Lifandi Saga

Fjöldamorðin í Katyn: Stalín hugðist brjóta Pólverja á bak aftur

Undir miðbik seinni heimsstyrjaldar fundu þýskir hermenn fjöldagröf. Skammt fyrir utan sovéska bæinn Katyn lágu grafnar þúsundir Pólverja, með hendur bundnar fyrir aftan bak og skotsár á hnakka. Fundur þessi hefði getað valdið sundrungu meðal bandamanna og aukið sigurvonir Hitlers.

BIRT: 20/03/2024

Adam Solski var stríðsfangi. Hann var pólskur liðsforingi og hafði dúsað í sovéskum fangabúðum allt frá því í september 1939, þar sem hann hélt dagbók í laumi. Hinn 9. apríl 1940 ritaði Adam í dagbók sína í hinsta sinn:

 

„Kl. 5.00. Dagurinn byrjaði undarlega. Brottför í sjúkrabíl fangelsisins (skelfilegt). Þeir fóru með okkur á afvikinn stað úti í skógi, þar sem leitað var gaumgæfilega á okkur. Þeir tóku af mér úrið sem sýndi að klukkan var 6.30. Þeir heimtuðu jafnframt að fá giftingarhringinn minn. Þeir tóku einnig af mér rúblur, belti og vasahníf“.

 

Staðurinn sem Adam Solski var kominn til kallaðist Katyn-skógurinn en hann var að finna í 400 km fjarlægð vestur af Moskvu. Enginn átti eftir að sjá Adam á lífi eftir þetta. Liðsforinginn var tekinn af lífi með skoti í hnakka, ásamt 11.000 öðrum mönnum, í fjöldamorði sem heyrir til myrkustu kafla sögunnar.

 

Þegar fregnirnar bárust til Lundúna jókst vantraustið í garð Stalíns og minnstu munaði að tíðindin eyðilegðu samstarf bandamanna um að sigrast á Hitler.

 

Pólverjar sendir í fangabúðir

Í september árið 1939 var ráðist inn í Pólland – fyrst réðust nasistar inn í landið úr vestri og síðan komu Sovétmenn úr austri.

Hinn 45 ára gamli Adam Solski var liðsforingi í pólsku 14. fótgönguliðadeild Póllands. Hann var myrtur 9. apríl 1940 í Katyn-skóginum. Bróðir hans Kazimierz Solski var einnig skotinn.

Pólverjar öttu kappi við ofurefli í fimm vikur en þar kom þó að Pólland neyddist til að gefast upp. Stórveldin tvö skiptu svo Póllandi á milli sín í samræmi við það sem kallaður hefur verið Molotov-Ribbentrop-sáttmálinn en um var að ræða leynilegt samkomulag sem utanríkisráðherrar ríkjanna tveggja höfðu gert með sér.

 

Allir pólskir liðsforingjar sem teknir voru til fanga af Rauða hernum voru sendir í austurátt haustið 1939. Þeim var komið fyrir í fangabúðum í Sovétríkjunum þar sem þeir voru yfirheyrðir svo mánuðum skipti og framburður þeirra svo sannreyndur hjá leyniþjónustu Stalíns, NKVD.

 

Rússarnir reyndu að aðskilja svokallaða gagnbyltingarmenn frá nothæfum yfirmönnum sem gætu gagnast þeim síðar meir í því að breyta Póllandi í kommúnistaríki.

 

Liðsforingjum var haldið í sérlegum fangabúðum en stjórnmálamönnum, embættismönnum og öðrum menntamönnum var haldið innilokuðum á öðrum stöðum. Aðstæðurnar voru hreint út sagt skelfilegar í fangabúðunum sem voru níu talsins. Vikum saman voru fangarnir sveltir, þeim ógnað og þeir pyntaðir í því skyni að brjóta þá niður og fá þá til að viðurkenna hvaða tilfinningar þeir í raun báru til kommúnismans.

Sjónarvottur lifði af í forgarði helvítis

Hitler og Stalín skiptu með sér Póllandi

Þegar búið var að bæla niður alla mótspyrnu setti leyniþjónusta Stalíns NKVD upp búðir til að flokka pólsku stríðsfangana. Góðir kommúnistar fengu að lifa en hinir voru drepnir.

Einn fárra sjónarvotta sem lifðu af var fertugur liðsforingi að nafni Stanisław Swiaiewicz sem ekið hafði verið með alla leið til Katyn, þegar hann bjargaðist líkt og fyrir kraftaverk.

Stanisław Swianiewicz flúði af hólmi

Stanisław tók þátt í bardaganum við Krasnobród hinn 23. september 1939, þar sem pólskt riddaralið stökkti á brott þýskri hersveit. Skömmu síðar voru þeir raunar umkringdir og urðu að gefast upp. Stanisław reyndi að flýja yfir til Ungverjalands ásamt öðrum hermönnum en þar tóku Rússar hann höndum.

Sex mánaða yfirheyrslur

Rússarnir sendu Stanisław til stærstu yfirheyrslubúðanna í Kozelsk en þær var að finna 250 km suðvestur af Moskvu. Þar var hann yfirheyrður í sex mánuði.

Dauðinn beið í Katyn

Í apríl 1940 fluttu NKVD-sveitirnar fangana svo frá Kozelsk-búðunum í lest til Katyn. Stanisław gægðist í gegnum rifur á dýraflutningalestinni og sá að fangarnir voru leiddir yfir í rútur sem óku með þá út í skóginn sem fjöldagrafirnar síðar meir fundust í. Stanisław lifði fyrir þær sakir einar að hann var hagfræðiprófessor og NKVD ákvað á síðustu stundu að hann gæti reynst þeim gagnlegur.

