Ekki hefur tekist að skýra með vísindalegum hætti hvers vegna við mannfólkið erum útbúin augabrúnum. Sennilegast þykir þó að þær hafi haft hagnýtan tilgang en þær, ásamt augnhárunum, koma í veg fyrir að sviti, rigningarvatn og óhreinindi rati inn í augað.
Ýmislegt virðist benda til þess að augabrúnunum sé ætlað að vernda augun en þess má geta að öll hárin snúa út á við. Með því móti leiða augabrúnirnar sjálfkrafa svita og regnvatn frá svæðinu umhverfis augun.
Túlka tilfinningar
Auk þessa hlutverks sem hér hefur verið nefnt má ætla að augabrúnir gegni einnig því hlutverki að auka á svipbrigði andlitsins.
Geta okkar mannanna til að komast af helgast að miklu leyti af hæfileika okkar til samskipta og í því skyni skipta svipbrigði andlitsins sköpum.
Lokvöðvi augans og húðvöðvi ennisins mætast undir augabrúnunum sem verða fyrir vikið afar sveigjanlegar og geta tjáð og túlkað mýgrút tilfinninga.
Þá hefur náttúruval, samkvæmt kenningum Darwins, einnig ráðið því að við héldum augabrúnunum þrátt fyrir að missa feldinn.
Þess má geta að hárið á augabrúnunum endurnýjast á fimm mánaða fresti. Þessi hár og augnhárin eru þau hár mannslíkamans sem endurnýjast hvað tíðast.
Til samanburðar má geta þess að hárin í höfuðhári okkar endast í rösklega þrjú ár.