinuðu þjóðunum eftir að taka ákvörðun um afdrif Palestínu árið 1947 en SÞ voru settar á laggirnar til að koma mætti í veg fyrir að hryllingurinn í síðari heimsstyrjöld endurtæki sig.

 

Sameinuðu þjóðirnar mæltu með að Palestínu yrði skipt í arabískt ríki annars vegar og gyðingaríki hins vegar. Jerúsalem, borg þar sem var að finna bæði kristilega, múslímska og gyðinglega helgidóma, skyldi verða alþjóðleg borg.

 

Arabalöndin neituðu að samþykkja skiptingaráætlun SÞ sem þeir töldu að myndi færa gyðingum yfirráð yfir mörgum svæðum sem múslímar höfðu verið búsettir á mann fram af manni.

 

Hinn 14. maí 1948 lýsti stjórnmálamaðurinn og gyðingurinn David Ben-Gurion engu að síður yfir stofnun Ísraelsríkis.

 

Næsta dag réðust Arabalöndin, Egyptaland, Jórdanía, Sýrland, Líbanon og Írak, svo á Ísrael.

 

Atburðina sem fylgdu í kjölfarið nefndu Ísraelar sjálfstæðisstríð en Palestínumenn töluðu um þá sem „nakba“, þ.e. hörmungarnar.

 

Þegar nýja ríkið bar sigur úr býtum eftir stríðsreksturinn árið 1949 höfðu Ísraelsmenn lagt undir sig helmingi meira land en Sameinuðu þjóðirnar höfðu sagt fyrir um, auk þess að innlima rösklega 80 hundraðshluta af Jerúsalem.

 

Rúmlega 500 palestínsk þorp voru lögð í eyði, 13.000 Palestínumenn drepnir og enn aðrir 730.000 hraktir burt til annarra Arabalanda.

 

Álíka stór hópur gyðinga hafði verið flæmdur burt frá Arabalöndunum til Evrópu, þaðan sem þeir komust síðan til Ísraels en þess má geta að gyðingum þar fjölgaði um helming næstu fimm árin.

 

Palestínsku svæðin á Gaza og Vesturbakkanum komust undir stjórn Egypta annars vegar og Jórdana hins vegar.

 

Sex daga stríðið

Landsvæðin sem Ísraelar lögðu undir sig í sex daga stríðinu árið 1967 eru merkt með grænu á kortinu hægra megin. Um er að ræða Sinaískagann og Gazaströndina í suðri, Vesturbakkann og gamla borgarhlutann í Jerúsalem í austri, svo og Gólanhæðir mót norðri.

Ísrael breyttist í hernaðarstórveldi með stuðningi m.a. Frakka.

 

Þegar ný styrjöld braust út milli Ísraels og nágrannaríkjanna árið 1967 báru Ísraelsmenn sigur úr býtum gegn Egyptum, Sýrlendingum og Jórdönum á aðeins sex dögum.

 

Í sex daga stríðinu náði ísraelski herinn á sitt vald egypska hlutanum af Sinaí, Gólanhæðum við Sýrland, svo og palestínsku svæðunum Gaza, Vesturbakkanum og Austur-Jerúsalem. Ein milljón Palestínumanna laut þar með stjórn Ísraelsmanna.

 

Þegar Arababandalagið hélt leiðtogafund sinn sama ár í höfuðborg Súdans, Khartoum, neitaði bandalagið að viðurkenna ríkið Ísrael.

 

Frá friðarviðræðum yfir í klofning

Yasser Arafat, Símon Peres og Yitzhak Rabin eftir að þeir í sameiningu höfðu fengið friðarverðlaun Nóbels árið 1994 sem viðurkenningu fyrir framlag þeirra til friðarsáttmálans í Osló árið 1993.

Efnahagsvöxtur var mikill í Ísrael eftir árið 1967 og margir Palestínumenn fengu vinnu þar í landi. Ungir Evrópubúar flykktust til Ísraels til að vinna þar á samyrkjubúum.

 

Á þessum uppgangstímum kom það mörgum Ísraelum því í opna skjöldu þegar Sýrlendingar og Egyptar réðust inn í landið árið 1973. Ísrael bar sigur út býtum eftir hið svokallaða Yom Kippur-stríð en andstæðurnar skerptust til muna.

