Lifandi Saga

Stalín svelti Úkraínumenn til hlýðni

Í Sovétríkjunum herja þurrkar og hungursneyð 1932 en þar sem aðrir sjá aðeins hörmungar, eygir Stalín tækifæri. Hann nýtir neyðina til að kúga hina uppreisnargjörnu Úkraínumenn. Neyðin neyddi fólk til mannakjötsáts.

BIRT: 09/12/2022

Árið 1933 er barnaheimili eitt í Kharkiv fullsetið af vannærðum úkraínskum börnum. Öll hafa börnin uppþembdan kvið og neyðaróp þeirra skera í hjartað. Börnin líða beinar kvalir og líkaminn þakinn sárum. En dag einn verður skyndilega þögn.

 

Áhyggjufullir sjálfboðaliðar sem þarna starfa fara inn til að sjá hvað hafi gerst. Þarna hefur hópur barna þyrpst saman kringum einn drenginn.

 

„Hin börnin voru að borða Petrus litla. Þau slitu af honum holdtægjur og stungu upp í sig. Petrus litli tók sjálfur þátt í þessu. Hann reif hold af sjálfum sér og borðaði. Önnur börn lögðu varirnar að sárum hans og drukku í sig blóðið. Við bárum barnið burtu frá þessum hungruðu og gráðugu munnum og grétum,“ sagði einn sjálfboðaliðanna.

 

Dauði og örvænting blöstu alls staðar við í Sovétlýðveldinu Úkraínu vorið 1933. Á degi hverjum dóu um 10.000 manns úr hungri í mikilli hungursneyð sem Stalín hafði fyrirskipað til að þvinga Úkraínumenn til undirgefni.

 

Óttaðist uppreisn

Síðan um miðja 18. öld hafði Úkraína tilheyrt Rússaveldi en á næstu mánuðum eftir fall keisarans 1917 lýstu Úkraínumenn yfir sjálfstæði. Það frelsistímabil varð stutt.

Sárafáar myndir frá hungursneyðinni komust úr landi. Þessa mynd af líki á götu í Kharkiv tók Austurríkismaðurinn Alexander Wienerberger (1891-1955) sem stjórnaði efnaverksmiðju í borginni.

Eftir valdatöku kommúnista um haustið braust út borgarastyrjöld milli kommúnista og fylgismanna keisarans. Bardagarnir náðu fljótlega til Úkraínu. Kommúnistar unnu sigur í þessu stríði 1921 og árið eftir var Úkraína innlimuð í hin nýstofnuðu Sovétríki.

 

Eyðilegging stríðsins setti mark sitt á Úkraínu. Tíu árum eftir byltinguna var ástandið enn erfitt og soltnir Úkraínumenn þurftu að standa í biðröðum til að fá mat.

 

Undir veldi keisarans hafði fólk líka soltið en samkvæmt áróðri kommúnista átti neyðin að tilheyra fortíðinni. Sovétríkin áttu að verða paradís verkamanna og bænda. Sulturinn kynti því undir óánægju í Úkraínu.

 

„Fólk hefur verið gabbað,“ stóð á plakati þar sem hvatt var til verkfalla.

 

Stalín var einræðisherra Sovétríkjanna frá árinu 1922 og þangað til hann lést árið 1953.

Viðbrögð Úkraínumanna neyddu Stalín til að bregðast við. Hann vildi ekki hljóta sömu örlög og keisarinn og árið 1929 greip hann til örþrifaráða: Bændur skyldu tafarlaust taka upp samyrkjubúskap og ríkið þannig ná fullri stjórn á fæðuframleiðslunni.

 

Engir bændur máttu eiga jörð eða kvikfé. Þeir áttu að vinna fyrir ríkið.

 

Bændur misstu allt

Samyrkjubúin – hinn miðstýrði landbúnaður – höfðu verið sett á fót alls staðar í Sovétríkjunum um miðjan þriðja áratuginn. Umbreytingin var tekin í hægum skrefum til að koma veg fyrir að framleiðslan hryndi.

 

Heilu herfylkin voru gerð út til að vernda unga kommúnista sem sendir voru til að skipuleggja ný samyrkjubú.

 

Að minnsta kosti 50.000 sættu nauðungarflutningum frá Úkraínu undir því yfirskyni að þeir væru stórbændur eða gagnbyltingarsinnar.

