Beinaleifar stærstu kjötætu Evrópu á Suður-Englandi

Tíu metrar frá trýni að rófuenda og veiddi meðfram suðurströnd Englands. Þessi stóra eðla var þar með líklega stærsta landrándýr allra tíma í Evrópu.

BIRT: 25/11/2022

LESTÍMI:

2 mínútur

Eðlan gekk á tveimur fótum, hafði svipað höfuð og krókódíll og lifði á meginlandi Evrópu á krítartímabilinu – fyrir rúmlega 125 milljón árum.

 

Steingervingafræðingar fundu nýlega steinrunnar beinaleifar úr þessari terapod-eðlu. Tegundin hefur tilheyrt svonefndum spinosauruseðlum.

 

Beinaleifarnar fundust í krítarlögum við Vectis á eyjunni Isle of Wight í Ermarsundi.

 

„Þetta var gríðarstór skepna, meira en tíu metra löng og hefur vafalaust vegið mörg tonn. Af stærð beinanna má ráða að þetta hafi verið ein af stærstu ráneðlum sem nokkru sinni hafa fundist í Evrópu – jafnvel sú stærsta sem enn hefur fundist,“ útskýrir doktorsneminn Chris Baker sem stýrir rannsókn beinanna.

 

„Því miður þekkjum við þessa eðlu einungis af þessum ófullkomnu leifum en þær eru þó nægar til að sýna að þetta hefur verið gríðarstór skepna.“

 

Lifði á fiski og hræjum

Nánar tiltekið eru það leifar úr hryggjarliðum, mjaðmagrind og rófu sem vísindamennirnir fundu. Þeir fundu hins vegar engar tennur eða bein úr höfuðkúpu.

 

„Hún er gríðarlega stór,“ segir Neil Gostling steingervingalíffræðingur sem tekið hefur þátt í rannsókninni. „Við skulum vona að fleiri steingervingar finnist. Sérlega ánægðir yrðum við ef bein úr höfuðkúpu eða tennur finnast.“

Ekki fannst mikið af beinaleifum úr eðlunni sem til bráðabirgða hefur fengið nafnið White Rock Spinosaurid en jafnvel á grunni svo smárra beinabrota má sjá að eðlan hefur verið gríðarstór.

Takist að finna tennur geta vísindamennirnir fundið þessu tvífætta trölli réttan stað í ættartré forneðlanna.

 

Ef eðlan reynist lík öðrum spinosauruseðlum hafa tennurnar að líkindum verið hentugar til að grípa sléttvaxna bráð á borð við fiska en líka gæti hugsast að þessi eðla hafi fremur lifað á hræjum annarra eðlna sem rekið hafi upp á ströndina.

 

Þar til heppilegra nafn finnst hefur eðlan verið nefnd White Rock Spinosaurid, eftir jarðlaginu þar sem leifarnar fundust.

 

Kalksteinninn þar sem beinin fundust er þekktur fyrir steingervinga.

 

Spinosauruseðlur upprunnar í Evrópu

2021 fann sami hópur leifar tveggja annarra spinosauruseðlna sem báðar hafa verið ríflega 9 metrar.

 

Þessi nýjasta uppgötvun þykir styðja við þá kenningu að spinosauruseðlur hafi verið upprunnar í Vestur-Evrópu fyrir um 150 milljón árum og breiðst þaðan út.

 

„Sé þetta í raun og veru spinosauruseðla styður það vel við reynslu okkar á síðasta ári sem okkur þótti benda til að spinosauruseðlur séu upprunnar í Evrópu en hafi síðan farið til Norður-Afríku, þar sem ekta spinosauruseðlur hafa fundist og svo þaðan til Suður-Ameríku,“ segir Neil Costling.

 

Lítil holrúm í beinum úr mjaðmagrindinni vöktu líka athygli vísindamannanna. Holrúmin líktust göngum og víddin var á við þumalfingur. Vísindamennirnir telja ummerkin eftir lirfur sem étið hafi bein þessarar ógnarlegu eðlu.

BIRT: 25/11/2022

HÖFUNDUR: SØREN ROSENBERG PEDERSEN

HÖFUNDARÉTTUR MYNDA: © Chris Barker/Dan Folkes, University of Southampton

vinsælustu greinarnar

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Viltu lesa greinina?

Fáðu aðgang að visindi.is

Ókeypis í 2 vikur!

Eftir það kostar eingöngu 1.390 kr. á mánuði og enginn uppsagnarfrestur.

Innifalið er aðgangur að öllum greinum á vefnum ásamt rafræna útgáfu af nýjustu tölublöðunum.

  • Fullur aðgangur að visindi.is
  • Frábærar myndir og myndbönd
  • Aðgengilegt í öllum snjalltækjum
  • Fullur aðgangur að gríðarlegu magni eldri greina
  • Nýjustu tölublöðin í rafrænu formi

Núverandi áskrifendur að tímaritinu fá að sjálfsögðu ókeypis aðgang að vefnum og þurfa bara að virkja aðgang sinn hér.

Ef þú ert þegar áskrifandi að visindi.is