Pláneturnar sem snúast um sólina fara eftir ótrúlega stöðugum brautum og af ótrúlegri nákvæmni. En hversu stöðugt er sólkerfið í raun og veru? Það ákváðu tveir kanadískir vísindamenn að rannsaka.
Meginniðurstaða þeirra er sú, að jafnvel lítil þyngdaráhrif geti haft gríðarmiklar afleiðingar vegna þeirrar óreiðu sem gæti skapast.
Til að illa fari í sólkerfi okkar þarf ekki meira en að meðalfjarlægð Neptúnusar frá sólu breytist um 0,1%.
Það myndi tífalda líkurnar á ringulreið í sólkerfinu.
Endadægur innan frá
Ein mögulegra sviðsmynda gæti líka falist í óstöðugleika minnstu plánetu sólkerfisins, Merkúrs.
Sá staður á braut Merkúrs, þar sem plánetan er næst sólu hnikast um 1,5 gráður á hverjum þúsund árum og verður æ nær stöðu Júpíters á sinni braut.
Takist svo óheppilega til að þessar tvær plánetur samræmi brautir sínar að fullu, eru 1% líkur á að Merkúr fari af braut sinni.
Merkúr myndi þá annað hvort þeytast út úr sólkerfinu eða rekast á Venus, sólina eða mögulega jörðina einhvern tíma á næstu 3-4 milljörðum ára.
„Leið sólkerfisins til breytilegs óstöðugleika ræðst á endanum af óreiðu. Líklegasti möguleikinn er þó samsveifla Júpíters og Merkúrs sem eykur óvissu um braut Merkúrs og gæti leitt til áreksturs við Venus,“ segir annar greinarhöfunda, Garett Brown doktorsnemi við Torontoháskóla, á Twitter.
Jafnvel 0,1% breyting á fjarlægð Neptúnusar frá sólu gæti orðið upphaf að hruni sólkerfisins samkvæmt niðurstöðum reiknilíkansins.
Eðlisfræðingarnir rannsökuðu líka hvað gerst gæti ef flökkustjarna kæmi of nálægt sólkerfinu.
Merkúr er sú pláneta sem er næst sólinni en fjærsta plánetan er Neptúnus sem þess vegna er viðkvæmust fyrir utanaðkomandi þyngdaráhrifum.
Endadægur utan frá
Ef flökkustjarna, sem þarf ekki einu sinni að vera jafnstór og sólin okkar, skyldi ná að draga Neptúnus af núverandi braut myndu ruðningsáhrif á sólkerfið í heild verða geigvænleg.
Afleiðingar tilfærslu um aðeins 0,1% – sem samsvarar 4,5 milljóna kílómetra tilfærslu á möndli plánetunnar – myndu ná til Mars og Jarðar á aðeins 20 milljón árum.
Tilfærsla upp á 10% hefði dómsdagsáhrif bæði á jörðina og rauðu plánetuna.
Líkurnar á óreiðu í sólkerfinu, ef Neptúnus (lengst til hægri) verður fyrir truflun af völdum flökkustjörnu, eru mjög litlar. Ef illa fer líða milljónir ára áður en unnt verður að greina áhrifin héðan og líklegast er að sólin verði útbrunnin áður en hamfarirnar ná til jarðar.
Vísindamennirnir keyrðu 2.880 möguleika í tölvulíkaninu. Í 960 tilvikum voru afleiðingarnar svo litlar að þær mældust ekki.
Fjórar keyrslur sýndu Merkúr rekast á Venus, 26 keyrslur sýndu mismunandi óreiðuástand í sólkerfinu.
Ein sviðsmyndin var árekstur Mars og Jarðar en allstór hluti af síðustu keyrslunum sýndi Úranus, Neptúnus og Merkúr þeytast út úr sólkerfinu.
En það er engin ástæða til að örvænta. Samkvæmt niðurstöðunum eru aðeins 20 möguleg tilvik þar sem flökkustjarna kemur of nálægt einni af plánetunum til að breyta braut hennar – einhvern tíma á næstu 100 milljörðum ára.