Á fjórða áratugnum var uppskeran flutt með löngum hestvagnalestum til stórborga í Sovétríkjunum.

Sovétríkin græddu vel á korni Úkraínu

Á Stalínstímanum var korn svo mikilvægt að ekki mátti láta bændur sjá um ræktunina. Stalín vildi ráða öllu – jafnvel þótt fólk sylti í hel.

 

Breytingar á landbúnaði í Úkraínu leiddu til mikils samdráttar í kornframleiðslu. En jafnvel þegar fregnir bárust af hungursneyð í Sovétlýðveldinu héldu Sovétríkin áfram að flytja út korn. Bæði 1932 og 1933 fóru 1,7 milljónir tonna til útlanda.

 

Útflutningurinn skapaði gjaldeyristekjur sem notaðar voru til að kaupa vélbúnað til iðnvæðingarinnar sem Stalín krafðist. Miklu korni var skipt niður á borgir í Sovétríkjunum til að brauðfæða íbúana.

 

Hve miklu korni bændur í Úkraínu fengu að halda var ákvarðað í áætlunum sem gerðar voru löngu áður en uppskerutölur lágu fyrir.

 

Yfirvöld fluttu því frá Úkraínu nákvæmlega það magn sem ákveðið hafði verið án þess að taka nokkurt tillit til fæðuþarfar íbúanna né heldur til nauðsynlegs útsæðis árið eftir.

Hersveitirnar lögðu ekki einungis hald á kornvöru og húsdýr. Jarðarskikarnir voru líka gerðir upptækir – en líka margt fleira. Lidia Vasylivna Poltavets var sjálf á staðnum og sagði síðar:

 

„Þeir komu akandi í hestvögnum sínum, hlóðu vagnana með öllu sem hönd á festi. Þegar þeir höfðu tekið útsæðið, tóku þeir vetrarflíkurnar okkar, gæruúlpurnar, húfur og önnur föt. Að síðustu tóku þeir svo fötin sem við stóðum í.“

 

Faðir Lidiu var fluttur á brott en börnunum komið fyrir hjá ættingjum.

 

Þessar harkalegu aðgerðir höfðu áhrif á uppskeruna. Bændur sem áður höfðu ræktað sitt eigið land fengu nú brauðbita í laun fyrir að rækta land ríkisins. Ánægjan þvarr og áhugaleysi breiddist út.

 

Petro Grigorenko hershöfðingi í sovéska hernum sem flúið hafði land, lýsti síðar stóra sléttuþorpinu Arkhanhelka þar sem 2.000 jarðir voru í kring. Fyrir ríkisvæðinguna hafði þorpið iðað af lífi en síðsumars 1930 var allt breytt:

 

„Átta menn skiptust á við þreskivélarnar. Hinir verkamennirnir – karlar, konur og unglingar – voru ýmist á stjákli eða lágu í skugganum.“

Bændur voru skyldaðir til að starfa á samyrkjubúum. Myndin sýnir bónda grátbiðja um að fá að halda áhöldum sínum, þegar þau eru gerð upptæk.

Tveimur árum síðar riðu hörmungarnar yfir. Kornframleiðsla í Úkraínu snarminnkaði vegna tilkomu samyrkjubúanna og um öll Sovétríkin ríktu miklir þurrkar. 1932 hafði ekki miklu verið sáð en það sem átti að spretta skrælnaði á ökrunum.

 

Fulltrúar kommúnistaflokksins skráðu fyrstu 83 hungurtilvikin, vannært fólk með uppþembdan kvið. Sex af þeim voru þegar látin.

 

Sinnti ekki neyðarópunum

Í viðhafnarhúsi sínu í Sotji við Svartahaf kallaði Stalín allar skýrslur um hungur hreinan uppspuna og hafnaði beiðnum Úkraínumanna um að senda korn, brauð og baunir frá öðrum svæðum Sovétríkjanna. Einræðisherrann tók ekki við sér fyrr en uppreisn var yfirvofandi.

 

„Ef við gerum ekkert til að bæta ástandið eigum við á hættu að missa Úkraínu,“ skrifaði hann í bréfi til leiðtoga úkraínska kommúnistaflokksins, Lazars Kaganovitjs í ágúst 1932.

