Haustið 1939 stígur hinn þýski Ludwig Lehner inn á geðsjúkradeildina í Eglfing-Haars í München. Lehner hefur nýverið lokið námi sínu í sálfræði og er áhugasamur um að sjá hvernig hugsað er um fatlað fólk borgarinnar.
Sjúkrahússtjórinn Hermann Pfannmüller stendur fyrir kynningu þennan dag sem allir þýskir borgarar geta keypt aðgöngumiða að. Pfannmüller óskar með eigin orðum að uppfræða almenning um „líffræðilegar takmarkanir“ sjúklinganna og jafnframt sýna fram á nauðsyn þess að útrýma þeim.
„Fyrir mig sem nasista eru þessir óskapnaðir greinilega einungis byrði á okkar heilbrigðu þjóð“, segir Pfannmüller og leiðir síðan Ludwig Lehner og aðra gesti inn á barnadeildina á Eglfing-Haars.
Í rúmunum í herberginu liggja 15 – 25 börn milli eins og fimm ára gömul. Og öll eru þau ákaflega vannærð.
„Með þessu tekur það t.d. bara um þrjá-fjóra daga að deyja“
Dr. Hermann Pfannmüller um soltið fatlað barn
„Við drepum hvorki með eitri eða banvænum sprautum. Nei, eins og þið getið séð er aðferð okkar langtum einfaldari og náttúrulegri“, útskýrir Pfannmüller og lyftir síðan upp sjúklega horuðu barni úr rúminu.
Þessi stolti sjúkrahússtjóri greinir frá því að starfsfólk drepi fötluðu börnin með því að svelta þau til bana. Ludwig Lehner horfir vantrúaður í augun á hjálparvana barninu sem Pfannmüller heldur út með útréttum armi.
„Með þessu móti tekur það t.d. um þrjá til fjóra daga áður en það deyr“, segir hann.
Lehner er skelfingu lostinn.
„Ég get aldrei gleymt sýninni á þessum feita brosandi karli – með þessa litlu beinagrind í holdugri höndinni – umlukin af öðrum glorsoltnum börnum“, segir hann síðar.
Pfannmüller er einungis einn af ótal böðlum í heilbrigðisstéttinni sem undir ógnarstjórn nasista svipta líkamlega og andlega fötluð börn lífi, sem og fullorðnu fólki.
Meðan hann sat í fangelsi árið 1924 skrifaði Hitler bókina „Mein Kampf“ þar sem hann mærði stefnu Kaliforníu varðandi hreinleika kynþátta.
Kalifornía var innblástur nasista
Upp úr 1920 framkvæmdu yfirvöld í Kaliforníu fleiri nauðungargeldingar en nokkurs staðar annars staðar í heiminum. Þessi elja ríkisins við að styrkja kynþáttahreinleika íbúanna vakti hrifningu Hitlers.
Frá árinu 1909 og fram til ársins 1963 voru allt að 60.000 manns vanaðir í 32 mismunandi bandarískum ríkjum. Meira en 20.000 slíkar vananir áttu sér stað í Kaliforníu.
Markmiðið var að stöðva útbreiðslu á „andlega fötluðum einstaklingum“ en inngripið hafði einnig það markmið að stöðva innflytjendur í að eignast afkomendur.
Þau próf sem notuð voru til að meta andlega getu einstaklinga voru oft munnleg og menningarlega hlutdræg. Á árunum 1920 – 1945 var fjöldi kvenna frá S-Ameríku sem voru vanaðar langtum meiri en hvítra kvenmanna.
Adolf Hitler var stórhrifinn af þessu framtaki í BNA og þá einkum því vísindalega starfi sem fram fór til að efla kynþáttahreinleika, sem og þær vananir sem voru framkvæmdar í Kaliforníu. Hann tjáði þessa hrifningu í bók sinni „Mein Kampf“ (1924):
„Þetta er núna ríki þar sem maður sér hið minnsta varfærnislegar tilraunir til að auka skilning okkar (á kynþáttum, ritstj.). Þetta á vissulega ekki við um okkar þýska lýðveldi heldur BNA“.
Kenning Darwins veitti innblástur
Ódæðin sem Pfannmüller praktíseraði á sjúkrahúsi sínu í München voru talin nauðsynleg illska af nasistum. Fatlaðir voru sagðir ógna hreinleika germanska kynþáttarins og þeim bæri því að útrýma.
