Árið 1996 kom í ljós lítið, röndótt dýr, á stærð við kalkúna, á steinrunnum sjávarbotni í Kína. Um var að ræða ráneðlu sem þakin var mjúkum fiðurham, með ræningjagrímu, líkt og þvottabjörn.
Risaeðla þessi hafði varið 125 milljónum ára á sjávarbotni og vísindamenn um gjörvallan heim tóku henni fagnandi. Dýr þetta kallast nú dúneðla (sinosauropteryx) en um er að ræða fyrstu fiðruðu risaeðluna sem fundist hefur, þó án vængja.
Steingervingur dúneðlunnar hafði að geyma litarefnisslíður sem kallast sortukorn en þau geta veitt vísindamönnum dágóðar upplýsingar um lit þessarar risaeðlu.
Dúneðlan afsannar fyrir bragðið gamla kenningu sem gekk út á það að fjaðrir hefðu myndast í því skyni að fuglar gætu flogið. Fiðraðir forfeður þeirra rösklega 10.000 fuglategunda sem nú fyrirfinnast virðast engan metnað hafa haft í þá veru að hefja sig til flugs frá yfirborði jarðar, líkt og steingervinga- og fuglafræðingar gerðu sér í hugarlund.
Við erum enn opin fyrir því að fjaðrir kunni að hafa gegnt mikilvægu hlutverki í sameiginlegri sögu risaeðla.
Paul Barrett, prófessor og sérfræðingur í þróun risaeðla
Hvaða tilgang höfðu þá fjaðrirnar? Fundist hafa tvær fiðraðar flugeðlur og fyrir vikið komust umræðurnar um fyrstu fjöðrina aftur í hámæli og hafa þær hróflað við ættartré risaeðlanna, alla leið niður í trjáræturnar.
Ráneðlur voru fiðraðar
Fyrstu steingerðu fjaðrirnar sem fundist hafa, komu í ljós árið 1861 milli tveggja kalksteinsplatna í grennd við borgina Solnhofen í Suður-Þýskalandi. Fjöðrin var 150 milljón ára gömul og hafði áreiðanlega tilheyrt eðlufuglinum (archaeopteryx) en steingervingur hans fannst þar skammt frá.
Fyrsta steingerða fjöðrin tilheyrir eðlufuglinum archaeopteryx sem var á stærð við hrafn og sveif milli trjánna.
Í rösklega eina öld byggðu allar rannsóknir á uppruna fjaðra á þessari einu steingerðu fjöður, sem og flugeðlunni. Þetta varð svo til þess að fjaðrir og flug voru tengd saman sem órjúfanlegar heildir.
Þarna voru vísindamenn hins vegar á villigötum.
Eftir að dúneðlan (sinosauropteryx) fannst á botni gamals stöðuvatns í Kína er alveg ljóst að fjöðrin hefur gegnt öðru hlutverki en að gagnast dýrinu við að vinna bug á þyngdaraflinu.
Sinosauropteryx var ekki með flugfjaðrir en eðla þessi var hins vegar þakin fiðruðum feldi sem á ensku nefndist „dino fuzz“ en hann samanstendur af svokölluðum frumfjöðrum, þ.e. fíngerðum, frumstæðum fjöðrum sem minntu á hár. Hlutverk frumfjaðranna hefur sennilega verið að sjá dýrinu fyrir einangrun gegn kulda og að hjálpa því þannig að halda á sér hita.
Fjaðrir gögnuðust risaeðlum við að halda á sér hita
Allt fram til ársins 1999 töldu vísindamenn að fjaðrir ættu rætur að rekja til hreisturs en fuglafræðingnum Richard Prum við háskólann í Kansas tókst að leiðrétta þann misskilning. Fjaðrir eiga aftur á móti rætur að rekja til lítillar grópar í húðinni og vaxa í þrepum sem einnig endurspeglar þróun fjaðra í þróunarsögunni.
Hringur frumna myndar fjaðurstaf
Fjaðrir verða til, líkt og hreistur, með frumuskiptingu í sekk í húðinni. Hringur frumna skiptir sér og myndar fjaðurstafinn sem vex oddhvass upp úr fjaðursekknu, en þetta kallast frumfjöður. Á risaeðlum minna frumfjaðrir einna helst á litla, stinna brodda.
