Bandaríski grínistinn Lenny Bruce gjörbylti uppistandinu þegar hann sló eftirminnilega í gegn á bandarískum næturklúbbum upp úr 1960. Þessum New York-búa var ekkert heilagt og hann hikaði ekki við að fjalla um efni á borð við kynþætti, pólitík, trúarbrögð og kynlíf. En nokkuð grófur stíll hans olli því að yfirvöldum var í nöp við hann.
Árið 1961 var Lenny Bruce handtekinn fyrir að nota orðið „cocksucker“ í sýningu á næturklúbbnum Jazz Workshop í San Francisco. Það var í fyrsta sinn sem slíkt orð hafði verið nefnt á bandarísku sviði.
Næstu árin fylgdust óeinkennisklæddir lögreglumenn með Lenny Bruce í hvert sinn sem hann steig á svið. Alls var hann handtekinn sjö sinnum, fimm sinnum fyrir „klámfengni“ og tvisvar fyrir að hafa eiturlyf undir höndum.
Hann var þó lengst af sýknaður fyrir rétti. Í eiturlyfjamálunum höfðu lögreglumenn plantað sönnunargögnunum. En 21. desember 1964 fór á verri veg.
Dómari í New York dæmdi Lenny Bruce til fimm mánaða fangelsisvistar þar sem hann var hafður innan um smákrimma og geðsjúka.
Á sjöunda áratugnum var Lenny Bruce handtekinn fimm sinnum siðferðislega vanvirðandi framkomu á sýningum sínum.
Afbrot uppistandarans í þessu tilviki var að hafa sagt að Eleanor Roosevelt, fyrrum forsetafrú, hefði „falleg brjóst“.
„Ef ég verð handtekinn í New York, þar sem mest frelsi ríkir í heiminum, þýðir það endalok ferilsins,“ sagði hann nokkrum árum áður en hann var handtekinn. Spá hans rættist og hann náði sér aldrei á strik eftir dóminn. Mun færri klúbbar kærðu sig um að ráða svo umdeildan mann en auk þess fór heróínnotkun hans vaxandi.
Lenny Bruce lést af of stórum skammti á heimili sínu í Hollywood Hills, aðeins fertugur að aldri. En allt til enda var hann staðfastur á þeirri skoðun að það væri ekki hann sem eitthvað væri að, heldur heimurinn:
„Ég er enginn grínisti. Og ég er ekki sjúkur á geði. Það er heimurinn sem er veikur en ég er læknirinn. Ég er skurðlæknir með skurðhníf til að fjarlægja hin fölsku gildi.“