 

Stalín hafði þó engin áform um að bægja hungursneyðinni frá. Þess í stað sá hann þarna tækifæri til að knýja í gegn þjóðnýtingu alls lands og um leið losa sig við þá íbúa sem enn ólu þá von í brjósti að Úkraína yrði sjálfstæð.

Bændur flúðu þúsundum saman til stórborganna í leit að mat og dóu svo úr sulti og þrekleysi á götunum.

Fyrsta skrefið var að banna alla einstaklingsræktun. Samkvæmt lögunum töldust þeir þjófar sem ræktuðu land ríkisins til einkanota og refsingin var líflát.

 

Síðan voru varðliðar flokksins sendir til að fylgjast með ökrunum þar til uppskeran væri komin í hús. Þetta mundi Natalia Talanchuk sem þá var sjö ára og bjó nálægt borginni Dnipro:

 

„Þeir settu upp varðturna og þar stóðu menn vopnaðir rifflum. Þegar rúgur, hveiti og annað korn hafði verið skorið og fólk streymdi út á akrana til að tína upp þau öx sem lágu eftir á jörðinni eftir að vélarnar höfðu farið yfir, skutu þeir, því það var bannað að tína korn. Þeir skutu ekki bara fullorðna, heldur líka börn.“

 

Þótt Úkraínumenn skorti sárlega korn var það flutt til Rússlands í stórum stíl til að uppfylla þá kvóta sem landbúnaðarráðuneytið í Moskvu hafði ákvarðað. Í nóvember herti Stalín enn þumalskrúfurnar og tók upp „svartlistun“.

 

Pyntingar áttu að útvega korn

Hugtakið svartlistun kom úr sovéskum iðnaði. Duglegustu verkamönnunum var umbunað með því að nöfn þeirra voru skrifuð á rauða töflu. Þeir sem ekki voru jafn duglegir fengu nöfn sín rituð á svarta töflu.

„Þeir héldu hönd hennar við dyrakarm og skelltu svo hurðinni.“

Sjónarvottur í Tjernihiv-héraði 1933.

Í Úkraínu þýddi þetta að þeim samyrkjubúum sem ekki uppfylltu framleiðslukröfur var bannað að versla. Af því leiddi að þegar hungrið svarf að máttu forsvarsmennirnir ekki kaupa mat handa sveltandi starfsmönnum. Þar eð óraunhæfar kröfur voru gerðar til kornframleiðslu í Úkraínu lentu mörg þúsund samyrkjubú á svarta listanum.

 

Starfsmenn samyrkjubúanna höfðu von bráðar ekki úr öðru að spila en þeim afurðum sem þeim hafði tekist að fela fyrir eftirlitsmönnum. Hermenn og flokksliðar voru svo sendir til að leita uppi felustaðina.

 

Þeir rótuðu alls staðar, rúm, barnsvöggur eða íkonar á veggjum sluppu ekki og löngum málmstöngum var líka stungið niður í nýlegar grafir í kirkjugörðum.

 

Ung kona frá Tjernihiv-héraði í norðurhluta landsins sagði áratugum síðar frá grimmd leitarmanna.

 

„Foringinn spurði hvar gullið og kornið væri. Mamma sagðist hvorugt hafa. Þá var hún pyntuð. Þeir héldu hönd hennar við dyrakarm og skelltu svo hurðinni. Fingurnir brotnuðu, henni blæddi og það leið yfir hana. Þá helltu þeir yfir hana vatni og stungu svo nálum undir fingurneglurnar.“

 

Margir gerðust uppljóstrarar, enda var þeim verðlaunað með allt að þriðjungi þess matar sem þeir gátu vísað á. Einungis embættismenn flokksins fengu mat daglega. Þeir gátu keypt mat út á skömmtunarmiða og í þeim skóla þar sem börn þeirra voru, var framreiddur góður matur.

 

„Það lagði himneska angan innan úr matstofunni og maður grét yfir ilminum,“ rifjaði eitt fátæku barnanna upp löngu síðar.

 

Soltnir grafnir lifandi

Sulturinn þvingaði fólk af samyrkjubúunum til borganna í matarleit. Hætta var á að samyrkjubúin tæmdust og Stalín setti því nýjar reglur. Hann bannaði bændum að yfirgefa heimkynni sín.