Mjúkar greinar frumdúnsins myndast
Frumfjöðrin þróast áfram yfir í svokallaðan frumdún, með stuttu skafti og löngum, mjúkum greinum. Sumar risaeðlur, m.a. snareðlur, voru þaktar slíkum frumdúni um allan líkamann sem að öllum líkindum hefur gegnt hlutverki einangrunar.
Frumstæðar fjaðrir greinast
Á næsta þróunarstigi verður frumdúnninn að frumstæðum fjöðrum sem minna einna helst á fjaðrir fugla sem við þekkjum í dag, án þess þó að vera ætlaðar fyrir loftstreymi. Frumstæð fjöðrin greinist í sífellt smærri greinar út frá fjaðurstafnum.
Lögun fjaðra lyftir fuglum
Síðasta þrepið í þróun fjaðrarinnar er fólgið í kræklóttum greiningunum, öðru nafni fönum sem krækjast hver í aðra og mynda þétta formgerð. Flugfjaðrir á fuglum nútímans eru ósamhverfar sem gerir það að verkum að loftið er leitt hraðar upp yfir vænginn en undir hann sem stuðlar að uppdrifi.
Þegar vísindamenn á ýmsum sviðum urðu svo sammála um að fuglar ættu rætur að rekja til risaeðla hófust fyrir alvöru rannsóknir á uppruna fjaðra.
Ýmsir merkir steingervingar hafa fundist á undanförnum tveimur áratugum og hafa m.a. fundist forsögulegir fuglar og minnst fimm ólíkar tegundir ráneðla með fjölbreytilegar fjaðrir og hnúska sem líktust fjöðrum.
Uppgötvanir þessar má ekki hvað síst þakka bættu stjórnmálaástandi víðs vegar um heim, m.a. opnum landamærum að Kína og steingerðum gersemum þar í landi; ungum og atorkusömum steingervingafræðingum, svo og nýrri tækni á borð við LSF-geislun, þar sem leysigeisli getur lýst upp mjúk efni, í líkingu við skinn og fjaðrir sem að öðrum kosti væru ósýnileg.
Þessar uppgötvanir hafa skipt sköpum, því fjaðrir segja ekki einvörðungu til um skyldleika dýranna og varpa fyrir vikið ljósi á þróunarsögu þeirra, heldur veita þær jafnframt vitneskju um lífeðlisfræði, lifnaðarhætti og atferli dýranna.
Loðinn fiðurhamur, líkt og sinosauropteryx hafði yfir að ráða, kann t.d. að hafa gert það að verkum að dýrið gat haldið stöðugum líkamshita, líkt og við á um fugla og spendýr.
Sundurgreining á litarefni sortukorna í fjöðrunum hefur enn fremur leitt í ljós að sinosauropteryx var rauð á lit með ljósar rendur á halanum. Litasamsetningin er í góðu samræmi við að dýrið hafi lifað í óvörðu umhverfi, því dökkur hryggurinn og hvítur kviðurinn hafi myndað mynstur sem minnir á skuggamyndanir.
Þau dýr sem lifa á opnu landi eru með greinilegan litarmun milli dökks og ljóss litar ofarlega á kviðnum, á meðan dýr sem lifa í skógi eru með ógreinilegri litarmun neðar á líkamanum.
Litarmunurinn efst á kviðnum þurrkar út hluta af skugganum sem myndast þegar sól skín á líkamann, með þeim afleiðingum að dýrin virðast vera „flöt“. Með því móti eiga rándýr erfiðara með að koma auga á sinosauropteryx í landslaginu.
Fjórða ráneðlan tilheyrði sömu kvísl ráneðla, coelurosauria en til þeirrar kvíslar heyra bæði grameðlan (T. rex) og litlu þokkafullu kjötæturnar sem kallaðar hafa verið snareðlur og við þekkjum úr kvikmyndunum um Júragarðinn.
Allt virðist fyrir vikið benda til þess að fjaðrirnar hafi þróast í undirtegund ráneðlanna og þegar vísindamenn loks töldu sig hafa komist að raun um hvar fjaðrir ættu uppruna sinn kom fram á sjónarsviðið lítil vera með horn og kollvarpaði öllum kenningum þeirra.
Jurtaætur ýfðu broddana
Steingervingur jurtaætunnar psittacosaurus leiddi í ljós að broddar stóðu út úr halanum. Broddarnir voru holir að innan og minntu einna helst á frumstæðar fjaðrir.
