Líf rómverskra keisara einkenndist af óhóflegum munaði og nánast takmarkalausum völdum, auk þess sem þeir áttu stöðugt á hættu að hljóta skelfilegan og blóðugan dauðdaga.
Af þeim 70 keisurum sem ríktu í Rómarveldi á 400 ára tímabili, allt frá Ágústusi til Teódósíusar 1., hlaut alls 51 hrottafenginn dauðdaga. Þetta átti því við um 73 prósent keisaranna sem voru við völd á þessum fjórum öldum.
Aðeins 20 af alls 70 rómverskum keisarum dóu af náttúrulegum orsökum. Hinir 50 hlutu hrottafenginn dauðdaga.
Þessi vægðarlausu dauðsföll stöfuðu í sumum tilvikum af sjálfsvígum (7%), bana á vígvellinum (13%) eða morði og aftökum (49%) sem reyndar voru algengasta dánarorsökin.
„Líf rómversku keisaranna var oft svo örlagaþrungið að hlutskipti þeirra, óháð gerðum þeirra, var oft í samræmi við það. Líf sem einkenndist af nautn eða dyggð, leti eða dugnaði, leiddi til ótímabærrar greftrunar þeirra allra“, ritaði hinn virti breski sagnfræðingur Edward Gibbon á 18. öld.
Flestir keisaranna sem voru myrtir létu lífið í valdabaráttu um krúnuna.
Í að minnsta kosti sex tilvikum voru morðingjarnir lífverðir keisarans úr lífvarðasveitinni sem allir höfðu orð á sér fyrir að losa sig við eigin drottnara.
Eftir árið 31 e.Kr. varð lífvarðasveitin svo valdamikil að meðlimir hennar voru fáanlegir til að myrða þá keisara sem féllu í ónáð, ef rétt upphæð eða nægileg völd buðust.