Angist, kvíði eða ótti eru náttúrulegar tilfinningar rétt eins og t.d. gleði, sorg, reiði eða afbrýðisemi. Hjá sumu fólki verður kvíðinn þó svo yfirgnæfandi að hann verður sjúklegur.
Meðal erfiðleikanna við að meðhöndla sjúklegan kvíða er sú staðreynd að kvíðastillandi lyf hafa mismunandi áhrif á sjúklingana. Reyndar fær minna en helmingur sjúklinga bata eftir að hafa tekið lyf.
Þess vegna hafa vísindamenn nú rannsakað tilteknar sameindir sem kallast miRNA í heilum músa en þessar sameindir eru taldar eiga þátt í að draga úr kvíðatilfinningu.
Þetta eru erfðasameindir sem kóða fyrir prótínum sem stýra hegðun frumna í heilamöndlunni, lítilli heilastöð sem m.a. stýrir ótta- og varnarviðbrögðum.
Flýtileið í betri meðferð
Við athugun á músum í mjög streituvaldandi umhverfi kom í ljós að magn miR483-5p sameinda í heilamöndlu jókst. Svo virtist líka sem þessar sameindir hefðu tilhneigingu til að draga úr virkni annars gens sem nefnist Pgap2 og tengist stigi óttatilfinningar.
Vísindamennirnir uppgötvuðu sem sé að miR483-5p virkaði sem eins konar hemill sem gat dregið úr óþægindatilfinningu.
Vísindamenn: Þessar tilfinningar auka hraða öldrunar mun meira en reykingar
Bandarískir og kínverskir vísindamenn hafa reiknað út að tvær tegundir tilfinninga virðast auka öldrun hraðar en reykingar.
Þessi uppgötvun, hvernig samspil miR483-5p og Pgap2 getur gert heilanum kleift að hafa stjórn á angistinni, getur þess vegna reynst mikilvægt framlag í tengslum við þróun nýrra meðferðarúrræða við kvíða.
„Þetta samspil, með sínum kvíðastillandi áhrifum“ hefur gríðarlega þýðingu varðandi þróun meðferðarúrræða gegn kvíða,“ segir dr. Valentina Mosienko, lektor í taugafræði við Bristolháskóla.