Margir fanganna fóru nú að gera sér grein fyrir að þeir ættu aldrei eftir að berja föðurlandið augum aftur, né heldur ástvini sína. Aðrir héldu í vonina þar til yfir lauk. Eitt helsta yfirheyrslufangelsið kallaðist Kozelsk en það var að finna 250 km suðvestur af Moskvu og einn fanganna þar var höfuðsmaður að nafni Kazimierz Szczekowski.

 

Leynileg dagbók höfuðsmannsins sýnir hvernig fangarnir sveifluðust milli vonar og örvæntingar:

 

„16. mars. Fangelsisyfirvöld eru önnum kafin við að ganga frá skjölunum um okkur. Eitthvað er greinilega í aðsigi en enginn veit hvað“.

 

„19. mars. Spurst hefur að hugsanlega standi til að senda okkur til hlutlausra landa. Það væri þá eitthvað nýtt!“

 

„1. apríl. Nú dregur til tíðinda. Í dag áttu sér stað fyrstu flutningarnir. Fluttir voru hundrað menn sem gegnt höfðu mismunandi stöðum, á ýmsum aldri og með ólíkan bakgrunn. Hver áfangastaðurinn er, veit enginn“.

 

Þegar Pólverjarnir spurðu hvert ætlunin væri að fara með þá, lugu NKVD-foringjarnir og tjáðu þeim að ætlunin væri að flytja þá í vesturátt í fangabúðir sem væru nær fjölskyldum fanganna og að ætlunin væri síðan að sleppa þeim lausum.

Líkt og sýnt var í kvikmyndinni „Katyn“ var ekið með pólsku fanga undir ströngu eftirliti í dýraflutningavögnum yfir að aftökustað þeirra.

Lygarnar hrifu. Allan aprílmánuð voru reifir og glaðir fangar fluttir á brott í flutningabifreiðum. Flestir hlökkuðu þeir til að hitta ástvini sína og að njóta frelsis á nýjan leik.

 

Lygar Stalíns afhjúpaðar

Gleðin átti þó fljótt eftir að breytast þegar flutningabílarnir staðnæmdust við næstu lestarstöð. Þar beið mannanna ekki venjuleg eimreið með farþegavögnum, heldur dýraflutningavögnum, þar sem hlerum hafði verið skotið fyrir alla glugga til þess að fangarnir gætu ekki horft út.

 

Einstaka bjartsýnismenn héldu fast í vonina um að nú stæði til að veita þeim frelsi en margir fylltust hins vegar grunsemdum. Svartsýnismennirnir reyndust hafa rétt fyrir sér. NKVD-sveitirnar myrtu í apríl og maí alls 21.857 Pólverja í yfirheyrslubúðunum.

 

Flestir þeirra mættu skapara sínum í Katyn-skóginum, 25 km vestur af Smolensk, rétt við núverandi landamæri að Hvíta-Rússlandi. Adam Solski og Kazimierz Szczekowski voru í hópi hinna líflátnu.

 

Stalín og handbendi hans héldu sig vera að fremja glæpi sem heimurinn ætti aldrei eftir að heyra neitt um. Þar höfðu þeir hins vegar rangt fyrir sér.

Pólskir stríðsfangar voru sendir fótgangandi í fangabúðir, þar sem óbreyttir hermenn voru síðan aðskildir frá yfirmönnunum.

Stalín óttaðist uppreisn Pólverja

Sovétmenn tóku alls 240.000 Pólverja til fanga eftir hernám Póllands árið 1939. Óbreyttir hermenn voru fljótlega afvopnaðir og sendir til síns heima en yfirmannanna beið skelfileg meðferð.

 

Einræðisherra Sovétríkjanna, Jósef Stalín, óttaðist að Pólverjar hygðust vinna gegn kommúnistaeinræði hans. Hann taldi sér stafa mikla hættu af menntamönnum úr hópi Pólverja.

 

Liðsforingjar, stjórnmálamenn og háskólamenntað fólk hafði getu til að stýra uppreisnum í þeim hluta Póllands sem Sovétmenn höfðu hernumið. Þessari hættu varð hann að afstýra.

 

Á hinn bóginn höfðu kommúnistar þörf fyrir vel menntuð handbendi ef takast ætti að halda pólsku þjóðinni í járngreipum. Hverjir væru viljugir til að styðja kommúnismann og hverjir væru líklegir til að berjast gegn honum, slíkt gat einungis komið fram í yfirheyrslum og pyntingum.

 

Alls 40.000 pólskir liðsforingjar, svo og borgarar sem gegndu mikilvægum embættum, voru fyrir bragðið sendir í yfirheyrslubúðir NKVD-leyniþjónustunnar í Sovétríkjunum. Örlög þeirra sem ekki vildu styðja við kommúnismann voru þar með ráðin.

Leyndarmálið um Katyn kvisaðist út sumarið 1941 þegar Hitler rauf sáttmála sem hann hafði gert við Stalín um að ráðast ekki inn í Sovétríkin. Þýskar sveitir réðust inn í Sovétríkin og þvinguðu Rauða herinn aftur til Moskvu. Katyn-skógurinn laut þannig yfirráðum Þjóðverja en það var þó ekki fyrr en vorið 1943 sem þeir uppgötvuðu fjöldagrafirnar.