En kenningin um hreinleika kynþáttar var ekki uppfinning nasista. Göfgun á erfðamassa þjóðar hafði verið viðfangsefni lærðra manna frá fornu fari – hugmyndin breiddist þó fyrst fyrir alvöru út upp úr 1869 vegna skrifa Francis Galtons sem var breskur vísindamaður.
Galton var frændi föður þróunarkenningarinnar, Charles Darwins. Innblásinn af kenningunni um náttúruval mótaði Galton félagsdarwiníska kenningu um hreinleika kynþátta:
Manneskjur með besta erfðaefnið ættu að eignast eins mörg börn og kostur var á meðan manneskjur með slæmt erfðaefni ættu ekki að reyna að koma genum sínum áfram.
Kenninguna nefndi Galton „eugenics“ – blanda af gríska orðinu fyrir gott (eu) og ætt (genic). Og hugmyndir hans náðu nokkrum vinsældum m.a. í Stóra-Bretlandi, Sviss, Noregi, Danmörku og Svíþjóð.
Nasistar reyndu með lævíslegum áróðri að sannfæra þjóðina um að hinir fötluðu væru ónauðsynleg, fjárhagsleg byrði.
Það var þó Þýskaland sem var háborg slíkrar kynþáttahyggju í upphafi 20. aldar. Einn helsti talsmaður kynþáttahreinsunar var þýski læknirinn Alfred Ploetz sem kom fram með hugtakið „kynþáttahreinleiki“ um árið 1900. Hann færði rök fyrir því að ríkið hefði mikilvægt hlutverk við að velja veikustu borgarana frá hinum heilbrigðu.
Árið 1920 var eugenic tengt saman við euthanasia – sem kallast á íslensku líknardráp. Það átti sér stað þegar lögmaðurinn Karl Binding og sálfræðingurinn Alfred Hoghe gáfu út bæklinginn „Leyfi til að ljúka lífi sem er ekki þess verðugt að lifa“.
Það var þó fyrst eftir að Adolf Hitler hrifsaði til sín völdin árið 1933 sem kynþáttahreinsun og líknardráp fengu almennilegan pólitískan slagkraft í Þýskalandi.
Fatlaðir nýburar skyldu deyja
Nasistar samþykktu lög um „Forvarnir gegn arfgengum sjúkdómum“ þann 28. júní 1933. Lögin tóku gildi ári síðar og fyrirskipuðu að persónur með marga arfgenga sjúkdóma bæri að gelda.
Tveir þriðju hlutar af slíkum nauðungargeldingum voru framkvæmdar á geðsjúkrahúsum. Neitaði læknir að tilkynna um sjúklinga með slíka sjúkdóma gat hann sjálfur átt von á fangelsisrefsingu.
Hitler sagði þessi lög vera „byltingarkennd“ en slíkar nauðungargeldingar voru einungis fyrsta skrefið á leiðinni að hreinleika germönsku þjóðarinnar.
„Þjóðin er ekki sátt“.
Heinrich Himmler um andstöðuna við að myrða hina fötluðu.
Í ágúst 1939 tilkynnti foringinn enn eina tilskipun. Nú áttu allir starfsmenn á sjúkrahúsum Þýskalands að skrá niður „afmynduð börn“ sem voru fædd með andlega eða líkamlega galla. Þessum skýrslum var safnað saman á sérstakri skrifstofu í Berlín. Þar áttu þrír „sérfræðingar“ að ákvarða hvort þau börn sem skráð voru niður skyldu lifa eða deyja.
Örlög barnanna voru ákvörðuð ýmist með plúsmerki (má lifa), mínusmerki (á að deyja) eða spurningarmerki (á að rannsaka nánar). Allt að 25.000 fötluð börn í Þýskalandi og á herteknum svæðum voru drepin á valdatíma nasista.
En þessi hreinsun þriðja ríkisins á fötluðum átti ekki einungis við börnin.
LESTU EINNIG
Þjóðarmorð er góður bisness
Haustið 1939 undirritaði Hitler líknardrápsprógrammið með tilskipun sem síðar var þekkt sem „Aktion T4“ – en það vísar til stjórnstöðvar verkefnisins sem var í Tiergartenstrasse 4 í Berlín.