Psittacosaurus tilheyrir flokki hyrndra risaeðla en til þess flokks heyrir einnig nashyrningseðlan (triceratops) og er langur vegur frá þessum dýrum annars vegar og ráneðlum hins vegar á ættartré risaeðlanna.
Árið 2014 fannst enn ein jurtaætan sem einnig var búin eins konar húðútvexti en um er að ræða kulindadromeus sem fannst í Kulinda í austurhluta Síberíu. Eðla þessi var á stærð við meðalstóran hund, einstaklega vel varðveitt og klædd í sérstaka „yfirhöfn“.
Kulindadromeus er elsta þekkta risaeðlan með fjaðurlíkan vöxt. Litli grasbíturinn lifði í fyrir u.þ.b. 168 milljónum ára.
Yfirhöfn þessi samanstóð af þrenns konar hreistri, feldi úr snöggum hárum, svo og knippum af trefjasamsetningum sem minntu einna helst á litlar, upprúllaðar reimar.
Þá var kulindadromeus enn fremur með staka brodda sem líktust hárum, á höfðinu, hálsinum og búknum, á meðan framlimirnir og lærin voru þakin litlum knippum sem samanstóðu af fimm til sjö broddum sem minntu á fjaðrir. Það síðastgreinda vakti verulega athygli, því álíka hár höfðu áður sést á ráneðlum, svo og fuglum nútímans.
Fundarstaðurinn er talinn vera u.þ.b. 168 milljón ára gamall og fyrir vikið telst kulindadromeus vera elsta risaeðlan sem fundist hefur með það sem líkist fjöðrum.
Ýmis vísindamenn álitu fund þennan vera til marks um að sameiginlegur forfaðir allra risaeðla hefði verið fiðraður því þeir töldu ólíklegt að svo fullkominn fiðurhamur, eins og sást á kjötætunni sinosauropteryx og jurtaætunni kulindadromeus, hefði þróast með einangruðum hætti á þessum tveimur helstu kvíslum af risaeðlum.
Tilgáta þessi stenst reyndar ekki rök, einkum fyrir þær sakir að afar sjaldan finnast fjaðrir meðal jurtaæta úr hópi risaeðla. Sumir vísindamenn hallast frekar að því að fjaðrir hafi myndast nokkrum sinnum með tilviljanakenndum hætti á ólíkum greinum ættartrésins.
Flugeðlur voru með ferns konar fjaðrir
Í leit þeirra að sameiginlegum forföður rýndu vísindamennirnir í flugeðlurnar, pterosaur sem lifðu á sama tíma og risaeðlur fyrir 230 til 66 milljón árum. Áhuga vekur að flugeðlur tilheyra algerlega aðskilinni grein ættartrésins sem á rætur að rekja beina leið aftur til sameiginlegs ættföður.
Flugeðlur hafa jafnvel verið þaktar allt að ferns konar fjöðrum
Hópur vísindamanna frá ýmsum löndum, undir stjórn steingervingafræðingsins Mike Benton, rannsökuðu tvo 160 milljón ára gamla steingervinga flugeðla frá Kína og fundu mynstur sem álitið er stafa frá fjórum ólíkum gerðum af fjöðrum á höfði, hálsi, búk og vængjum.
„Mynstrin eru þau sömu og sjást á fjöðrum fugla og risaeðla sem gerir það að verkum að við getum tímasett uppruna fjaðra frá því að vera 160 milljón ára gamlar aftur þannig að þær hafi þróast fyrir 240 milljón árum“.
Steingervingafræðingurinn Mike Benton.
Tímasetningin er í samræmi við aldauðann í lok perm-tímabilsins fyrir einum 252 milljón árum en um var að ræða þriðju og alverstu tortíminguna í sögu jarðar, þegar um 95 hundraðshlutar allra dýra og plantna drápust eftir gífurleg eldgos.
Þegar svo líf kviknaði á nýjan leik eftir þetta, gerðist það með öðrum hætti en áður. Fyrstu risaeðlurnar og spendýrin þróuðust, eðlur breyttust í sjávardýr ellegar fengu vængi og hófu sig til flugs.
Vísindamenn að baki rannsókninni eru þeirrar skoðunar að sameiginlegur forfaðir risaeðla og flugeðla hafi þróað með sér frumfjaðrir sem einangrun fyrir 240 milljón árum en að önnur hlutverk fjaðrarinnar hafi svo þróast langtum seinna.
Þeir byggja álit sitt á erfðafræðirannsóknum sem sýna fram á sameiginlegan uppruna hreisturs, hárs og fjaðra, þvert á tegundir.