 

Hinn 9. apríl 1943 ritaði áróðursráðherra Hitlers, Jósef Goebbels, sigri hrósandi í dagbók sína:

 

„Pólskar fjöldagrafir fundust í grennd við Smolensk. Bolsévikarnir hafa einfaldlega skotið og því næst grafið eina 10.000 pólska fanga í fjöldagröfum. Þar á meðal eru óbreyttir fangar, biskupar, menntamenn, listamenn o.fl.“

 

Goebbels hafði rétt fyrir sér, því auk þess að myrða liðsforingja höfðu Rússarnir m.a. einnig líflátið pólska lögmenn. Í gröfunum var m.a að finna 20 prófessora, svo og aðra vel menntaða Pólverja. Margir fréttamenn höfðu jafnframt verið teknir af lífi, svo og einn prins.

 

Áróðursráðherrann tók fjöldagröfunum fagnandi. Nú hlaut umheimurinn að gera sér grein fyrir að nasistar börðust réttlátlega fyrir því að losa Evrópu undan ánauð bolsévika, hugsaði Goebbels með sér.

Goebbels áróðursráðherra var þekktur fyrir að hylma yfir glæpi nasista og því trúðu fáir fréttum hans um fjöldamorðin í Katyn.

„Ég sá til þess að hlutlausir fréttamenn gætu barið fjöldagrafirnar augum. Ég lét senda pólska menntamenn á staðinn til þess að þeir sjálfir gætu gert sér grein fyrir hvað biði ef óskir þeirra um að Þjóðverjar lytu í lægra haldi fyrir bolsévikum skyldu rætast“, skrifaði Goebbels í dagbók sína.

 

Áróðursstríðið hófst þann 13. apríl þegar opinbera útvarpsstöðin í Berlín greindi frá fjöldagröfunum í Katyn. Tveimur dögum síðar svaraði útvarpsstöðin í Moskvu ásökununum á þennan veg:

 

„Undanfarna daga hafa lygarar á vegum Goebbels dreift illkvittnislegum sögusögnum í þá veru að sovésk yfirvöld hafi framið fjöldamorð á pólskum liðsforingjum vorið 1940“.

 

Moskva skellir skuldinni á Hitler

Rússarnir dreifðu þess í stað sinni eigin útgáfu af því hvað gerst hefði. Opinbera sovéska skýringin var sú að Pólverjarnir hefðu enn verið á lífi árið 1941. Stríðfangarnir hefðu verið að leggja vegi í grennd við Smolensk þegar þýskar hersveitir hafi umkringt þá. Þjóðverjarnir hafi síðan tekið hvern og einn einasta Pólverja af lífi.

Fjöldagrafir voru þaktar sönnunargögnum

Engir sjónarvottar höfðu beinlínis orðið vitni að því þegar sovéskir hermenn tóku Pólverjana af lífi en allt það sem fannst í fjöldagröfunum benti sterklega til þess að handbendi Stalíns hefðu staðið fyrir fjöldamorðunum.

Sönnunargagn 1

Pólverjar sem Rússar töldu sig geta haft gagn af skráðu hjá sér í hvaða röð dauðadæmdir landar þeirra yfirgáfu yfirheyrslubúðirnar. Í fjöldagröfunum lágu þeir Pólverjar neðst sem NKVD-sveitirnar fyrst höfðu ekið á brott með.

Sönnunargagn 2

Á líkunum fundust engin bréf, dagbækur eða dagblöð yngri en frá vorinu 1940. Aftökurnar hlutu fyrir vikið að hafa átt sér stað á meðan liðsforingjarnir voru í varðhaldi Sovétmanna. Eitt líkanna reyndist vera af höfuðsmanninum Adam Solski. Leynileg dagbók höfuðsmannsins fannst í einkennisbúningi hans.

Sönnunargagn 3

Óbreyttir rússneskir borgarar greindu frá því að fangaflutningalest hefði komið til skógarins við Katyn vorið 1940. Síðan hefðu heyrst skothvellir og öskur. Enginn hafði hins vegar orðið var við neina vegavinnu sem Sovétmenn staðhæfðu að fangarnir ættu að starfa við á svæðinu.

Sönnunargagn 4

Líkin voru klædd nýjum stígvélum og vetrarfrökkum sem virtust vera ónotaðir. Hefðu Pólverjarnir lagt stund á erfiðisvinnu hefði verið sýnilegt slit á fatnaði þeirra.

Goebbels vissi að þetta var ekki satt og lét nú þýska herinn finna nöfn eins margra fórnarlamba og frekast væri unnt. Brátt varð ljóst að illvirkjarnir hefðu talið að líkin ættu aldrei eftir að finnast.

 

Mörg fórnarlambanna voru enn með vegabréf sín í vasanum, svo auðvelt reyndist að bera kennsl á þau. Þá kom ýmislegt einnig í ljós sem gaf sterklega til kynna að mennirnir hefðu ekki lifað lengur en til vors árið 1940.

 

Fjöldamorðin í Katyn voru strax nýtt til að auka vinsældir Þjóðverjanna. Ekið var um allt land með hátalara sem tilkynntu nöfn fórnarlambanna sem seinast höfðu verið borin kennsl á, án þess að huga að því hvort nánustu aðstandendur hefðu verið látnir vita.

 

Pólskum dagblöðum var jafnframt fyrirskipað að birta nöfn hinna látnu. Eiginkona ein sem beið milli vonar og ótta eftir fregnum af manni sínum heyrði t.d. um örlög hans á þennan óvægna máta:

 

„Á leið minni heim frá skólanum keypti ég dagblaðið Kurier. Ég renndi niður eftir listanum og svo sortnaði mér fyrir augum. Ég féll í yfirlið. Við uppgraftarnúmer 2.658 las ég nafn mannsins míns“.