 

Ísraelski hægriflokkurinn Likud neitaði öllu samstarfi við palestínsku frelsissamtökin PLO en leiðtogi þeirra, Yasser Arafat, lagðist þess í stað í skæruhernað gegn Ísrael frá Líbanon. Eftir nokkrar innrásir hörfaði ísraelski herinn loks út úr Líbanon árið 1983.

 

Hundruð ísraelskra landnema fóru að setjast að á hernumdu palestínsku landsvæðunum og nutu í þeim tilgangi stuðnings Likud.

 

Árið 1987 leystu þessar ísraelsku aðgerðir úr læðingi uppþot Palestínumanna á herteknu svæðunum sem gengu undir heitinu „intifada“, fyrst í Gaza en síðar meir einnig á Vesturbakkanum.

 

Uppreisnir þessar einkenndust fyrst í stað af félagslegri óhlýðni, mótmælum og steinkasti gegn ísraelsku lögreglunni. Síðar meir fóru uppþotin í auknum mæli að einkennast af hernaðaraðgerðum, m.a. leit andspyrnuhreyfingin Hamas þá dagsins ljós en andstætt við veraldlegu samtökin PLO vildi Hamas ráða niðurlögum Ísraels í því skyni að stofna íslamskt ríki.

 

Árið 1988 viðurkenndi leiðtogi PLO, Yasser Arafat, tilverurétt Ísraels. Þar með var brautin rudd fyrir þær friðarviðræður sem leiddu til svonefnds Oslóarsáttmála milli Arafats og ísraelska forsætisráðherrans Yitzhak Rabin.

 

Í sáttmálanum viðurkenndi Ísrael PLO-samtökin og Palestínumenn fengu sjálfsstjórn sem Arafat var kjörinn forseti fyrir árið 1995. Öfgamaður úr hópi gyðinga skaut Rabin til dauða í nóvember 1995 en sá hafði verið ósáttur við undirritun friðarsáttmálans.

 

Yasser Arafat lést af eðlilegum orsökum á sjúkrahúsi í París árið 2004.

 

Friðarumleitanir runnu út í sandinn

Lítill hluti, frá Betlehem, af múrnum sem Ísraelsmenn reistu milli sín og Vesturbakkans.

Friðarviðræðurnar runnu út í sandinn eftir morðið á Rabin.

 

Árið 1996 réðust Hamas og bræðrabandalagið „Heilagt stríð“ á Ísraela með sjálfsmorðssprengjusveitum.

 

Leiðtogi hægriflokksins Likud, Benjamín Netanjahú sem gagnrýnt hafði Oslóarsáttmálann, varð forsætisráðherra Ísraels.

 

Árið 2000 kom eftirmaður hans, Ariel Sharon, upp á musterishæðina í Jerúsalem, þar sem hinn mikilvægi helgidómur múslíma, Al-Aqsa-moskan, stendur en Sharon hafði borið hluta af ábyrgðinni á fjöldamorði á palestínskum flóttamönnum í Líbanon árið 1982.

 

Heimsókn þessi hrinti af stað nýrri uppreisn Palestínumanna sem stóð allt til ársins 2005. Ísraelar létu reisa varnarvegg með gaddavír inni á Vesturbakkanum og lögðu þannig undir sig enn meira palestínskt land með þeim afleiðingum að svæði sem lutu stjórn PLO breyttust í einangruð, lokuð íbúðahverfi.

 

Árið 2006 báru Hamas-samtökin sigur úr býtum í palestínsku kosningunum en lentu í borgarastyrjöld gegn stjórnmálaaflinu Fatah sem allt frá andláti Arafats hafði lotið stjórn þess sem nú er forseti Palestínu, Mahmoud Abbas.

 

Bardögunum sem einkum áttu sér stað á Gaza, lyktaði á þann veg að Fatah-flokkurinn var hrakinn frá Gazaströndinni. Hamas samtökin útbjuggu háþróað jarðgangakerfi undir Gaza, með aðstoð Írana og átökin við Ísraela jukust til muna en Hamas gerði flugskeytaárásir á þá árið 2008.

 

Ísraelski herinn naut stuðnings, m.a. Bandaríkjamanna til að láta hart mæta hörðu og árið 2012 gerði Ísraelsher árás á hið þéttbýla Gazasvæði, þar sem stríðsmenn Hamas-samtakanna og almennir borgarar búa gjarnan hlið við hlið.

