Lifandi Saga

Læknar Rómarríkis skáru inn að beini

Í meira en 600 ár voru rómverskir læknar oft hættulegri sjúklingum en þeir sjúkdómar sem átti að lækna. En á miðri annarri öld innleiddi „fursti læknalistarinnar“, Claudius Galen, alveg nýjar aðferðir sem áttu eftir að mynda staðal fyrir evrópska læknisfræði í meira en þúsund ár.

BIRT: 04/02/2023

Árið er 157 e.Kr. í hringleikahúsinu í austur-rómverska bænum Pergamum í núverandi Tyrklandi og sitja áhorfendur og fagna ógurlega. Hápunktur dagsins – bardagar skylmingaþrælanna – eru einmitt yfirstaðnir og áhorfendur eru glaðbeittir.

 

Bardagarnir voru báðir spennandi og hæfilega blóðugir. Meðan sigurvegarinn er hylltur í miðju leikvangsins eru illa særðir skylmingaþrælar dregnir til sjúkrastofu hringeikahússins til að hægt sé að tjasla þeim saman.

 

Meðal lækna hringleikahússins er hinn ungi Grikki Claudius Galen sem hefur nýlega snúið aftur til bæjarins eftir að hafa numið læknavísindi hjá helstu fræðimönnum í Alexandríu í Egypalandi.

 

Eftir heimkomuna til Pergamum hefur hann á mettíma öðlast goðsagnakennt orðspor meðal eigenda skylmingaþrælanna sem vilja gjarnan að dýrar fjárfestingar þeirra lifi af og verði tilbúnar í næsta slag eins skjótt og mögulegt er.

 

Galen er einn af bestu læknum sem hringleikahúsið hefur nokkru sinni haft. En fyrir Galen er Pergamom einungis eitt skref á leiðinni að langtum stærra markmiði.

 

Róm/161 e.Kr.

Fjórir dugmiklir keisarar höfðu fylgt hver á eftir öðrum í Rómarríki þegar enn einn framúrskarandi keisarinn, Markús Árelíus, var kosinn árið 161 e.Kr. Þessi nýi keisari var áhugasamur um bæði heimspeki og vísindi og leitaðist við að stuðla að framgangi þeirra við hvert tækifæri.

 

Skurðaðgerðir kenndu Galen líffærafræði

Galen starfaði í hringleikahúsi Pergamums í fjögur ár og samkvæmt hans eigin frásögnum dó ekki einn einasti þeirra skylmingaþræla sem hann meðhöndlaði. Fjölmargar skurðaðgerðir veittu hinum unga lækni einstakan „glugga inn í mannslíkamann“.

 

Það var annars ekki mögulegt fyrir lækna þess tíma að rannsaka innri líffæragerð manna. Í bæði grískri og rómverskri menningu var líkaminn álitinn heilagur, jafnvel þegar manneskjan var látin og það var harðbannað að kryfja mannslík.

 

En í Pergamum náði Galen að skera upp svo marga skylmingaþræla að hann þekkti nánast alla króka og kima mannslíkamans. Reynsla þessi gerði Galen kleift að umbylta læknislistinni í rómverska keisaraveldinu.

 

Ólíkt Grikkjunum höfðu Rómverjar ekki mikla trú á læknavísindum. Erfiðir sjúkdómar voru taldir vera refsing guðanna sem einungis bænir gátu hjálpað – ekki læknir.

LESTU EINNIG

Áður er Galen varð læknir í Róm var litið á lækna sem frumstæða handverksmenn sem voru í lægri félagslegri stöðu heldur en venjulegir handverksmenn.

 

Læknar voru oftar en ekki þrælar og sjaldan rómverskir – einnig Grikkir sem rétt eins og Galen ferðuðust sjálfir til Rómar eða voru fluttir inn af vel stæðum Rómverjum.

 

Margir Rómverjar litu niður á Grikkina sem höfðu þó engu að síður mikil áhrif í Róm, mörgum Rómverjum til mikillar armæðu. Í augum þeirra ógnuðu grískir læknar rómverskum hefðum þar sem fjölskyldufaðirinn bar ábyrgð á heilbrigði fjölskyldunnar.

 

Ef einhver fjölskyldumeðlimur var mikið veikur var sjúklingurinn ekki sendur til læknis, heldur fremur til hofs Asklepíosar lækningaguðs á eyjunni Tíber í miðju Rómar. Rómverjar álitu sjúkdóminn vera hegningu guðanna og því væri einungis hægt að lækna sjúka með bænum.