Stanisław Swianiewicz (1899-1997) lifði fjöldamorðin í Katyn af. Eftir tveggja ára fangavist slepptu Rússar honum þegar Þýskaland réðst inn í Sovétríkin. Árið 1942 komst hann í öryggið á Englandi.

Rauði krossinn í Póllandi aftók fyrst í stað að taka þátt í vinnu í tengslum við fjöldagrafirnar í Katyn. Samtökin voru, líkt og mörg önnur góðgerðarsamtök, sannfærð um að þessi meintu fjöldamorð væru ekkert annað en illkvittnisleg tilraun til áróðursstarfsemi af hálfu Þjóðverja.

 

Miskunnarlaus nafnbirting nasistanna gerði það hins vegar að verkum að Rauði krossinn ákvað að senda menn til Katyn. Fámenn pólsk sendinefnd kom saman í skóginum og ákveðið var að hefja daginn með bæn en þá leið yfir prestinn.

 

„Vesalings maðurinn. Hann þoldi ekki óþefinn. Við urðum að hjálpa honum að ranka við sér“, sagði aðalritari Rauða krossins, Kazimierz Skarzinski, í viðtali síðar meir.

 

Þegar fjöldagrafirnar voru opnaðar barst skelfilegur rotnunarfnykur um allt svæðið. Þjóðverjarnir vildu strax að Skarzinski benti á Sovétmenn sem gerendurna en sá hikaði við af ótta við refsiaðgerðir af hálfu pólsku andspyrnuhreyfingarinnar.

Þýskir fjölmiðlar greindu fyrst frá voðaverkunum í Katyn í apríl: „Gröf sem er 28 m löng og 16 m breið hefur fundist. Í henni lágu lík 3.000 pólskra liðsforingja í alls 12 lögum“, kom fram í ríkisútvarpinu í Berlín.

Skarzinski var aftur á móti klókur og undirritaði því einungis skjal sem gaf til kynna að fjöldamorðin hefðu að öllum líkindum verið framin árið 1940, þ.e. á meðan fangarnir hefðu verið í varðhaldi Sovétmanna.

 

Pólskur læknir rakst á látinn starfsbróður

Goebbels hafði fyrir löngu gert sér grein fyrir að mjög fá lönd treystu upplýsingum sem bárust frá Þýskalandi nasismans. Til að auka á trúverðugleikann brá hann því á það ráð að fyrirskipa pólskum réttarfarslæknum að fara til Katyn þar sem þeir gætu stjórnað uppgreftrinum og séð um að bera kennsl á líkin. Sú vinna reyndist á margan hátt torveldari en séð hafði verið fyrir.

 

Stöðugt var verið að trufla hinn 29 ára gamla lækni Marian Wodzinski þegar Þjóðverjunum hugnaðist að sýna nýjum hópum gesta á svæðinu fjöldagrafirnar í því skyni að dreifa óhróðri um glæpi Sovétmanna.

 

Þá hugnaðist að sama skapi Þjóðverjunum að hafa eins mörg lík til sýnis og frekast var unnt þegar gesti bar að garði en þetta athæfi truflaði enn fremur vinnu réttarfarslæknanna.

 

Allt var þetta þó léttvægt miðað við öll þau skipti sem Marian Wodzinski, sér til mikillar skelfingar, uppgötvaði að líkið sem hann var að reyna að bera kennsl á reyndist vera lík náins vinar hans. Alls 300 pólskir læknar reyndust vera grafnir í fjöldagröfunum í Katyn-skóginum.

 

Goebbels sendi jafnframt pólska undirofurstann Stefan Mossor sem dvalið hafði í þýskum fangabúðum, til Katyn svo hann mætti verða vitni að óhugnaðinum. Undirofurstinn ritaði þetta í skýrslu sína:

 

„Hinn 17. apríl kl. 8.30 ókum við til svæðisins sem fjöldagrafirnar var að finna á, í grennd við Katyn-skóg. Líkin voru byrjuð að rotna. Munnar voru opnir, annað hvort af völdum gráts eða kvalaöskurs“.

 

Mossor veitti því enn fremur athygli að öll líkin virtust hafa mátt þola sömu hryllilegu meðferðina:

 

„Göt voru á höfuðkúpum allra eftir byssuskot fremur stórrar skammbyssu“. Hendur sumra höfðu verið bundnar fyrir aftan bak með sterklegri, grannri snúru sem skarst gegnum húð og sinar, alveg inn að beini“.

Pólski liðsforinginn Stefan Mossor (1896-1957) var handtekinn af þýskum hermönnum árið 1939. Tæpum fjórum árum síðar sendi Goebbels hann til Katyn til að sjá hvað Rússar höfðu gert við pólsku fangana.

Á meðan pólsku réttarfarslæknarnir voru að störfum í fnyknum í þessum forgarði helvítis reyndi Goebbels allt hvað hann gat til að fá fleiri erlenda sérfræðinga til Katyn sem borið gætu vitni um þetta skelfilega athæfi kommúnistanna.

 

Áróðursráðherrann gat með engu móti leyft sér að bjóða sérfræðingum frá Englandi, Bandaríkjunum eða öðrum löndum bandamanna sem Þjóðverjar áttu í stríði við.

 

Þess í stað varð hann að láta sér nægja að þvinga þau lönd sem Þjóðverjar höfðu hernumið, svo og bandamenn Hitlers, til að senda lækna til Katyn. Hlutlausar þjóðir á borð við Svíþjóð og Sviss fengu boð um að senda fulltrúa á staðinn. Aðeins Sviss þekktist boðið.