 

Vegatálmar voru settir upp við allar stærri borgir og þannig náðust auðveldlega þeir sem orðnir voru máttvana af sultinum en hraustari og snarráðari laumuðust gegnum skóga og yfir torfærur.

 

En þegar dreifbýlisbúar stilltu sér upp í langar biðraðir eftir brauðskammti urðu þeir fyrir vonbrigðum. Larfarnir sem þeir klæddust voru auðþekktir.

 

„Lögreglan dró þetta fólk út úr biðröðinni, fleygði því upp á vörubíla og flutti það út úr borginni,“ sagði einn sjónarvotta, Varvara Dibert sem bjó í Kyiv.

Uppreisnarhéruð urðu verst úti

Hungursneyðin 1932-1933 er í Úkraínu nefnd „Holodomor“ en þessar skipulögðu hamfarir Stalíns bitnuðu misharkalega á fólki eftir landsvæðum.

Kyiv og Kharkiv

Landsvæði í grennd við þessar stórborgir voru meðal þeirra sem urðu harðast úti. Bændur á þessum slóðum höfðu beinlínis beitt valdi til að koma í veg fyrir að land væri gert upptækt.

 

Refsingin kom með Holodomor og varðliðar Stalíns voru bæði harðhentir og nákvæmir við að gera öll matvæli bænda upptæk. Hungursneyðin var í samræmi við það.

Vinnytsja

Nábýlið við Rúmeníu bjargaði mörgum mannslífum í héraðinu sem takmarkaði fjölda dauðsfalla umfram venjuleg ár.

 

Trúlega hafa margir fengið matvæli hjá ættingjum og kunningjum sem smyglað var yfir landamærin. Embættismenn Stalíns vildu heldur ekki að fregnir af hörmungunum bærust til Rúmeníu.

Odesa

Í suðvesturhluta landsins mætti stefna Stalíns minni mótspyrnu.

 

Afstaða yfirvalda til íbúanna var því mildari á þessum slóðum. Meðan Holodomor geisaði dóu þar „aðeins“ 14% fleiri en í meðalári.

Donetsk

Í austri var manndauði tiltölulega lítill.

 

Héraðið hafði verið valið til iðnaðaruppbyggingar og verkamenn fengu því stærri matarskammta.

Í lok febrúar 1933 höfðu sovésk yfirvöld handtekið 190.000 manns úr sveitum í borgum landsins. Flestir voru sendir aftur á samyrkjubúin en þangað náðu þó ekki allir. Sjónarvotturinn Olena Kobylko sagði frá óhugnanlegum örlögum fólks sem handtekið var í Kharkiv:

 

„Þau voru flutt með flutningalest hinum megin út úr borginni þar sem enginn sá til. Þar var öllum fleygt ofan í fjöldagröf – lifandi eða dauðum.“

 

Sumum tókst að nýta hyggjuvit sitt til að lifa af. Olha Zazula var sex ára og gleymdi aldrei hvernig fjölskylda hennar lifði veturinn af í þorpinu Vitovtsji, skammt frá Kyiv:

 

„Við skröpuðum börk af trjám og hjálpuðum mömmu við að mala hann smátt. Úr þessu bakaði hún.“

 

Lengi tókst yfirvöldum í Sovétríkjunum að halda hungursneyðinni leyndri fyrir umheiminum með því að meina erlendum blaðamönnum aðgang að þessu Sovétlýðveldi. En í mars 1933 tókst velska blaðamanninum Gareth Jones að komast óséður inn í Úkraínu.

Varðliðar kommúnista vöktuðu kornið sem hersveitir Stalíns söfnuðu í Úkraínu.

Hann var fyrsti vestræni blaðamaðurinn sem sá ástandið með eigin augum:

 

„Ég gekk um þorp á landsbyggðinni og fór á 12 samyrkjubú. Alls staðar heyrði ég það sama: Það er ekki til neitt brauð og við erum deyjandi. Ég gisti í þorpi þar sem verið höfðu 200 dráttaruxar, nú voru ekki nema sex eftir. Bændurnir átu skepnufóðrið og sögðu mér að margt fólk væri þegar dáið úr hungri.“

 

Börn voru étin

Örvæntingin varð slík að árið 1933 sagði læknir í bréfi til vinkonu sinnar að hún væri enn ekki orðin mannæta. En hún bætti því við að það væri „langt í frá öruggt að það gildi enn þegar þú færð bréfið.“

 

Á árunum 1932-33 voru 2.505 manns dæmd fyrir mannakjötsát í Úkraínu. Sagnfræðingar nútímast telja þó líklegt að miklu fleiri hafi verið sekir um mannát.