 

Ef það virkaði heldur ekki var sjúklingurinn sendur á heilsuhæli þar sem fárveikum mönnum frá allri Róm var safnað saman og einangraðir þar frá öðrum íbúum þar til þeir gáfu upp öndina.

 

Allir máttu kalla sig lækna

Önnur ástæða andstöðunnar gegn læknum var að stór hluti rómverskra lækna – oft réttilega – þóttu vera duglausir eða jafnvel lífshættulegir. Auk margra slunginna lækna fannst mikill fjöldi svindlara sem vissulega kölluðu sig lækna en voru í reynd helberir skottulæknar.

 

Engar eiginlegar kröfur voru gerðar um kunnáttu lækna og í reynd gat hver sem er kallað sig lækni. Fyrir vikið fór mikill fjöldi „lækna“ hús úr húsi og falbuðu meðferðir og lyf sem oftast gerðu meiri skaða en gagn. Í mörgum tilvikum voru læknarnir beinlínis hættulegir sjúklingnum.

 

Þess vegna urðu læknarnir oft viðfang rómverskra háðsfugla sem gerðu óspart grín að þeim.

 

Að hvatningu keisarans framkvæmdi Galen margar opinberar skurðaðgerðir á m.a. lifandi svínum. Dýrin voru reyrð niður og síðan skar skurðlæknirinn þau upp til að sýna virkni líkamans.

„Þar til nýlega var Dialus læknir, nú er hann betlari. Núna gerir hann það sama sem betlari og hann gerði, þegar hann var læknir,“ skrifaði háðfuglinn Markús Martiales til dæmis.

 

Meðal andstæðinga þeirra voru einnig valdamiklir stjórnmálamenn sem og rithöfundurinn Plíníus eldri sem í magnþrungnum erindum varaði við afleiðingum af áframhaldandi innrás grískra lækna í Róm.

 

„Lækningar breytast dag frá degi, þurfa stöðugrar endurnýjunar með þar til við allir köfnum í gufunni frá hinum snjöllu grísku heilum.

 

Eins og við höfum ekki spjarað okkur ágætlega án lækna í meira en 600 ár,“ mátti heyra frá stjórnmálamönnum sem voru uppi einni öld fyrir tíma Galens.

 

Keisarinn útnefndi Galen líflækni sinn

Eftir fjögur ár í Pergamum flutti Galen árið 161 e.Kr. í Róm þar sem hann fékk strax stöðu í stærsta hringleikahúsi Rómarríkis, Colosseum. Einnig þar óð hann blóð upp í hendur þegar illa slasaðir skylmingaþrælar voru fluttir inn frá daglegum bardögum í hringleikahúsinu.

 

Brátt tóku sögusagnir um þennan nýja lækni og hans stórkostlegu hæfileika að berast um borgina og skömmu síðar hlaut Galen boð til hins fróðleiksfúsa keisara Markúsar Árelíusar.

 

Keisarinn lagði stund á heimspeki og var stórhrifinn af hæfileikum hins 32 ára gamla Galen. Ekki leið á löngu þar til Galen var útnefndur líflæknir keisarans og fjölskyldu hans.

 

Markús Árelíus hafði lengi óskað þess að venja Rómverja af landlægri hjátrú og hindurvitnum og hvatti Galen til að deila þekkingu sinni bæði í skrifum og opinberum skurðaðgerðum og krufningum.

 

Verk Galens um lækningar voru skyldulesning fyrir lækna miðaldanna.

Hinn metnaðarfulli Galen tók þessu verkefni fegins hendi og innan tíðar var hann orðinn víðfrægur. Gríski læknirinn vissi að fyrirlestrar hans ættu ekki einungis að vera fróðlegir, þeir þurftu einnig að vera skemmtilegir.

 

Rétt eins og hver annar skemmtikraftur krufði hann svín, geitur og apa og í einstökum tilvikum hjarta úr fíl „áhorfendum til ótta og undrunar“.

 

Samkvæmt frásögnum kaus Galen að skera upp heilann á lifandi öpum en af ótta við að áhorfendur yrðu hræddir við afar mennsk viðbrögð apanna voru það oftast geitur og svín sem hann krufði. Samkvæmt skrifum Galens hentaði þetta honum vel, ekki síst þar sem grísirnir veinuðu hærra en aparnir og sáu þar með til þess að áhorfendur misstu ekki einbeitingu.

 

Læknislistin eflist

Hinir mörgu fyrirlestrar Galen um lækningar og skurðaðgerðir efldu nú rómverskar lækningar.

 

Þrátt fyrir að litið væri á skurðaðgerð sem neyðarúrræði þegar mataræði, blóðlát og lyf dugðu ekki lengur urðu læknarnir smám saman eftir daga Galens færir um að framkvæma afar flóknar skurðaðgerðir.