 

Þjóðverjum tókst með naumindum að setja saman lítinn hóp lækna sem m.a. samanstóð af rúmenskum, finnskum og ítölskum meinafræðingum.

 

Ófúsir sérfræðingar mættu á staðinn

Í þessum 12 manna hópi alþjóðlegra sérfræðinga var m.a. að finna 33 ára gamlan danskan lækni, að nafni Helge Tramsen.

 

Líkt og við átti um aðra sérfræðinga í hópnum var honum ætlað að velja lík í fjöldagröfunum, láta verkamennina grafa það upp og bera að borði réttarfarslæknisins.

Einkennisbúningar líkanna báru pólsk axlarmerki.

Með þessu móti rannsakaði Tramsen hvert líkið á fætur öðru, m.a. jarðneskar leifar pólsks miðaldra liðsforingja að nafni Ludwik Szymanski sem augljóslega hafði verið myrtur með skoti í hnakka. Allir starfsbræður hans, ellefu talsins, komust að sömu niðurstöðu hvað eftir annað.

 

Tramsen og félagar hans fundu ýkja mörg lík með sag í munninum. NKVD-foringjarnir höfðu þvingað mennina til að opna munninn og troðið sagi upp í þá til að kæfa öskrin. Þó svo að hendur flestra líkanna hafi verið bundnar fyrir aftan bak með snúru, voru mörg þeirra með ummerki um stálþráð sem bundinn hafði verið um úlnlið þeirra til þess að koma í veg fyrir að mennirnir streittust of mikið á móti og tefðu þannig blóðugan starfa böðlanna.

 

Tramsen og hinir réttarfarslæknarnir höfðu engan áhuga á að gagnast Goebbels og áróðursstarfsemi hans en gátu þó ekki neitað því að öll sönnunargögn gæfu til kynna að Sovétmenn hefðu staðið fyrir fjöldamorðunum.

Helge Tramsen (efst til vinstri með pípu) var einn þeirra sem rannsökuðu fórnarlömb Katyn-fjöldamorðanna.

Meinafræðingur faldi leyndarmál í pólskri höfuðkúpu

Helge Tramsen var ekki aðeins eldklár sérfræðingur í réttarlæknisfræði heldur tilheyrði hann jafnframt dönsku andspyrnuhreyfingunni. Hið síðarnefnda höfðu Þjóðverjar vitaskuld ekki nokkra hugmynd um þegar þeir fóru þess á leit við hann að hann færi til Katyn í apríl 1943. Þar rannsakaði hann hvert líkið á fætur öðru af mestu skyldurækni.

 

Þegar starfi hans lauk í byrjun maí fékk hann, líkt og margir aðrir starfsbræður hans, að hafa sönnunargögn með sér heim. Tramsen valdi í þessu skyni hálfuppþornað höfuð eins fórnarlambanna, með skotgati á.

 

Á leið sinni til Kaupmannahafnar kom hann við í Berlín þar sem önnur frelsishetja lét hann hafa stafla af njósnaljósmyndum af Möhne- og Eder-stíflunum í Ruhr-héraði. Myndirnar faldi maðurinn í höfuðkúpunni frá Katyn.

 

Tramsen tókst að smygla myndunum inn í Danmörku og gat síðan komið þeim alla leið til Englands í gegnum Svíþjóð. Tveimur vikum seinna sprengdu breskir sprengjuhermenn báðar stíflurnar í loft upp.

 

Þegar Gestapo síðar meir komust að raun um hvert hlutverk Tramsens hafði verið í andspyrnuhreyfingunni létu þeir pynta hann á grimmilegan hátt en fyrirskipuðu að hann skyldi engu að síður halda lífi þar sem hann væri mikilvægt vitni um Katyn-fjöldamorðin.

Sérfræðingateymið sendi frá sér stuttorða greinargerð 30. apríl 1943:

 

„Sendinefndin hefur rannsakað fjöldagrafir í Katyn-skógi þar sem pólskir liðsforingjar hvíldu. Dánarorsök allra líkanna er ávallt sú sama, þ.e. skot í hnakka. Bréf, dagbækur, dagblöð og annað sem fundist hefur á líkunum gefur sterklega til kynna að morðin hafi verið framin í mars og apríl árið 1940“.

 

Vorið 1940 var enn heilt ár í að Þjóðverjar réðust inn í Sovétríkin. Þegar þetta gerðist var Katyn-skógurinn í rösklega 600 km fjarlægð frá þeim þýsku hersveitum sem næstar voru.

 

Því hlaut glæpurinn að skrifast á Stalín þó svo að Katyn-sendinefndin orðaði þessa augljósu staðreynd ekki í skýrslu sinni.

 

Skýrslan vakti engu að síður athygli í London þar sem hún ekki hvað síst vakti reiði pólsku útlagastjórnarinnar. Sovéski sendiherrann í Englandi neitaði hneykslaður öllum ásökunum en fæstir lögðu nokkurn trúnað við orð hans.

 

Skýrsla sendinefndarinnar var svo sannfærandi að traust útlagastjórnarinnar til Sovétríkjanna beið verulegan hnekki. Stalín tók ákvörðun um að rjúfa allt samstarf við Pólverja í Lundúnum og setti þess í stað á laggirnar pólska útlagastjórn sem samanstóð af kommúnistum í Moskvu.

