Grænlandssléttbakur eða Grænlandshvalur getur orðið meira en 200 ára og er trúlega langlífasta spendýr jarðar.
Og einmitt þess vegna hafa vísindamenn árum saman haft mikinn áhuga á þeim hulda krafti sem veitir hvalnum svo langt líf.
Nú hefur hópur bandarískra vísindamanna fundið enn einn kubb í það púsluspil sem mynda mun skýringuna.
Með því að taka sýni úr hvölum hafa þeir fundið vísbendingar um eins konar ofurkraft. Nánar tiltekið virðist sem frumur Grænlandshvalsins hafi óvenju mikla hæfni til að lagfæra skaddað DNA.
Vísindamennirnir segja þessa hæfni líkast til gera frumunum kleift að gera við skaða sem annars gæti valdið krabbameinsvaldandi genabreytingum.
Byggja á genakortlagningu
Niðurstöðurnar koma í kjölfar annarrar rannsóknar þar sem fjölþjóðahópi vísindamanna tókst að kortleggja allan erfðamassa hvalsins.
Á grundvelli þeirrar rannsóknar komust menn að raun um að gen hvalsins hafa breyst í takt við þróunina. Það gilti m.a. um ýmis gen sem tengjast krabbameini, öldrun og ævilengd.
Nú hafa bandarísku vísindamennirnir byggt ofan á niðurstöðurnar frá 2015 með því að gera fjölda rannsóknastofutilrauna á frumum úr sýnum, teknum úr Grænlandshvölum. Frumurnar báru þeir saman við frumur úr mönnum, nautgripum og músum.
Langlífasta spendýrið
- Grænlandshvalurinn (Balaena mysticetus) getur orðið um 18 metrar og er í hópi þyngstu spendýra.
- Hvalurinn vegur meira en 80 tonn, svipað og langreyður en innan við helmingur af þyngd steypireyðar, sem er stærsta hvalategundin.
- Það þarf nánast ótölulegan aragrúa frumna til að mynda svo stóran skrokk og í hvert sinn sem fruma skiptir sér getur mögulega orðið hættuleg stökkbreyting. Þess vegna hafa vísindamenn lengi leitað skýringa á þeim háa aldri sem þessir hvalir ná.
Hvernig getur steypireyður lifað á hvalaátu?
Ég furða mig oft á því hvernig jafnstórt dýr og steypireyður getur látið sér nægja að lifa á agnarsmárri átu. Hvernig er þetta hægt?
Á grundvelli tilraunanna mátti sjá að hvalfrumurnar höfðu hæfni til að gera við svokölluð tvístrengjabrot í erfðaefninu, sem sagt skemmdir þar sem báðir DNA-strengirnir höfðu slitnað.
Slíkar skaddanir eru þær alvarlegustu sem orðið geta á erfðaefninu og geta leitt til stökkbreytinga eða frumudauða ef líkaminn nær ekki að gera við þær.
Viðgerðir á skemmdum í erfðaefni reyndust líka vera tíðari í hvalnum en í öðrum spendýrum, jafnframt því sem þær virtust hafa betri verkun, segja vísindamennirnir.