Þetta táknar að allar gerðir risaeðla hafi átt kost á því að þróa með sér fjaðrir en að umhverfisþættir og stökkbreytingar hafi ráðið því hvort og með hvaða hætti erfðavísarnir hegðuðu sér. Sum dýranna fengu aldrei fjaðrir, á meðan önnur voru fiðruð um tíma og glötuðu síðan fjöðrunum.
„Fjaðrir“ voru steingerðar trefjar í hnignun
Þessi túlkun hefur þó ekki hlotið náð meðal annarra vísindamanna en Mikes Bentons og starfsfélaga hans, því bæði steingervingafræðingar og ofurtölvur eru algerlega ósammála niðurstöðum vísindamannateymisins.
Dr. David Unwin, við háskólann í Leicester, er sérfræðingur á sviði flugeðla og hafnar því alfarið að vængir flugeðlanna hafi verið þaktir hvers konar fjöðrum.
Hann bendir á að fundist hafi einar 30 flugeðlur, sumar hverjar með vel varðveitta vængi en að þeir séu allir berir og sléttir. Á hinn bóginn innihaldi vænghimnan formgerðir sem auðvelt sé að lesa skakkt í þegar þær eru í niðurbrotnu ásigkomulagi, því þær geti virst líkjast dúni þegar þær eru skoðaðar í smásjá.
Við vitum að það eru trefjar í vængjum. Þegar þær brotna niður breytast þær og eyðast og líta því út eins og dúnkenndar greinar.
David Unwin, flugeðlasérfræðingur
Skortur á þekkingu á niðurbrotsferli veldur umtalsverðum vanda, ef marka má David Unwin, því þetta gerir steingervingafræðingum erfitt fyrir þegar þeir reyna að bera kennsl á formgerðir í steingervingunum sem bæði hafa þjappast saman og hitnað í milljónir ára, djúpt í jörðu.
Paul Barrett, prófessor og sérfræðingur á sviði þróunarsögu risaeðla við náttúruminjasafnið í London, hefur komið fram á sjónarsviðið með nýja bók um „uppruna fjaðrarinnar“.
Barrett, ásamt tveimur öðrum vísindamönnum, hefur unnið með líkindi og tölvulíkön og með því móti hefur hann reynt að reikna sig aftur á bak til fyrstu fjaðrarinnar.
Vísindamennirnir fóðruðu tölvulíkönin með gagnamagni sem tók til 77 risaeðlutegunda sem allar höfðu fundist með einhvers konar varðveitta húð með ummerkjum um hreistur, hár eða það sem líkst gat fjöður.
Risaeðlunum var fundinn staður á ættartré og á þeim stöðum trésins sem engir steingervingar höfðu fundist settu fræðimennirnir inn ímyndaða steingervinga. Á einu líkaninu settu þeir inn flugeðlu með frumfjöður og á öðrum stað var komið fyrir ófiðraðri flugeðlu.
Ættartré risaeðlanna þarfnast endurskoðunar
Stuðst var við tölvulíkan, byggt á 77 steingervingum risaeðla með hár, fjaðrir eða hreistur, til að reikna aftur á bak líkurnar á að fiðraður forfaðir hefði verið til. Líkanið leiddi ekki einungis í ljós að forfaðirinn hefði sennilega verið útbúinn hreistri, heldur jafnframt það að allt ættartré risaeðlanna þarfnast endurskoðunar.
1. Ættfaðir risaeðlanna hefur tæplega verið fiðraður
Flugeðlur (pterosaur) tilheyra sérstakri grein í ættartrénu og fyrir vikið má telja að þær séu skyldari sameiginlegum ættföður risaeðlanna en aðrar tegundir. Tölvueftirlíkingin byggði á flugeðlu með eins konar fiðurham um allan líkamann.
Niðurstaðan varð sú að þrátt fyrir fiðraða flugeðlu sem rekja mætti beint til ættföðurins, væru miklu meiri líkur á að sameiginlegur ættfaðir hefði verið hreistraður en fiðraður.
2. Fiðraðar risaeðlur komu oft fram
Tölvulíkanið var jafnframt fóðrað með upplýsingum um þær fáu tegundir skjald- og horneðla sem m.a. nashyrningseðlur og kambeðlur tilheyra og voru með eins konar fjaðurvöxt á líkamanum.