Tilskipunin fól í sér að fötluðum skyldi safna saman alls staðar í landinu og þeir fluttir til einnar af sex útrýmingarbúðum í Þýskalandi og Austurríki.
T4-prógrammið átti ekki einungis að tryggja hreinleika hins aríska kynþáttar, heldur einnig að styrkja efnahag ríkisins. Samkvæmt útreikningum nasista myndi þýska ríkið spara 885 milljón ríkismörk fram til ársins 1951, með því að drepa hina fötluðu.
Hinir fötluðu voru í fyrstu drepnir með banvænum sprautum. En eftir 1940 skiptu nasistar yfir í gas, enda var sú aðferð mun skilvirkari og ódýrari.
Allt fór þetta fram með mikilli leynd. Flutningur á fötluðum frá heimilum fór fram í lokuðum vörubílum þannig að íbúar viðkomandi svæðis urðu einskis varir.
Líknardráp átti að tryggja heilbrigði þjóðar
Markmið „Aktion T4“ var að tryggja heilbrigði þýsku þjóðarinnar með því að koma í veg fyrir að svokallaðir óheilbrigðir einstaklingar gætu eignast börn. Drápin á fötluðu fólki kröfðust gaumgæfilegrar skipulagningar.
Læknir Hitlers hlaut dauðadóm
Karl Brandt var persónulegur læknir Adolfs Hitlers og einn höfuðpaurinn að baki „Aktion T4“. Hann var dæmdur til dauða í Nürnberg-réttarhöldunum árið 1946 þar sem hann sagði: „Það var samkennd mín með mönnum sem knúði mig til verka“.
Skrifstofublók skipulagði drápin
Philipp Bouhler var ásamt SS-Oberführer Viktor Brack ábyrgur fyrir framkvæmd „Aktion T4“ og voru þeir þekktir sem „skrifstofudrápararnir“. Báðir voru þeir dæmdir til dauða í Nürnberg.
Kostnaði haldið niðri
Viktor Brack var ásamt Philipp Bouhler einn fremsti skipuleggjandi líknardrápanna. Hann var m.a. ábyrgur fyrir því að morð á fötluðum þýskum þegnum gengu eins skjótt og ódýrt fyrir sig og kostur var.
Læknir drap með kúlupenna sínum
Leonardo Conti var yfirmaður á skrifstofunni sem fór í gegnum skýrslur sjúkrahúsa um fatlað fólk. Með einu pennastriki ákvað hann hverjir skyldu lifa og hverjir deyja. Conti framdi sjálfsmorð árið 1945.
Heilinn slapp með sekt
Sálfræðingurinn Ernst Rüdin var forkólfur nasista í þessari kynþáttahreinsun og heilinn á bak við geldingar. Hann fagnaði þessari baráttu gegn „hinum óverðugu“ en slapp með sekt upp á 500 ríkismörk.
Sjálfar drápsstöðvarnar voru umluktar háum múrum, gaddavír og skiltum með textum eins og „Smithætta!“ sem áttu að halda forvitnum vegfarendum fjarri.
Opinberlega voru hinir fötluðu fluttir í þessar „sérhæfðu stöðvar“ til að gangast undir nýja meðferð. Þau skilaboð fengu þó aðstandendur einungis mörgum vikum eftir flutninginn og á þeim tíma var fyrir löngu búið að drepa fjölskyldumeðlimi þeirra og brenna lík þeirra.
Læknar fölsuðu dánarvottorðin og höfðu að sögn lista með meira en 60 mismunandi banameinum sem þeir gátu skrifað undir. Algengust voru hjartaáföll, heilahimnubólga og lungnabólga.
Einhverjum mánuðum eftir fyrstu tilkynninguna um flutningana fengu ættingjarnir annað bréf, þar sem stóð að sonur þeirra eða dóttir hefðu látist af einhverjum af þessum uppskálduðu orsökum.
Biskup gagnrýndi nasista
Þrátt fyrir þennan viðbúnað nasista voru þessi fjöldamorð á fötluðum börnum og fullorðnum á vörum þjóðarinnar. Starfsfólk á þessum drápsstöðvum talaði oft af sér á veitingahúsum staðarins þegar það hafði fengið sér aðeins of mikið neðan í því.