Skjöl frá því í stríðinu leiddu í ljós að bæði Churchill (t.h.) og Roosevelt Bandaríkjaforseti (fyrir miðju) vissu að Stalín (t.v.) bar ábyrgð á fjöldamorðunum í Katyn.

Bandamenn hunsuðu glæpinn

Þegar fréttirnar af Katyn-fjöldamorðunum bárust til London sneri pólska útlagastjórnin sér til forsætisráðherra Breta, Winstons Churchills. Viðbrögð hans ollu þeim vonbrigðum.

 

Í London var að finna pólska stjórnmálamenn og liðsforingja sem tekist hafði að komast undan Þjóðverjunum og rauða hernum árið 1939. Nú kröfðust þeir svara við því hvernig vestrænir leiðtogar hygðust bregðast við tíðindunum um að bandamenn þeirra í Sovétríkjunum hefðu drýgt þennan hryllilega glæp.

 

„Bolsévikar geta verið afar vægðarlausir“, viðurkenndi Churchill. Og hann bætti því við að ef atburðirnir gætu skemmt fyrir Þjóðverjum væri það aðeins af hinu góða.

 

Bæði Bretland og Bandaríkin hefðu gífurlega þörf fyrir Sovétríkin í því skyni að berja á Þjóðverjum. Óháð því hversu þungt sönnunargögnin vægju þá hefðu löndin þörf fyrir allt annað en ágreining innan bandalagsins.

 

Ríkisstjórn Bandaríkjanna tók í sama streng. Það var ekki fyrr en að stríðinu loknu, þegar Kalda stríðið braust út sem Bandaríkjamenn fóru aftur að huga að fjöldamorðunum í Katyn.

 

Ýmsar upplýsingar um fjöldamorðin áttu rætur að rekja til rannsóknarnefndar Bandaríkjaþings sem stjórnaði m.a. yfirheyrslum á danska réttarfarslækninum Helge Tramsen árið 1952, svo og öðrum vestrænum starfsbræðrum hans.

Það hlakkaði í Goebbels. Hann ritaði í dagbók sína:

 

„Allar óvinveittar útvarpssendingar og þess konar dagblöð eru sammála um að líta megi á sambandsslitin við Pólverja í Lundúnum sem fullkominn sigur fyrir þýskan áróður og ekki hvað síst fyrir mig persónulega“.

 

Þó svo að Pólverjar í London slitu öllu sambandi við Stalín tókst Goebbels þó ekki að sá illindum milli Sovétríkjanna og Stóra-Bretlands. Þessi tvö bandamannaríki höfðu of mikla þörf fyrir hvort annað til að svo mætti verða. Þess í stað völdu Bretar að sjá í gegnum fingur sér með glæpina.

 

Eða líkt og breski aðstoðarutanríkisráðherrann, Alexander Cadogan, ritaði á spássíu skýrslu sinnar um ástandið:

 

„Ég viðurkenni að ég var huglaus og ákvað að einblína ekki á atburðina í Katyn af ótta við hvers ég kynni að verða áskynja“.

 

Rússarnir ná Katyn aftur

Árið 1943 varð kúvending í stríðinu og sveitir Hitlers hörfuðu. Rauði herinn náði aftur völdum í skógunum umhverfis Katyn.

 

Sovétmenn fóru strax að leita að ummerkjum sem túlka mætti þeim í hag til þess að skella mætti skuldinni á Þjóðverjana.

Mikhail Gorbatsjov (1931-2022) sá til þess að Pólverjum bærist leynilegt minnisblað frá árinu 1940 þar sem Stalín undirritaði dauðadóminn yfir pólsku stríðsföngunum.

Gorbatsjov viðurkenndi allt

Sovétmenn neituðu því staðfastlega áratugum saman að þeir væru á nokkurn hátt viðriðnir fjöldamorðin í Katyn. Kommúnistastjórnin þvingaði jafnframt nokkra af réttarfarslæknunum tólf sem sæti áttu í Katyn-nefndinni til að skipta um skoðun en með því er átt við þá meðlimi sem bjuggu í Austur-Evrópu. Það var ekki fyrr en kommúnistarnir slepptu af þeim járngreipum sínum sem Rússar kynntust sannleikanum.

 

Undir lok árs 1989 fundu rússneskir sagnfræðingar skjöl sem stimpluð höfðu verið sem leyniskjöl en þau greindu frá því að skipanir um að taka pólsku stríðsfangana hefðu átt upptök sín í Kreml. Ári síðar viðurkenndi síðasti leiðtogi Sovétríkjanna, Mikhail Gorbatsjov, opinberlega að leyniþjónustan NKVD hefði staðið að baki ódæðisverkunum. Árið 2010 kunngjörði rússneska þingið svo að hermenn landsins hefðu framfylgt skipuninni.

 

Syndum fortíðarinnar hefur svo verið sópað undir teppið á nýjan leik í valdatíð Vladimirs Pútíns. Árið 2021 sendi rússneska menningarmálaráðuneytið frá sér nýtt upplýsingaefni um hermannagrafirnar í Katyn þar sem fram kemur að „nasistar hafi skotið pólsku liðsforingjana árið 1941“.

Ekið var til Katyn með fulltrúa bandaríska sendiráðsins í Moskvu. Þar tjáðu Bandaríkjamennirnir sig í skýrslum um það að rússneskir réttarfarslæknar hefðu staðhæft að líkin væru engan veginn það mikið rotnuð að þau gætu hafa verið varðveitt í jörðu frá árinu 1940.