2.505

manns voru dæmd fyrir mannakjötsát í Úkraínu 1932-33.

Sögur af mannáti voru hver annarri óhugnanlegri.

 

„Í bænum okkar var nágranni okkar, Wasyl, orðinn uppþembdur af sulti. Hann gat ekki lengur gengið, heldur lá bara og beið dauða síns. Þegar Wasyl dó, skar Yevdoshka stykki af læri hans, matreiddi það og át. En skömmu síðar dó hún líka. Frændi hennar sem bjó í næsta húsi kom að líkum þeirra beggja og í einum pottinum var mannakjöt,“ sagði Nadja Tkatjenko frá Tjerkasy-héraði í miðhluta Úkraínu.

 

Nadja Tkatjenko mundi líka að móðir hennar hafði bannað henni að fara um vissa hluta bæjarins:

 

„Það var nefnilega eitthvað um að börnum væri rænt, þau myrt og kjötið svo matreitt.

 

Meðan Úkraínubúar dóu úr hungri jukust kornbirgðir í Sovétríkjunum. Árið 1933 lágu 3 milljónir tonna af korni í birgðaskemmum stjórnvalda og talsvert af smjöri og beikoni var líka flutt út.

Breytingarnar í landbúnaði bitnuðu á fólki um öll Sovétríkin. 1935 birti blaðið Chicago American frétt um að 6 milljónir hefðu dáið úr hungri.

Sovétríkin afneituðu öllu

Samyrkjubúskapurinn heppnaðist vel, fullyrtu menn í kommúnistaflokknum og gerðu allt sem unnt var til að dylja hungursneyðina.

 

Blöð á Vesturlöndum sýndu Sovétríkjunum jákvæðan áhuga á þriðja áratugnum. Það fyrirkomulag að fólkið sjálft skyldi eiga allt land og framleiðslutæki naut vissrar aðdáunar en fáir blaðamenn höfðu nokkra möguleika til að gefa rétta mynd af ástandinu.

 

Bæði Stalín og kommúnistaflokkurinn afneituðu hungursneyðinni staðfastlega og gerðu allt sem hægt var til að leyna henni fyrir umheiminum.

 

Þá sjaldan vestrænir leiðtogar fengu að heimsækja Úkraínu sáu embættismenn flokksins til þess að þeir fengu aðeins að sjá glansmyndina.

 

T.d. voru íbúar í Kyiv klæddir í ný föt, búðargluggar fylltir af matvælum og bílar sóttir í aðrar borgir og þeim lagt við gangstéttir fyrir heimsókn Edouards Herriot, forsætisráðherra Frakklands.

 

Blaðamenn sem heyrðu af raunverulegu umfangi hungursneyðarinnar þorðu sjaldnast að skrifa um það af ótta við að verða vísað frá Rússlandi.

 

Þær fáu fréttir sem birtust um hungursneyðina vöktu ekki mikla athygli.

 

Efnahagskreppa fjórða áratugarins og uppgangur Hitlers í Þýskalandi vöktu meiri áhuga lesenda í Evrópu og Ameríku.

Það var ekki fyrr en öll andstaða gegn samyrkjubúum var horfin og sjálfstæðishugmyndir brotnar niður sem Stalín sendi loks neyðarhjálp.

 

Í október 1933 dró hann úr kröfum um afköst í kornrækt í Úkraínu og leyfði neyðarsendingar til þeirra héraða sem verst urðu úti. Þá höfðu að minnsta kosti 3,5 milljónir dáið úr hungri. Sumir sagnfræðingar telja að talan 7,5 milljónir sé nær lagi. Í Úkraínu varð hungursneyðin þekkt sem Holodomor sem merkir sveltiútrýming.