Grunsemdir breiddust einnig út hjá ættingjum – t.d. þegar þeir fengu að vita að dóttir þeirra hafi dáið vegna botnlangabólgu, þrátt fyrir að botnlanginn í henni hafi verið fjarlægður mörgum árum fyrr. Eða þegar foreldrar fundu hárspennu í þvagi hjá látnum syni sínum.
Þann 3. ágúst 1941 tók kaþólski biskupinn Clemens von Galen af skarið og fordæmdi þessi morð í predikun í bænum Münster.
„Ógæfa mannkyns, ógæfa þýsku þjóðarinnar þegar boð Guðs ‘Þú skalt ekki mann drepa‘ er ekki einungis brotið, heldur einnig umborið og leyft að viðgangast refsilaust“, mælti hann m.a. í predikun sinni gegn nasistum.
Margir af æðstu mönnum nasista töldu að það ætti að hengja Clemens von Galen biskup en þeir óttuðust að skapa kaþólskan píslarvott. Galen lifði stríðið af en lést árið 1946 vegna sýkingar í botnlanga.
Predikun Galens var prentuð og dreift ólöglega meðal þýskrar alþýðu og andspyrna hennar gegn líknardrápsprógramminu fór skjótt vaxandi.
„Þjóðin er ekki sátt“ sagði leiðtogi SS Heinrich Himmler við Adolf Hitler skömmu eftir predikun Galens.
Himmler fyrirskipaði á endanum að loka bæri T4-prógramminu til að koma í veg fyrir uppreisn almennings. Hitler var sammála og þann 24. ágúst 1941 slaufaði hann prógramminu og bannaði aftökur með eiturgasi í þessum sex drápsstöðvum.
Forsprakkar dæmdir til dauða
Stöðvun á „Aktion T4“ batt þó ekki enda á morðin. Fatlaðir þegnar landsins voru áfram drepnir allt fram að lokum síðari heimsstyrjaldarinnar – en drápin urðu nú öllu handahófskenndari.
Þrátt fyrir að búið væri að banna eiturgas fundu nasískir böðlar upp á öðrum aðferðum. Yfirmaður nasísku herlögreglunnar, Arthur Nebe, lokaði á einum tíma tíu andlega veika sjúklinga inni í trékassa og lét sprengja kassann upp með dýnamíti.
Síðar komst hann að því að öllu skilvirkara væri að drepa fatlaða með útblæstri hverskonar véla. Á öðrum stöðum hélt starfsfólk áfram að svelta sjúklingana þar til þeir dóu.
Svo seint sem 29. maí 1945 var hinn fjögurra ára gamli fatlaði Richard Jenne síðasta fórnarlamb nasista og meints „líknardráps“ þeirra. Hann var drepinn af fanatísku starfsfólki á barnadeildinni við Kaufbeuren Hospital nærri München.
Dr. Hermann Pfannmüller bar vitni í maí 1947 við réttarhöldin í Nürnberg en hann var fyrst fangelsaður fyrir glæpi sína fjórum árum síðar.
Sagnfræðingar telja að allt að 750.000 fatlaðir hafi glatað lífi sínu eftir að „Aktion T4“ var undirrituð af Hitler. Auk þess voru 400.000 manns gerð ófrjó gegn eigin vilja.
Forsprakkarnir á bak við líknardrápin komu fyrir fjölskipaðan dóm í Nürnberg-réttarhöldunum. Þar var vitnisburður frá sálfræðingnum Ludwig Lehner – sem hafði heimsótt geðsjúkradeild Eglfing-Haars, þar sem fötluð börn voru svelt í hel – lesinn upp.
Hann átti sinn þátt í að tryggja að þrír af forsprökkunum – Karl Brandt, Viktor Brack og Philipp Boulher – hlutu dauðadóm.
Hermann Pfannmüller sem stóð á bak við drápin á Eglfing-Haars hlaut engan dóm í Nürnberg. Þessi sadíski læknir sem drap alls 445 börn slapp árið 1951 með einungis fimm ára fangelsisdóm.
Lestu meira um hina fötluðu
Suzanne E. Evans: Forgotten Crimes: The Holocaust and People with Disabilities, Ivan R. Dee, 2004