 

Rússarnir voru einnig mjög ákafir að sýna Bandaríkjamönnunum öll þýskframleiddu skothylkin sem fundist hefðu í fjöldagröfunum. Þjóðverjar höfðu hins vegar útskýrt fyrir alþjóðlegum hópi réttarfarslækna árið 1943 að Sovétmenn hefðu fest kaup á þýskum skotfærum áður en stríðið hófst og að skothylkin væru nákvæmlega sú tegund sem notuð var í skammbyssum NKVD-sveitanna.

 

NKVD-sveitirnar þvinguðu íbúana á Katyn-svæðinu til að undirrita vitnisburð sem gekk út á að pólskir liðsforingjar, þá stríðsfangar, hafi verið að leggja vegi í nágrenninu þegar Þjóðverjar myrtu þá eftir septembermánuð 1941. Sovésk yfirvöld höfðu raunar ekki yfir að ráða neinum haldbærum sönnunargögnum máli sínu til sönnunar.

Bandaríkjamenn, líkt og Bretar, tóku þá afstöðu að horfa fram hjá fjöldamorðunum í Katyn og fyrir vikið hélt Stalín staðfastlega við sína skýringu. Eftir uppgjöf Þjóðverja árið 1945 hélt sovéski einræðisherrann áfram að kenna nasistum um blóðbaðið.

 

Við Nürnberg-réttarhöldin, þar sem Göring, von Ribbentrop og aðrir framámenn innan nasistaflokksins voru ákærðir fyrir stríðsglæpi, voru ýmsir Þjóðverjar ákærðir fyrir að hafa fyrirskipað morð á Pólverjunum í Katyn. Bandamenn á Vesturlöndum neyddust til að falla frá ákærunum vegna skorts á sönnunargögnum.

 

Meðan á Kalda stríðinu stóð milli Vesturlanda og Austur-Evrópu héldu Rússar staðfastlega áfram að neita að þeir hefðu tengst blóðbaðinu á nokkurn hátt.

 

Öll skjöl um yfirheyrslur, mannflutninga og aftökur pólsku fanganna voru meðhöndluð sem trúnaðarskjöl fram að falli Sovétríkjanna. Það var því ekki fyrr en árið 1989 sem rússneskur almenningur kynntist sannleikanum um þetta skelfilega athæfi.

Lestu meira um fjöldamorðin í Katyn

Thomas Urban: The Katyn Massacre 1940: History of a Crime, Pen & Sword, 2021

LESTU EINNIG

HÖFUNDUR: BENJAMIN CHRISTENSEN

© Public domain, Shutterstock,© Artificial Eye/Allstar/Ritzau Scanpix,© ullstein bild Dtl./Getty Images,© German Federal Archives, Ullstein bildDlt/Getty Images,© Centralne Archiwum Wojskowe,© SZ Photo/Scherl/Bridgeman Images,© Imperial War Museums/Digitised by Andy Anderson,© Oulds, D C (Lt), Royal Navy official photographer,© Bryn Colton/Getty Images,

Maðurinn

Er hægt að verða gráhærður á einni nóttu?

Heilsa

Hrotur geta verið vísbending um hjartasjúkdóm: Einn hópur er í sérstakri áhættu

Heilsa

Hrotur geta verið vísbending um hjartasjúkdóm: Einn hópur er í sérstakri áhættu

Náttúran

Af hverju eru lauf trjáa með mismunandi lögun?

Náttúran

Af hverju eru lauf trjáa með mismunandi lögun?

Náttúran

Hvernig bárust kettir til Ameríku?

Heilsa

Er mikið um kyrrsetu hjá þér í vinnunni? Þá getur kaffi lengt líf þitt samkvæmt stórri rannsókn.

Heilsa

Lækning gegn útbreiddum meltingartruflunum finnst í flestum eldhúsum.

NÝJASTA NÝTT

Maðurinn

Geta matvörur varið húðina gegn útfjólubláum geislum sólar?

Spurningar og svör

Hvað á eiginlega að gera við kjarnorkuverið í Tjernobyl?

Maðurinn

Myndir af einangruðum ættflokki sýna mannlegan harmleik, samkvæmt verndarsamtökum

Jörðin

Af hverju er ís svona háll?

Náttúran

Krabbar hafa farið sömu ferðina 17 sinnum

Maðurinn

Er veganmatur óhollur börnum?

Náttúran

Risaeðlubeinagrind seld fyrir meira en sex milljarða króna á uppboði.

Alheimurinn

Fullt tungl 2024 – Hvenær er tunglið fullt?

Heilsa

Líkamleg snerting er mikilvæg milli föðurs og ungabarns

Maðurinn

Vísindamenn vara við langvarandi notkun á snuði

Maðurinn

Geta matvörur varið húðina gegn útfjólubláum geislum sólar?

Spurningar og svör

Hvað á eiginlega að gera við kjarnorkuverið í Tjernobyl?

Maðurinn

Myndir af einangruðum ættflokki sýna mannlegan harmleik, samkvæmt verndarsamtökum

Jörðin

Af hverju er ís svona háll?

Náttúran

Krabbar hafa farið sömu ferðina 17 sinnum

Maðurinn

Er veganmatur óhollur börnum?

Náttúran

Risaeðlubeinagrind seld fyrir meira en sex milljarða króna á uppboði.

Alheimurinn

Fullt tungl 2024 – Hvenær er tunglið fullt?

Heilsa

Líkamleg snerting er mikilvæg milli föðurs og ungabarns

Maðurinn

Vísindamenn vara við langvarandi notkun á snuði

Fáðu aðgang að vÍSINDI.IS

Ókeypis í 2 vikur!

