Menn Kólumbusar óttuðust brúnina
Þessa sögn er m.a. að finna í kennslubókum. Hún á að hafa gerst haustið 1492 um borð í skipi Kólumbusar Santa Maria.
Á þilfarinu er Kristófer Kólumbus að skipa mönnum sínum fyrir. Hann ætlar að halda siglingunni áfram til vesturs en sjómennirnir malda í móinn.
„Þú gerir þér ljóst að við munum sigla út af brún jarðar og falla niður í tómið?“ segir sá kjarkmesti. Á þessum tíma virðast menn almennt álíta að jörðin sé flöt og að lífshættulegt sé að fara nálægt brúninni.
Fyrsta ferð Kólumbusar yfir hið óþekkta úthaf tók 70 sólarhringa.
Sagan skýrir ekki nánar hvernig Kólumbusi tókst að fá menn sína til að halda siglingunni áfram en þeir létu sér greinilega segjast. Santa Maria og hin skipin tvö, Nina og Pinta komust klakklaust yfir Atlantshafið og að eyjunum í Karíbahafi austur af Mið-Ameríku, eyjum sem Kólumbus áleit í fyrstu að hlytu að vera Japan.
Hvaðan þessi saga um ótta spænsku sjómannanna er komin, vita menn ekki. Sumt bendir til að hún sé ekki eldri en frá 19. öld. Okkur vantar sem sé alveg trausta heimild um þessa sögu.
Með og á móti: Munkur andmælir Biblíunni
Rökrétt hugsun
Þegar óupplýstir jarðarbúar ferðuðust almennt stuttar vegalengdir á miðöldum, virtist þeim jörðin einfaldlega flöt.
Kemur fram í Biblíunni
Í gamla testamentinu (Jesaja 40, 22) er talað um jörðina sem hringlaga. „Það er hann sem situr hátt yfir jarðarkringlunni,“ segir í nýjustu íslensku þýðingunni og er óbreytt frá eldri útgáfu.
Holberg notaði mýtuna
Danski gamanleikjahöfundurinn Ludvig Holberg vísaði til þessa álits í gamanleiknum Erasmus Montanus. Þar staðhæfir þorpsbúi að jörðin sé flöt. Þetta bendir til að sú skoðun hafi verið útbreidd á 18. öld.
Adam vissi betur
Á 11. öld fór þýski munkurinn Adam af Brimum í könnunarferð til Norðurlanda. Í frásögn sinni segir hann m.a. „Vegna kúlulögunar jarðar, þarf sólin auðvitað …“.
Áróður mótmælenda
Sumir sagnfræðingar leggja áherslu á að ekki sé talað um flata jörð fyrr en eftir siðaskiptin (1517). Mótmælendur gætu því hafa nýtt mýtuna til að sýna fram á staðnaða og myrka sýn kaþólsku kirkjunnar.
Tilgangur Holbergs
Einfeldnisleg lífssýn þorpsbúans sem segir „Jörðin er flöt,“ er því aðeins fyndin að áhorfendur hans á árinu 1747 hafi vitað að jörðin er kúlulaga.
Niðurstaða: Mýtan um flata jörð er útbreiddari í dag
Hugsuðir fornaldar höfðu strax um 400 f.Kr. reiknað út að jörðin hlyti að vera kúlulaga. Þessi vitneskja glataðist ekki við fall Rómarveldis og þegar „hinar myrku miðaldir“ grúfðu yfir Evrópu.
Beda prestur hinn enski skrifaði ritið „De temporum ratione“ um árið 700 og telur þar að jörðin hljóti að vera hnöttótt.
Í kennslubókinni „Elucidarium“ frá 12. öld segir að jörðin sé kúlulaga. Höfundurinn Honorius af Autun, skrifaði fremur alþýðlegan stíl og bókin dreifðist allt til fjarlægustu afkima Evrópu. Prestar þekktu hana og hafa trúlega lesið úr henni í prédikunum.
Það er fyrst á okkar dögum sem mýtan um flata jörð hefur náð einhverri útbreiðslu að ráði. Skoðanakönnun frá 2018 sýnir að sjötti hver Bandaríkjamaður efast um að jörðin sé hnöttótt og sú skoðun virðist fremur eflast en hitt.