Íbúðarblokk á Gazaströndinni sekkur í sand eftir sprengjuárás Ísraelsmanna í október 2023.

Árið voru aftur átök á svæðinu þegar stríðsmenn Hamas-samtakanna gerðu hryðjuverkaárás frá Gaza á Ísrael þann 7. október og drápu um 1.200 manns, m.a. þátttakendur á tónlistarhátíð og íbúa nokkurra samyrkjubúa í grennd við Gazaströndina. Í það minnsta 240 ísraelskir gíslar voru teknir til fanga og hafðir með yfir til Gaza.

 

Skömmu síðar hófu Ísraelsmenn heiftarlegar sprengjuárásir á Gaza og hinn 27. október gerðu Ísraelar innrás á svæðið. Um 20.000 Palestínumenn eru taldir hafa látið lífið í sprengjuárásum Ísraela og í innrásinni í Gaza.

HÖFUNDUR: BJØRN ARNFRED BOJESEN

Wikimedia Commons,© Public domain,© James Tissot/Public domain,© Kyrylo Glivin/Shutterstock,© Avraham Soskin/Public domain

Náttúran

Bakteríur örva ilminn af sumarregni

Læknisfræði

Nýtt lyf við getuleysi: Eitruð könguló getur bjargað kynlífi þínu 

Alheimurinn

Ofurleiðaraefni að finna í loftsteinum

Lifandi Saga

Krossferðaherinn sigraður með timburvögnum

Lifandi Saga

Kína verður aldrei aftur auðmýkt

Tækni

Hvers vegna sofum við?

Heilsa

Létt þjálfun er áhrifaríkari

Maðurinn

Fimm hollráð vísindamanna: Þannig má breyta leiða í styrk

Tækni

Sólarsellur flytja út í geim 

Heilsa

Algengt meðferðarúrræði fyrir konur á breytingaskeiði er talið hafa í för með sér alvarlegar aukaverkanir

Maðurinn

Er skaðlegt að halda sér vakandi alla nóttina?

Heilsa

Yfirsýn: Svona bjargar blóðið þér

ÁSKRIFT AÐ VÍSINDI.IS

Prófaðu í 14 daga ókeypis!

  • Fullur aðgangur að vefnum okkar með rúmlega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Lifandi vísindi/Lifandi saga í rafrænni útgáfu á vefnum,
  • Aðeins 1.790 krónur á mánuði.
  • Engin skuldbinding – Þú getur hætt hvenær sem er.

ÁSKRIFT AÐ TÍMARITINU

Þrjú tölublöð + gjöf: Skemmtilegur sjónauki
  • Þrjú næstu tölublöð Lifandi vísinda/Lifandi sögu – sent heim til þín – eins færðu lítinn og vandaðan sjónauka að gjöf.
  • Fullur aðgangur að vefnum okkar – visindi.is – með tæplega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Spennandi greinar og flottar myndir sem svala forvitni þinni.
  • Þú getur hætt eftir tilboðið en ef þú heldur áfram skuldbindur þú þig aðeins þrjú tölublöð í einu og þú getur sagt upp hvenær sem sem og klárar þá tímabilið sem er hafið.
  • Venjuleg áskrift – þrjú tölublöð – kostar aðeins 7.590 kr

Sjónauki og þriggja blaða áskrift – Alls 3.800 kr.

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Search

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Viltu lesa greinina?

Fáðu aðgang að visindi.is

Ókeypis í 2 vikur!

Eftir það kostar eingöngu 1.790 kr. á mánuði og enginn uppsagnarfrestur.

Innifalið er aðgangur að öllum greinum á vefnum ásamt rafræna útgáfu af nýjustu tölublöðunum.

  • Fullur aðgangur að visindi.is
  • Frábærar myndir og myndbönd
  • Aðgengilegt í öllum snjalltækjum
  • Fullur aðgangur að gríðarlegu magni eldri greina
  • Nýjustu tölublöðin í rafrænu formi

Núverandi áskrifendur að tímaritinu fá að sjálfsögðu ókeypis aðgang að vefnum og þurfa bara að virkja aðgang sinn hér.

Ef þú ert þegar áskrifandi að visindi.is