Stunduð er ofveiði á þriðjungi fisktegunda heimshafanna og náttúruleg heimkynni sjávardýranna eru að miklu leyti horfin. Höfin hafa hlýnað, eru súrefnissnauðari og mengun í þeim hefur aukist.
Þó svo að öll von kunni að virðast vera úti, þá er sú engan veginn raunin.
Rannsókn sem birtist í vísindatímaritinu Nature gefur til kynna að höfin og dýralífið í þeim búi yfir undraverðum viðnámsþrótti og að tilraunir okkar í þá veru að vernda höfin hafi í raun borið árangur.
Vísindamennirnir draga þá ályktun að unnt sé að koma heimshöfunum á réttan kjöl fyrir árið 2050.
Hundruð jákvæðra vísbendinga
„Við höfum yfir að ráða nokkrum aðferðum sem gætu gert okkur kleift að skapa heilnæm höf fyrir barnabörnin okkar og búum að sama skapa yfir þeim tækjum og tólum sem með þarf til að þetta takist,“ skrifar aðalhöfundur greinarinnar, Carlos Duarte sem er prófessor í sjávarlíffræði.
Hann, ásamt hópi vísindamanna frá tíu löndum, hefur stundað rannsóknir á svæðinu í því skyni að öðlast yfirsýn yfir stöðu heimshafanna og þeir fundu hundruð jákvæðra vísbendinga.
Sjávarvísindamennirnir bentu m.a. á að þrýstingurinn frá útgerð í viðskiptaskyni sé minni en áður. Hlutfall sjálfbærra fiskveiða hækkaði úr 60% á árinu 2000 upp í 68% árið 2012.
Þá hefur hlutfall sjávardýra í útrýmingarhættu jafnframt dregist saman úr 18% á árinu 2000 niður í 11,4% árið 2019.
Þá má einnig geta þess að helmingur sjávarspendýra er í raun í sókn og nægir í því sambandi að geta þess að hnúfubaksstofninn hefur aukist í 40.000 dýr frá því að telja aðeins nokkur hundruð dýr árið 1968. Hnúfubakurinn flyst milli Suðurskautslandsins og Ástralíu eftir árstíðum.
Friðun og stjórnun skiptir sköpum
Árið 2000 var innan við eitt prósent heimshafanna friðað en í dag á það við um átta prósent þeirra. Vísindamenn eru sammála um að þess háttar aðgerðir skipti sköpum fyrir sjávardýrin.
Ef við hættum að deyða lífið í sjónum kemur það í rauninni til baka til okkar, því það býr yfir undraverðum viðnámsþrótti.
Fyrir bragðið ætti lausnin að liggja í augum uppi. Við þurfum að grípa til aðgerða núna og hrinda í framkvæmd í auknum mæli aðferðum sem hafa gagnast svo vel á undanförnum áratugum:
Hafa hemil á fiskveiðum, friða dýrategundir í útrýmingarhættu, draga úr sjávarmengun, vernda fleiri og stærri svæði hafsins og það sem mest er um vert, halda hnatthlýnun í skefjum.
Slíkar aðgerðir myndu kosta á bilinu 1.200 til 2.400 milljarða íslenskra króna árlega en vísindamenn eru sannfærðir um að slíkar fjárfestingar myndu færa okkur aftur tífalda upphæðina.
Með því að tryggja sjávarumhverfið værum við nefnilega jafnframt að tryggja lífsviðurværi milljarða.