Það er erfitt að meðhöndla viðvarandi sársauka sem veldur sumu fólki eilífum pínslum og gerir það óvinnufært.
Nú gæti þó verið í augsýn einhver líkn fyrir þær milljónir manna sem á heimsvísu þjást af langvinnum verkjum.
Í fyrsta sinn í sögunni hefur bandarískum vísindamönnum lánast að afkóða þau heilaboð sem liggja að baki sífelldum verkjum.
Uppgötvunin gerir kleift að greina sársaukastig og til lengri tíma litið er vonast til að þetta megi nýta til að þróa ný meðferðarúrræði í þeim tilvikum sem aðrar verkjastillandi aðferðir hafa ekki áhrif.
Niðurstöður vísindamannanna byggjast á rannsóknum á fjórum einstaklingum sem allir þjáðust af stöðugum sársauka, annað hvort eftir heilablóðfall eða aflimun.
Reiknirit gæti spáð fyrir um sársauka
Fyrst var komið fyrir rafóðum í heila til að skrá virkni í tveimur framheilastöðvum sem vitað er að tengjast langvinnum sársauka.
Sjúklingarnir voru síðan beðnir um að fylla reglubundið út spurningalista til að meta sársaukann. Jafnframt voru þeir látnir nota fjarstýringu til að taka reglubundið myndir af heilavirkninni eins og rafóðurnar mældu hana.
Þessi röntgenmynd, sem tekin var af einum þátttakenda rannsóknarinnar, sýnir hvar rafskautin (merkt með rauðu) voru grædd í heilann.
Með svörin og heilaupptökurnar í höndunum gátu vísindamennirnir þjálfað algoritma til að segja fyrir um sársauka á grundvelli virkni tiltekinnar heilastöðvar í ennisblaði. Til viðbótar kom í ljós að stöðugur og skyndilegur sársauki birtist á mismunandi hátt í virkni heilans.
Þessi uppgötvun gæti mögulega átt þátt í að skýra hvers vegna verkjastillandi lyf geta virkað vel á skyndilegan sársauka, þótt áhrifin séu takmörkuð þegar um er að ræða langvinnan sársauka.
Nú gera vísindamennirnir sér vonir um að uppgötvun þeirra geti leitt til þess að nota megi svonefnda djúpörvun í heila sem nýtt meðferðarúrræði við langvarandi verkjum.
Heilinn gefur frá sér meira ástarhormón þegar við eldumst
Heilinn framleiðir meira af efninu oxýtósíni í takt við hækkandi aldur, ef marka má niðurstöður rannsókna. Efnið getur gert okkur hjálplegri og fær um að sýna öðrum meiri kærleika, jafnframt því sem það gerir okkur sáttari í eigin skinni.
Með djúpörvun heilans er átt við að senda rafboð inn í heilann til að trufla heilavirkni sem veldur vanda. Þetta krefst þó heilaskurðaðgerðar og vísindamennirnir segja aðferðina því eiga að vera síðasta úrræði.
Engu að síður er þessi aðferð þegar notuð, m.a. við meðhöndlun á parkinson og erfiðu þunglyndi.