 

En allt tal um Holodomor var bannað áratugum saman. Það var ekki fyrr en eftir fall Sovétríkjanna 1991 sem sannleikurinn um þjóðarmorð Stalíns varð að fullu ljós.

LESTU MEIRA UM HOLOMODOR

Anna Applebaum: Red Famine, Penguin, 2018

 

Svetlana Alexievich: Secondhand-time, Random House, 2017

 

LESTU EINNIG

HÖFUNDUR: Else Christensen

© ITAR-TASS News Agency/Imageselect, © Isaak Brodskij, © Imageselect, © Alexander Wienerberger, © Shutterstock , © CPA Media Pte Ltd/Imageselect ,

Lifandi Saga

Belgía biður Kongó afsökunar – með tönn

Lifandi Saga

Af hvaða kynstofni var Kleópatra?

Lifandi Saga

Af hvaða kynstofni var Kleópatra?

Lifandi Saga

Kitty var Kim Kardashian 18. aldar

Lifandi Saga

Kitty var Kim Kardashian 18. aldar

Náttúran

Í frysti frá dánarstund

Heilsa

Hinn týndi hlekkur milli krabbameins og mataræðis ef til vill fundinn

Heilsa

Vísindamenn: Miklir kostir þess að nota stigann frekar en lyftuna.

NÝJASTA NÝTT

Maðurinn

Úmamí – fimmta frumbragðtegundin

Maðurinn

Eru fingraför óhjákvæmilega ólík?

Maðurinn

Frestar þú leiðinlegum verkefnum? Samkvæmt vísindamönnum er það slæm hugmynd

Læknisfræði

Hversu gamalt er Viagra?

Maðurinn

Ný rannsókn: Áhrif framhjálds á konur koma á óvart

Maðurinn

Hve lengi hefur krabbamein hrjáð mannkynið?

Maðurinn

Við getum lifað án heilastofns

Náttúran

Vísindamenn kortleggja nú heimshöfin

Heilsa

41 næringarríkustu fæðutegundir jarðar

Menning og saga

Leynirými í 4.400 ára gömlum egypskum pýramída

Maðurinn

Úmamí – fimmta frumbragðtegundin

Maðurinn

Eru fingraför óhjákvæmilega ólík?

Maðurinn

Frestar þú leiðinlegum verkefnum? Samkvæmt vísindamönnum er það slæm hugmynd

Læknisfræði

Hversu gamalt er Viagra?

Maðurinn

Ný rannsókn: Áhrif framhjálds á konur koma á óvart

Maðurinn

Hve lengi hefur krabbamein hrjáð mannkynið?

Maðurinn

Við getum lifað án heilastofns

Náttúran

Vísindamenn kortleggja nú heimshöfin

Heilsa

41 næringarríkustu fæðutegundir jarðar

Menning og saga

Leynirými í 4.400 ára gömlum egypskum pýramída

Fáðu aðgang að vÍSINDI.IS

Ókeypis í 2 vikur!

 

Eftir það kostar eingöngu 1.390 kr. á mánuði og enginn uppsagnarfrestur.

 

Innifalið er aðgangur að öllum greinum á vefnum ásamt rafræna útgáfu af nýjustu tölublöðunum.

 • Fullur aðgangur að visindi.is
 • Frábærar myndir og myndbönd
 • Aðgengilegt í öllum snjalltækjum
 • Fullur aðgangur að gríðarlegu magni eldri greina
 • Nýjustu tölublöðin í rafrænu formi

Lifandi Saga

60 aðalsmenn drukknuðu í skít

Lifandi Saga

60 aðalsmenn drukknuðu í skít

Náttúran

Skógareldar geisa um gjörvallan hnöttinn

Náttúran

Skógareldar geisa um gjörvallan hnöttinn

Alheimurinn

Hin dulda hlið tunglsins

Náttúran

Hver er hæsta tala sem hefur fengið nafn?

Náttúran

Taumhald á gróðureldum: Skógareldar

Lifandi Saga

7 óviðeigandi brandarar frá fornöld

Vinsælast

1

Maðurinn

Ný rannsókn: Áhrif framhjálds á konur koma á óvart

2

Heilsa

41 næringarríkustu fæðutegundir jarðar

3

Heilsa

Vísindamenn hafa fundið mikilvægan eiginleika sem er sameiginlegur öllum sem náð hafa 100 ára aldri.