Um er að ræða m.a. páeðlur og kulinda-hlaupara sem voru með húðvöxt sem líktist engan veginn öðrum tegundum fjaðra. Tölvulíkanið gefur til kynna að fjaðurvöxtur hafi annað hvort komið fram á sjónarsviðið oftsinnis, óháð öðrum tilvikum eða að hyrndar risaeðlur í raun tilheyri ráneðlunum í ættartrénu.
3. Langhálsar ekki það sama og grameðlur
Eðlungar er flokkur risaeðla sem tveir undirflokkar heyra undir, án þess þó að þeir líkist hvor öðrum sérlega mikið: ráneðlur sem einnig fuglar tilheyra, svo og hálslangar plöntuætur, grasæturnar. Þeim var upprunalega raðað á sama stað í ættartrénu sökum mjaðmagerðarinnar sem margt er líkt með innan undirflokkanna tveggja. Vísindamenn hafa síðan fundið ýmislegt ólíkt með þessum undirflokkum.
Samkvæmt tölvulíkaninu ætti að flokka graseðlur sem sérstaka tegund, m.a. sökum þess að fundist hafa ýmsir fjaðurlíkir húðvextir hjá ráneðlunum en engir hjá graseðlunum.
Ættartré risaeðlanna þarfnast endurskoðunar
Stuðst var við tölvulíkan, byggt á 77 steingervingum risaeðla með hár, fjaðrir eða hreistur, til að reikna aftur á bak líkurnar á að fiðraður forfaðir hefði verið til. Líkanið leiddi ekki einungis í ljós að forfaðirinn hefði sennilega verið útbúinn hreistri, heldur jafnframt það að allt ættartré risaeðlanna þarfnast endurskoðunar.
1. Ættfaðir risaeðlanna hefur tæplega verið fiðraður
Flugeðlur (pterosaur) tilheyra sérstakri grein í ættartrénu og fyrir vikið má telja að þær séu skyldari sameiginlegum ættföður risaeðlanna en aðrar tegundir. Tölvueftirlíkingin byggði á flugeðlu með eins konar fiðurham um allan líkamann.
Niðurstaðan varð sú að þrátt fyrir fiðraða flugeðlu sem rekja mætti beint til ættföðurins, væru miklu meiri líkur á að sameiginlegur ættfaðir hefði verið hreistraður en fiðraður.
2. Fiðraðar risaeðlur komu oft fram
Tölvulíkanið var jafnframt fóðrað með upplýsingum um þær fáu tegundir skjald- og horneðla sem m.a. nashyrningseðlur og kambeðlur tilheyra og voru með eins konar fjaðurvöxt á líkamanum.
Um er að ræða m.a. páeðlur og kulinda-hlaupara sem voru með húðvöxt sem líktist engan veginn öðrum tegundum fjaðra. Tölvulíkanið gefur til kynna að fjaðurvöxtur hafi annað hvort komið fram á sjónarsviðið oftsinnis, óháð öðrum tilvikum eða að hyrndar risaeðlur í raun tilheyri ráneðlunum í ættartrénu.
3. Langhálsar ekki það sama og grameðlur
Eðlungar er flokkur risaeðla sem tveir undirflokkar heyra undir, án þess þó að þeir líkist hvor öðrum sérlega mikið: ráneðlur sem einnig fuglar tilheyra, svo og hálslangar plöntuætur, grasæturnar.
Þeim var upprunalega raðað á sama stað í ættartrénu sökum mjaðmagerðarinnar sem margt er líkt með innan undirflokkanna tveggja. Vísindamenn hafa síðan fundið ýmislegt ólíkt með þessum undirflokkum.
Samkvæmt tölvulíkaninu ætti að flokka graseðlur sem sérstaka tegund, m.a. sökum þess að fundist hafa ýmsir fjaðurlíkir húðvextir hjá ráneðlunum en engir hjá graseðlunum.
Með þessu móti tókst þeim að endurmynda ólíkar þróunarlínur og að reikna út líkurnar á að einstaka línur væru í samræmi við raunveruleikann.
Líkönin leiddu í ljós að litlar líkur væru á að sameiginlegur forfaðir risaeðla og flugeðla hefði verið útbúinn fjöðrum.
„Ég hafði gert mér í hugarlund að ef við útbyggjum líkan sem byggði á flugeðlu með frumfjöðrum myndi það leiða til þess að allar risaeðlur væru fiðraðar. Það kom mér verulega á óvart að sú var ekki raunin,“ segir Paul Barrett.
