Reyndar er það ekki svitinn sem veldur lyktinni, heldur bakteríur sem lifa á húðinni. Þegar ákveðnir svitakirtlar losa svita með fitu og úrgangsefnum brjóta þessar bakteríur niður seytið eða vökvann.
Lífefnafræðin hér að baki er ekki að fullu ljós. Þó er vitað að lífefnasambönd, svo sem fitusýrur og svonefnd þíólefni eiga hlut að máli.
Svitakirtlarnir, svonefndir fráseytikirtlar, eru í hársekkjum undir höndunum, í nára og höfuðsverði, kringum naflann og endaþarminn og á skapabörmum kvenna og pungi karla.
Þessir kirtlar verða ekki virkir fyrr en við kynþroska og þess vegna myndast ekki svitalykt af börnum, alveg sama hve mikið þau hamast.
Gen, matur og sápa stjórna svitalyktinni
Svitalykt er nokkuð einstaklingsbundin og nokkuð öruggt er talið að hún tengist erfðum að einhverju leyti.
En hafir þú þvegið þér vel og notað bakteríudrepandi sápu við fráseytikirtlana líða margir klukkutímar og oft hálfur sólarhringur áður en fólk í nánd við þig finnur nokkra svitalykt.
Vísindamenn telja að ýmsar fæðutegundir valdi sterkari svitalykt, m.a. laukur, hvítlaukur, kál, spergilkál, rautt kjöt og sterkkryddaður matur.
Aðrar rannsóknir hafa sýnt að næstum allir ávextir, sumt grænmeti og egg valdi því að svitinn lykti betur.
Verði svitalyktin skyndilega sterkari en áður, getur það verið til merkis um streitu eða sjúkdóm.