4

Lifandi Saga

Kitty var Kim Kardashian 18. aldar

5

Maðurinn

Hve lengi hefur krabbamein hrjáð mannkynið?

6

Maðurinn

Úmamí – fimmta frumbragðtegundin

1

Maðurinn

Ný rannsókn: Áhrif framhjálds á konur koma á óvart

2

Heilsa

41 næringarríkustu fæðutegundir jarðar

3

Heilsa

Vísindamenn hafa fundið mikilvægan eiginleika sem er sameiginlegur öllum sem náð hafa 100 ára aldri.

4

Maðurinn

Hve lengi hefur krabbamein hrjáð mannkynið?

5

Maðurinn

Úmamí – fimmta frumbragðtegundin

6

Maðurinn

Við getum lifað án heilastofns

Lifandi Saga

Hve fjölmennir eru rússnesku minnihlutahóparnir í Austur-Evrópu?

Lifandi Saga

Afþreying í gegnum tímann: Allt frá skylmingabardögum til sirkustrúða

Maðurinn

Þannig kemstu í gegnum þrep sorgarinnar

Heilsa

Sorg getur breyst í sjúkdóm

Jörðin

Hversu mikið menga leikföng?

Maðurinn

Af hverju þessi ást á áfengi?

Heilsa

Er hægt að sofa of mikið?

Lifandi Saga

Hver fann upp á „kalda stríðinu“?

Maðurinn

Síðbúnar kvöldmáltíðir gera þig þyngri og svangari

Maðurinn

Hvernig grær brotið bein?

Maðurinn

Öfgar persónuleikans: Úthverfur eða innrænn persónuleiki

Alheimurinn

Hvað verður um orkuna frá sólarljósinu? 

Úmamí – fimmta frumbragðtegundin

Fimmta frumbragðtegundin, úmamí, er nýjasta, en ekki endilega sú síðasta, bragðtegundin á lista yfir frumbragðtegundir. Lesið greinina og öðlist nýja vitneskju um frumbragðtegundirnar fimm og bragðskyn okkar.

Maðurinn

ÁSKRIFT AÐ VÍSINDI.IS

Prófaðu í 14 daga ókeypis!

 • Fullur aðgangur að vefnum okkar með tæplega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
 • Lifandi vísindi/Lifandi saga í rafrænni útgáfu á vefnum,
 • Aðeins 1.690 krónur á mánuði.
 • Engin skuldbinding – Þú getur hætt hvenær sem er.

ÁSKRIFT AÐ TÍMARITINU

Þrjú tölublöð + gjöf: Skemmtilegur sjónauki
 • Þrjú næstu tölublöð Lifandi vísinda/Lifandi sögu – sent heim til þín – eins færðu lítinn og vandaðan sjónauka að gjöf.
 • Fullur aðgangur að vefnum okkar – visindi.is – með tæplega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
 • Spennandi greinar og flottar myndir sem svala forvitni þinni.
 • Þú getur hætt eftir tilboðið en ef þú heldur áfram skuldbindur þú þig aðeins þrjú tölublöð í einu og þú getur sagt upp hvenær sem sem og klárar þá tímabilið sem er hafið.
 • Venjuleg áskrift – þrjú tölublöð – kostar aðeins 7.590 kr

Sjónauki og þriggja blaða áskrift – Alls 3.800 kr.

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Search

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Viltu lesa greinina?

Fáðu aðgang að visindi.is

Ókeypis í 2 vikur!

Eftir það kostar eingöngu 1.390 kr. á mánuði og enginn uppsagnarfrestur.

Innifalið er aðgangur að öllum greinum á vefnum ásamt rafræna útgáfu af nýjustu tölublöðunum.

 • Fullur aðgangur að visindi.is
 • Frábærar myndir og myndbönd
 • Aðgengilegt í öllum snjalltækjum
 • Fullur aðgangur að gríðarlegu magni eldri greina
 • Nýjustu tölublöðin í rafrænu formi

Núverandi áskrifendur að tímaritinu fá að sjálfsögðu ókeypis aðgang að vefnum og þurfa bara að virkja aðgang sinn hér.

Ef þú ert þegar áskrifandi að visindi.is