Bakteríur fyrirfinnast í öllum krókum og kimum líkamans. Sumar eru skaðlegar og aðrar gagnlegar.
Sýnt hefur verið fram á að sérstök baktería, sem að öllu jöfnu er að finna í munnholi og tengist sýkingum eins og tannholdsbólgu, Lemierre-heilkenni (sýking í stórri æð í hálsi) og krabbameini í ristli og endaþarmi, hefur áður óþekkt og mjög öflug áhrif á ákveðið krabbamein.
Bakterían kallast Fusobacterium og eru það vísindamenn frá Guy’s og St Thomas’ og King’s College í London sem hafa uppgötvað að þessi baktería virðist vera furðu áhrifaríkt vopn gegn tilteknu krabbameini sem er sjötta algengasta krabbameinið á heimsvísu.
Verndar gegn krabbameini á höfði og hálsi
Um er að ræða krabbamein í höfði og hálsi, sem er algengt heiti yfir þau krabbamein sem koma upp í efri öndunarvegi og meltingarvegi sem og í kirtlum á sama svæði.
Það áhugaverða er að Fusobacterium tengist yfirleitt þróun og versnun krabbameins í þörmum, en samkvæmt nýrri rannsókn sem birt var í tímaritinu Cancer Communications hefur bakterían þveröfug áhrif þegar kemur að krabbameini í höfði og hálsi. Þar eyðileggur hún krabbameinsfrumurnar og getur virkað sem svokallað lífmerki fyrir því hvernig sjúklingar með þessa tilteknu tegund krabbameins munu bregðast við meðferð sinni.
Það var forsvarsmaður rannsóknarinnar Dr. Miguel Reis Ferreira, sérfræðingur í höfuð- og hálskrabbameini hjá Guy’s og St Thomas’, sem uppgötvaði að sjúklingar með höfuð- og hálskrabbamein með hærri styrk af Fusobacterium höfðu almennt betri horfur en sjúklingar sem höfðu minna magn af bakteríunni.
„Bræðir“ krabbameinsfrumurnar
Athugun hans var fylgt eftir af vísindamanninum Dr. Anjali Chander frá King’s College í London, sem sýndi fram á 70-99 prósenta minnkun á fjölda lífvænlegra krabbameinsfrumna í tilraunum með krabbameinsfrumur í höfði og hálsi þar sem frumurnar höfðu orðið fyrir Fusobacterium. Bakterían gefur frá sér eitraðar sameindir sem eyðileggja krabbameinsfrumurnar.
Rannsóknir þeirra veita betri skilning á sambandi milli baktería og krabbameins og geta verið skref að mun betri meðferð við krabbameini í höfði og hálsi. Það er í sjálfu sér nokkuð áhugavert, þar sem engar merkjanlegar framfarir hafa orðið í meðferð á þessu tiltekna krabbameini undanfarin 20 ár.
Í rannsóknastofunni gætu vísindamenn nú hafa fundið leiðina að grunnpunkti þessara ofvirku og hættulegu frumna. Uppgötvunin mun þó væntanlega helst nýtast gegn einni tiltekinni gerð krabba.
„Rannsóknir okkar leiða í ljós að þessar bakteríur gegna flóknara hlutverki en áður var gert ráð fyrir í tengslum við krabbamein – og að þær bræða nánast krabbameinsfrumurnar sem sjást í krabbameini í höfði og hálsi. Hins vegar verður að vega þessar athuganir á móti þeirri vitneskju sem nú þegar eru til um að þessar bakteríur eigi líka sök á til dæmis versnun krabbameins í þörmum,“ segir dr. Miquel Reis Ferreira í fréttatilkynningu á heimasíðu King’s College London.
Næsta skref rannsakenda er að skoða betur hvernig þeir geta nýtt sér þessa nýju þekkingu um Fusiobacterium til að bæta meðferð krabbameins í höfði og hálsi.
Vísindamennirnir frá King’s College í London lýsa sjálfir rannsókn sinni sem einstakri og niðurstöður óvæntar og þeir voru nokkuð ánægðir þegar vísindamenn annars staðar frá unnu svipaðar rannsóknir sem sýndu sömu niðurstöður.