Hollenski vísindamaðurinn Anton van Leeuwenhoek (1632-1723) gerði afar merka uppgötvun hinn 9. október 1676. Í áraraðir hafði hann gert tilraunir með að útbúa frumstæðar smásjár en nú gat hann fyrstur allra komið auga á ýmis „smádýr“ sem seinna urðu þekkt undir heitinu bakteríur eða gerlar.
Hollendingurinn lýsti því sem hann sá í bréfum til bresku vísindaakademíunnar, Royal Society en bréfin staðfestu, svo ekki varð um villst, að hann væri fremstur á sínu sviði. Anton van Leeuwenhoek var þar með orðinn „faðir örveranna“.
Myndband: Horfðu á myndband um uppgötvun Anton van Leeuwenhoek
Rómverjar vöruðu við „smáverum“
Þó svo að Anton van Leeuwenhoek hefði fyrstur allra fylgst með og lýst bakteríum var hann engan veginn sá eini sem vissi um tilvist þessara smásæju vera.
Strax á fornöld gátu lærðir menn sér til um að til væru örverur. Meðal þeirra var rómverski vísindamaðurinn Marcus Terentius Varro (116–27 f.Kr.), sem varaði Rómverja við því að setjast að í námunda við mýrar og flæðilendi:
„Þar þrífast örsmáar verur sem við fáum ekki séð með berum augum en sem fljúga gegnum loftið og finna sér leið inn í líkama okkar gegnum munn og nef og valda alvarlegum sjúkdómum“.
Þeir hófu baráttu gegn bakteríum
Þó svo að fyrstu bakteríurnar hafi sést strax á 17. öld vissu vísindamenn ekki mikið um þessar smásæju örverur fyrr en á 19. öld en þá hóf teymi vísindamanna að rannsaka og kortleggja hinn ósýnilega heim bakteríanna.
Ferdinand Cohn
Var uppi: 1828-1898
Þjóðerni: Þjóðverji
Þessi þýski líffræðingur var talinn einn fremsti gerlafræðingur síns tíma og var meðal þeirra fyrstu sem lögðu fyrir sig kerfisbundnar rannsóknir á gerlum.
Cohn þróaði kerfi þar sem bakteríur voru flokkaðar í ættkvíslir og tegundir en með því móti gerði hann komandi vísindamönnum auðveldara fyrir að rannsaka bakteríur á vísindalegri grunni en fyrr. Aðferð hans við að flokka bakteríur er enn notuð af vísindamönnum í dag.
Robert Koch
Var uppi: 1843-1910
Þjóðerni: Þjóðverji
Robert Koch einangraði fyrstur allra miltisbrandsbakteríuna sem gerði honum kleift að rannsaka lífsferil hennar og þar með gat hann jafnframt fyrstur allra sýnt fram á orsakasamhengi milli bakteríu og sjúkdóms.
Með sama móti átti Koch jafnframt stóran þátt í að opna augu manna fyrir hlutverki baktería hvað áhrærði m.a. berkla, kóleru og nautgripapest, auk þess sem rannsóknir hans mynduðu grunninn að meinafræði (sjúkdómsfræði) nútímans. Árið 1905 hlaut Koch Nóbelsverðlaunin í læknisfræði fyrir störf sín.
Louis Pasteur
Var uppi: 1822-1895
Þjóðerni: Frakki
Þessi franski vísindamaður fann upp marga grunnþætti tækninnar innan örverufræði og var einkar hagsýnn í rannsóknum sínum: Þekkingu skyldi breyta í lyfjameðferðir, bóluefni og lausnir á vandamálum.
Pasteur nýtti rannsóknir sínar m.a. til að aðstoða vínbændur við að vinna bug á bakteríum, auk þess að þróa bóluefni gegn miltisbrandi og hundaæði. Þá fann hann enn fremur upp gerilsneyðingu en með því er átt við hitameðhöndlun sem gert getur sjúkdómsvaldandi örverur óskaðlegar.
Bakteríur voru rannsakaðar á 19. öld
Sá skilningur á bakteríum sem við búum yfir í dag á rætur að rekja til framanverðrar 19. aldar en á þeim tíma lögðust ýmsir vísindamenn yfir rannsóknir á smásæjum örverum.
Meðal þeirra fremstu á þessu sviði voru Frakkinn Louis Pasteur og Þjóðverjinn Robert Koch sem sýndu fram á að örverur geta leitt af sér sýkingar. Þessi vitneskja leiddi m.a. til þróunar bóluefna gegn lífshættulegum sjúkdómum á borð við hundaæði, miltisbrand og berkla.
Leynivörn bakteríanna hefur verið afhjúpuð
Nýjar tilraunir afhjúpa fyrstu varnir bakteríanna gegn sýklalyfjum. Uppgötvunin getur leitt af sér öflugri vopn gegn sýkingum.