Fiðraða púslið vantar
Niðurstöður tölvulíkananna leiða í ljós að þrátt fyrir allt það sem fundist hefur á undanförnum árum skortir enn mikilvægar upplýsingar. Og þrátt fyrir að rannsóknin hafni því að til hafi verið fiðraður sameignlegur forfaðir, þá telur Paul Barrett að myndin geti hæglega breyst.
„Við erum enn opin fyrir því að fjaðrir kunni að hafa skipt sköpum fyrir sameiginlega sögu risaeðlanna. Ef við nú bara fyndum eina eða tvær af fyrstu risaeðlunum, ellegar ættingja þeirra sem útbúin hefðu verið fjöðrum, þá myndu forsendur okkar breytast verulega“, segir hann.
Þrennt sem fundist hefur breytti útliti risaeðlanna
Fyrri hugmyndir um sléttar og hreistraðar risaeðlur, líkt og sýndar voru í kvikmyndunum um Júragarðinn, eru á fallanda fæti. Nú ráða ríkjum hugmyndir um að eðlurnar hafi verið með fiðurham.
Grameðlan (tyrannosaurus rex) var dúni þakinn drápari
Vísindamenn töldu áður fyrr að stórar risaeðlur hefðu ekki skartað fjöðrum, þar sem stór dýr eiga auðveldar með að halda á sér hita en þau minni en árið 2012 fannst hins vegar í Kína níu metra langur fyrirrennari grameðlunnar, yútyrannus sem lifði á jörðinni fyrir 125 milljón árum eða þar um bil. Þessi risavaxna ráneðla var með frumstæðar, dúnkenndar fjaðrir og þó svo að engar fjaðramyndanir hafi fundist á grameðlunni, bendir ýmislegt til að hún hafi að sama skapi verið með einhvers konar fjaðrir.
Afturlimir snareðlunnar voru þaktir fjöðrum
Þó svo að fjaðrir geti ekki myndast úr hreistri, þá er hið öndverða mæta vel hugsanlegt. Litlar ráneðlur eru oft sýndar með hreistraða fætur en hænur sem eru nánustu núlifandi ættingja risaeðla, eru með tvenns konar hreistur á fótunum: lítið hringlaga skriðdýrshreistur, svo og grófgerðara hreistur sem hefur þróast úr fjöðrum. Steingervingar frá Liaoning í Kína gefa til kynna að m.a. snareðlurnar hafi verið með fiðraðar tær.
Nashyrningseðlur voru með stutta, stinna brodda
Steingervingafræðingar hafa löngum verið sannfærðir um að stóra, hyrnda nashyrningseðlan hafi verið hár- og fiðurlaus en þar sem hún er skyld hinni ívið minni páeðlu sem var með langa, stinna brodda á halanum, þá eru þeir ekki eins vissir lengur. Far af húð páeðlunnar gefur til kynna að hún kunni að hafa verið með svipaða brodda. Vísindamenn eru þó engan veginn vissir um að broddarnir tengist fjöðrum á neinn hátt.
Ættfaðir risaeðlanna leit fyrst dagsins ljós á trías-tímabilinu fyrir 251-200 milljón árum og ef marka má steingervingafræðinginn Bent Lindow við náttúrusögusafnið í Kaupmannahöfn myndi það flokkast undir einskæra heppni ef svo gömul fjöður fyndist.
„Það verður erfiðleikum háð að finna svo gamla steingervinga, því það þurfa að vera alveg einstakar aðstæður til staðar eigi mjúkur vefur að varðveitast. Hins vegar er ekki algerlega útilokað að slíkt eigi eftir að finnast og við getum byrjað á því að stunda markvissa leit“, segir hann.
Nánustu ættingjar fugla, risaeðla og flugeðla eru krókódílar sem allir tilheyra undirflokknum erkieðlur. Fyrstu krókódílarnir litu dagsins ljós á trías-tímabilinu og þó svo að þeir séu ekki fiðraðir þá er eiginleikinn til að þróa með sér fjaðrir fyrir hendi í erfðavísum krókódíla nútímans.
Þannig að hugsast getur að einhvers staðar í bergi leynist steingerður fjarlægur, fiðraður ættingi krókódíla sem einungis bíður þess að verða uppgötvaður, líkt og við átti um dúneðluna (sinosauropteryx) fyrir 25 árum. Það vantar ekkert nema eina fjöður.