 

Fornleifafræðingar fundu sem dæmi í norður ítalska bænum Rimini meira en 150 mismunandi lækningatól í húsi þar sem rómverskur læknir hélt til á síðari helmingi fyrstu aldar e.Kr.

 

Ólíkt smáðum fyrirrennurum sem seldu þjónustu sína á torgum var þessi læknir samkvæmt fornleifafræðingum mun betur menntaður.

 

Meðal annars var hann bæði með biðstofu og skurðstofu ásamt aðstöðu fyrir ritara. Við uppgröftinn fundu fornleifafræðingar engin tól til kvenlækninga en nær einvörðungu verkfæri sem voru notuð við stungusár og höfuðmeiðsli.

 

Læknar voru þrautalending

Í hinni fornu rómversku borg Pompei fundu fornleifafræðingar undir lok 18. aldar margvísleg læknatól frá fyrstu öld e.Kr. Tækin fundust í húsi sem síðan var kallað „hús skurðaðgerðanna“. Útlit tækjanna eitt og sér skýrir ágætlega hvers vegna Rómverjar forðuðust að leita til lækna.

Leghálsskoðun

Við skoðun á grindarholi kvenna notuðu læknar „spekúlum“ með þremur örmum. Það var sett inn í leggöngin og víkkað út með handfangi og skrúfubúnaði.

Lavement-sprautur

Sjúklingar sem þjáðust af hægðatregðu fengu svonefnt lavement með stórri sprautu. Sprautan sem er full af vatni var sett í endaþarminn. Þannig var þarmurinn skolaður.

Klippur

Rétt eins og í dag notuðu rómverskir læknar einnig klippur til að klippa í vefi. Oftast eru klippur þó nefndar í sambandi við að klippa hár sem læknar sinntu einnig.

Krókar

Þegar læknar þurftu að lyfta æðum notuðu þeir rúnnaða króka. Sárum var hins vegar haldið saman með litlum beittum krókum.

Blóðílát

Samkvæmt Rómverjum innihélt líkaminn fjórar gerðir vökva. Væru þeir ekki í jafnvægi þurfti að tappa af sjúklingnum. Aftöppuðu blóði var safnað í bronskrukkur.

Meðal tólanna er sérstök töng sem var sérstaklega mótuð til að draga örvar úr líkömum hermanna.

 

Það var í fyrsta sinn sem fornleifafræðingar fundu slíka töng og hún og aðrir fundir benda til að læknar hafi náð drjúgum starfsframa í hernum. Þar voru læknar jafnan faglegri vegna mikillar reynslu af skurðaðgerðum á særðum hermönnum.

 

Fundur meitla bendir til heilaaðgerða

Vopnabúr læknisins í Rimini taldi einnig skurðarhnífa sem hafa verið notaðir til að fjarlægja framandi hluti í auga og nálar sem líkast til voru notaðar í aðgerðum við gláku.

 

Auk þess hafa fornleifafræðingar fundið fjölmargar krukkur með áletrunum sem sýna að þær hafa innihaldið ýmiss konar heilsusamlegar jurtir og vökva.

 

Samkvæmt fornleifafræðingum er það samt lítill meitill sem vakti hvað mestan áhuga þeirra því læknirinn gæti hafa notað hann til að opna höfuðkúpuna eftir að hafa skorið litla rifu í hana með öðru verkfæri.

 

Tilgátan um meitilinn er staðfest með fundum frá bæði Englandi, Frakklandi og Grikklandi. Fundir þessir sýna að Rómverjar hikuðu ekki við að framkvæma skurðaðgerðir á heila, oftast til að fjarlægja beinabrot eða stöðva blæðingar eftir mikla höfuðáverka.

 

Fornleifafræðingar hafa einnig fundið í „húsi“ skurðlæknisins í Pompei afar sérhæft verkfæri. Verkfæri þetta er frá lokum fyrstu aldar f.Kr. – um árið 70, áður en starfsferill Galens hófst í Pergamum.

 

Svo vel búnir læknar voru þó undantekningin fyrir tíma Galens.

 

Í ítölsku borginni Rimini hafa fornleifafræðingar grafið upp hús frá síðari hluta fyrstu aldar e.Kr. Í byggingunni fundust 150 læknatól og fjölmargar krukkur undir lyf.

 

Læknar öðlast myndugleik

Eftir lát Markúsar Árelíusar keisara árið 180 e.Kr. þjónaði Galen einnig eftirmönnunum Commodusi og Septemius Severusi. Jafnframt náði hann að skrifa ekki færri en 350 rit og greinar um líffærafræði, skurðaðgerðir og lækningar áður en hann lést um árið 200 e.Kr.