 

Eftir það kostar eingöngu 1.390 kr. á mánuði og enginn uppsagnarfrestur.

 

Innifalið er aðgangur að öllum greinum á vefnum ásamt rafræna útgáfu af nýjustu tölublöðunum.

 • Fullur aðgangur að visindi.is
 • Frábærar myndir og myndbönd
 • Aðgengilegt í öllum snjalltækjum
 • Fullur aðgangur að gríðarlegu magni eldri greina
 • Nýjustu tölublöðin í rafrænu formi

Heilsa

Læknar hafa grætt heilt auga í mann

Heilsa

Læknar hafa grætt heilt auga í mann

Maðurinn

Nú geta vísindamenn ráðskast með drauma okkar

Maðurinn

Nú geta vísindamenn ráðskast með drauma okkar

Tækni

140.000 veirutegundir hafa fundist í þarmaflórunni

Maðurinn

Kornabörn þekkja móðurmálið sitt

Alheimurinn

Tvíburi Vetrarbrautarinnar finnst í útjaðri alheimsins

Lifandi Saga

Hvers vegna klæddust fangar röndóttum búningum í gamla daga?

Vinsælast

1

Maðurinn

Er veganmatur óhollur börnum?

2

Maðurinn

Myndir af einangruðum ættflokki sýna mannlegan harmleik, samkvæmt verndarsamtökum

3

Náttúran

Krabbar hafa farið sömu ferðina 17 sinnum

4

Jörðin

Af hverju er ís svona háll?

5

Náttúran

Risaeðlubeinagrind seld fyrir meira en sex milljarða króna á uppboði.

6

Spurningar og svör

Hvað á eiginlega að gera við kjarnorkuverið í Tjernobyl?

1

Maðurinn

Er veganmatur óhollur börnum?

2

Maðurinn

Myndir af einangruðum ættflokki sýna mannlegan harmleik, samkvæmt verndarsamtökum

3

Náttúran

Krabbar hafa farið sömu ferðina 17 sinnum

4

Jörðin

Af hverju er ís svona háll?

5

Spurningar og svör

Hvað á eiginlega að gera við kjarnorkuverið í Tjernobyl?

6

Maðurinn

Geta matvörur varið húðina gegn útfjólubláum geislum sólar?

Jörðin

Leiða loftslagsbreytingar til fleiri jarðskjálfta?

Maðurinn

Heilsa okkar ræðst af blóðinu

Náttúran

Topp 5: Hvaða dýr stunda lengsta mökun?

Lifandi Saga

Sósíaldarwinistarnir lýstu yfir stríði gegn fátækum

Maðurinn

Er siðblindingi á vinnustaðnum þínum?

Maðurinn

Úmamí – fimmta frumbragðtegundin

Maðurinn

Eru fingraför óhjákvæmilega ólík?

Maðurinn

Frestar þú leiðinlegum verkefnum? Samkvæmt vísindamönnum er það slæm hugmynd

Læknisfræði

Hversu gamalt er Viagra?

Maðurinn

Ný rannsókn: Áhrif framhjálds á konur koma á óvart

Maðurinn

Hve lengi hefur krabbamein hrjáð mannkynið?

Maðurinn

Við getum lifað án heilastofns

Geta matvörur varið húðina gegn útfjólubláum geislum sólar?

Er sólarvarnarkrem eina leiðin til að verjast geislum sólar eða eru til matvörur með sólarvörn?

Maðurinn

ÁSKRIFT AÐ VÍSINDI.IS

Prófaðu í 14 daga ókeypis!

 • Fullur aðgangur að vefnum okkar með tæplega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
 • Lifandi vísindi/Lifandi saga í rafrænni útgáfu á vefnum,
 • Aðeins 1.690 krónur á mánuði.
 • Engin skuldbinding – Þú getur hætt hvenær sem er.

ÁSKRIFT AÐ TÍMARITINU

Þrjú tölublöð + gjöf: Skemmtilegur sjónauki
 • Þrjú næstu tölublöð Lifandi vísinda/Lifandi sögu – sent heim til þín – eins færðu lítinn og vandaðan sjónauka að gjöf.
 • Fullur aðgangur að vefnum okkar – visindi.is – með tæplega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
 • Spennandi greinar og flottar myndir sem svala forvitni þinni.
 • Þú getur hætt eftir tilboðið en ef þú heldur áfram skuldbindur þú þig aðeins þrjú tölublöð í einu og þú getur sagt upp hvenær sem sem og klárar þá tímabilið sem er hafið.
 • Venjuleg áskrift – þrjú tölublöð – kostar aðeins 7.590 kr

Sjónauki og þriggja blaða áskrift – Alls 3.800 kr.

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Search

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Viltu lesa greinina?

Fáðu aðgang að visindi.is

Ókeypis í 2 vikur!

Eftir það kostar eingöngu 1.390 kr. á mánuði og enginn uppsagnarfrestur.

Innifalið er aðgangur að öllum greinum á vefnum ásamt rafræna útgáfu af nýjustu tölublöðunum.

 • Fullur aðgangur að visindi.is
 • Frábærar myndir og myndbönd
 • Aðgengilegt í öllum snjalltækjum
 • Fullur aðgangur að gríðarlegu magni eldri greina
 • Nýjustu tölublöðin í rafrænu formi

Núverandi áskrifendur að tímaritinu fá að sjálfsögðu ókeypis aðgang að vefnum og þurfa bara að virkja aðgang sinn hér.

Ef þú ert þegar áskrifandi að visindi.is