 

Verkin voru að miklu leiti byggð á krufningu hans á dýrum og hann hvatti allt sitt líf aðra lækna til að gera hið sama – bæði til að uppgötva eitthvað nýtt en einnig til að bæta færnina.

 

Með þessum hætti var Galen upphafsmaður tilrauna innan lækninga.

 

Margar af athugunum Galens varðandi starfsemi líkamans reyndust hárréttar. Meðal annars sannaði hann að þvag myndast í nýrunum en ekki í þvagblöðrunni eins og flestir héldu.

 

Hann uppgötvaði fjögur hólf hjartans og bar kennsl á sjö af þeim tólf höfuðkúputaugum sem eru einu taugarnar sem hafa beina tengingu við heilann en ekki hryggjarsúluna. Auk þess hélt þessi óþreytandi læknir því fram að berklar væru smitsjúkdómur.

 

Mikilvægasta uppgötvun hans var samt sú að æðarnar flytja blóð en ekki loft um líkamann. Þetta mikla framlag Galens varð til að læknar Rómarríkis eftir hans dag urðu langtum faglegri ólíkt fyrri tíma skottulæknum.

 

Asklepíos (til hægri) var guð læknislistarinnar hjá Grikkjum og læknaði sjúkdóma. Dóttirin Hygieia (af því er orðið hygiene) kom í veg fyrir sjúkdóma (í miðju).

Grískur læknaguð bjargaði Róm

Árið 209 f.Kr. geisaði heiftarleg smitsótt í Róm. Borgarbúar létust unnvörpum og þegar rómverskir guðir virtust magnvana sendir Róm nefnd til bæjarins Epidauros í Grikklandi þar sem gríski læknaguðinn Asklepíos átti heimkynni.

Meðan nefndin ræddi við Grikkina skreið slanga – táknmynd læknaguðsins – um borð í skip Rómverjanna. Þetta var tekið til marks um að guðinn óskaði þess að koma til Rómar. Þegar nefndin sneri til baka eftir Tíber fljóti til Rómar skreið slangan samkvæmt þjóðsögunni yfir borðstokkinn og synti til eyjunnar Tíberinu í miðju fljótinu. Rómverjar reistu því fyrsta Asklepíos-hof borgarinnar á eyjunni. Eftir þetta hvarf farsóttin eins og fyrir kraftaverk. Á næstu árum risu fleiri slík hof út um alla Ítalíu. Í hofunum gátu sjúklingar fært guðinum fórnir í von um betri heilsu.

 

Læknirinn öðlaðist myndugleik fremur en að vera álitinn eins og hver annar farandsölumaður með vafasaman varning.

 

Á árunum eftir andlát Galens náðu margir læknar Rómarríkis færni sem hélt velli næstu þúsund ár og Galen fékk viðurnefnið „fursti lækninganna“.

 

Á fjórðu öld leituðust Rómverjar við að byggja upp opinbert kerfi sem átti að stýra og veita læknum ráðgjöf í síminnkandi ríki. Þetta framtak stóð þó ekki lengi því Rómarríki var hertekið af barbörum úr norðri og austri.

 

Í 1.500 ár voru verk Galens kennd

Hrun Rómarríkis undir lok fimmtu aldar e.Kr. fól í sér að mikill hluti þeirrar þekkingar sem rómverskir læknar höfðu safnað saman um aldirnar glataðist.

 

Fyrir einskært happ varðveittust 20 af verkum Galens sem féllu í hendur Araba þegar þeir hertóku Miðausturlönd á sjöundu öld.

 

Arabískir læknar sáu skjótt gildi verkanna og hugmyndir Galens voru þýddar yfir á arabísku. Þaðan breiddust verkin út nokkrum öldum síðar til Vestur-Evrópu þar sem verk Galens þóttu viðtekið námsefni.

 

Rómverskir læknar skirrðust ekki við að skera í sjálft augað. Samkvæmt fornum textum gátu þeir jafnvel skorið sjúklinga vegna gláku.

Í 1.500 ár var Galen óumdeilt kennivald um lækningar. Og það þrátt fyrir að lýsingar hans á líffærafræði væru ófullkomnar og fullar af villum þar sem meginhluti rannsókna hans fór fram á dýrum.

 

Kenningar Galens tiltóku m.a. mörg líffæri sem voru ekki til, rétt eins og að slagæðar, bláæðar og taugar væru þrjú ólík kerfi sem tengdust ekki innbyrðis, samkvæmt Galen.

 

En kaþólska kirkjan viðhélt um aldaraðir banninu við að kryfja lík, enda taldi hún það vera syndsamlegt. Því gat enginn afhjúpað villur Galens.

 

Það var fyrst árið 1543 sem endurreisnarlæknirinn Andreas Vesalius gaf út bókina „Uppbygging mannslíkamans“ þar sem hann tiltók meira en 200 villur í námsefni Galens um líffærafræði mannsins.

 

Ein tækni Galens lifði þó af niðurlægjandi gagnrýni endurreisnarinnar: Að taka púls sjúklingsins – nokkuð sem er enn þann dag í dag gert.

 

Núverandi staða: Róbótar verða skurðlæknar

Þekking Rómverja til forna lagði grunnsteininn að læknavísindum nútímans. En á síðustu árum hafa róbótar náð inn í skurðstofurnar. Bandaríski róbótinn STAR er nú þegar nákvæmari en skurðlæknar – árið 2016 saumaði hann grísaþarm saman mun betur en læknar gátu – og það er einungis spurning um tíma hvenær fyrsti róbótaskurðlæknirinn fær að spreyta sig á fyrstu manneskjunni.

LESTU EINNIG

HÖFUNDUR: Ritstjórn

© “Verk Galens” frá árinu 1541, © bridgeman, © Með leyfi frá The Claude Moore Health Sciences Library, University of Virginia, © Scanpix/akg-images, © Sheikh Zayed Institute/ Children's National Medical Center

Náttúran

Bakteríur örva ilminn af sumarregni

Heilsa

Er mikið um kyrrsetu hjá þér í vinnunni? Þá getur kaffi lengt líf þitt samkvæmt stórri rannsókn.

Heilsa

Lækning gegn útbreiddum meltingartruflunum finnst í flestum eldhúsum.

Náttúran

Jörðin eftir manninn: Svona munu leifar siðmenningar okkar hverfa

Heilsa

Læknar hafa grætt heilt auga í mann

Maðurinn

Nú geta vísindamenn ráðskast með drauma okkar

Tækni

140.000 veirutegundir hafa fundist í þarmaflórunni

Maðurinn

Kornabörn þekkja móðurmálið sitt

Alheimurinn

Tvíburi Vetrarbrautarinnar finnst í útjaðri alheimsins

Lifandi Saga

Hvers vegna klæddust fangar röndóttum búningum í gamla daga?

Lifandi Saga

Af hverju er rússneskur bær í Noregi?

Jörðin

Leiða loftslagsbreytingar til fleiri jarðskjálfta?

ÁSKRIFT AÐ VÍSINDI.IS

Prófaðu í 14 daga ókeypis!

  • Fullur aðgangur að vefnum okkar með rúmlega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Lifandi vísindi/Lifandi saga í rafrænni útgáfu á vefnum,
  • Aðeins 1.790 krónur á mánuði.
  • Engin skuldbinding – Þú getur hætt hvenær sem er.

ÁSKRIFT AÐ TÍMARITINU

Þrjú tölublöð + gjöf: Skemmtilegur sjónauki
  • Þrjú næstu tölublöð Lifandi vísinda/Lifandi sögu – sent heim til þín – eins færðu lítinn og vandaðan sjónauka að gjöf.
  • Fullur aðgangur að vefnum okkar – visindi.is – með tæplega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Spennandi greinar og flottar myndir sem svala forvitni þinni.
  • Þú getur hætt eftir tilboðið en ef þú heldur áfram skuldbindur þú þig aðeins þrjú tölublöð í einu og þú getur sagt upp hvenær sem sem og klárar þá tímabilið sem er hafið.
  • Venjuleg áskrift – þrjú tölublöð – kostar aðeins 7.590 kr

Sjónauki og þriggja blaða áskrift – Alls 3.800 kr.

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Search

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Viltu lesa greinina?

Fáðu aðgang að visindi.is

Ókeypis í 2 vikur!

Eftir það kostar eingöngu 1.790 kr. á mánuði og enginn uppsagnarfrestur.

Innifalið er aðgangur að öllum greinum á vefnum ásamt rafræna útgáfu af nýjustu tölublöðunum.

  • Fullur aðgangur að visindi.is
  • Frábærar myndir og myndbönd
  • Aðgengilegt í öllum snjalltækjum
  • Fullur aðgangur að gríðarlegu magni eldri greina
  • Nýjustu tölublöðin í rafrænu formi

Núverandi áskrifendur að tímaritinu fá að sjálfsögðu ókeypis aðgang að vefnum og þurfa bara að virkja aðgang sinn hér.

Ef þú ert þegar áskrifandi að visindi.is